15.12.1987
Sameinað þing: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2192 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

1. mál, fjárlög 1988

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla því að sjálfur fjmrh. landsins noti greinargerð fyrir atkvæði sínu til að gera grein fyrir þeirri skoðun sinni á stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar og þá væntanlega stuðningsmönnum þess fjárlagafrv. sem hann er að berjast fyrir að það séu taugaveiklunarkennd viðbrögð ef menn rísa upp til að verja æru sína og leiðrétta missagnir í málgagni flokks hæstv. ráðherra, missagnir sem eru þandar yfir forsíðu blaðsins daginn sem atkvæðagreiðsla fer fram eftir 2. umr. fjárlaga. Það sýnir virðingarleysi þessa hæstv. ráðherra fyrir öðrum þingmönnum, kannski frekar konum en körlum, ég veit það ekki, að láta slíkt frá sér fara og það í grg. við atkvæðagreiðslu. Ef hann hefur þessar skoðanir, hæstv. ráðherra, vil ég ráðleggja honum að halda þeim fyrir sig.