20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

Sláturleyfi sláturhússins á Bíldudal

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Hv. málshefjandi, 1. þm. Vestf., beindi til mín þeirri fsp. hvort ég teldi að það þyrfti að gera hærri kröfur til vatns sem notað er til kjötþvotta en til drykkjarvatns fyrir mannfólk ef ég skildi fsp. hans rétt. Reyndar sýnist mér ekki á þeim hv. þm. Vestf. sem hér hafa talað að það muni vera mjög bráðdrepandi þetta vatn sem þeir hafa látið ofan í sig. Þeir virðast furðu hressir. Það er frekar að manni dytti í hug að hv. 8. þm. Reykv. hafi látið eitthvað ofan í sig sem gæti hafa verið klórblandað eða alla vega eitthvað sem hefur ýtt við honum. (EKJ: Kemur framsóknarnáttúran upp í þér. ) Ég hirði ekki um að ræða sérstaklega við hann um SÍS-vald eða annað sem hann vill kalla enn þá óvirðulegri nöfnum. Það verður hann að gera upp við sig hvaða orðbragð hann vill hafa í frammi í því sambandi.

En varðandi fsp. frá hv. málshefjanda sýnist mér út af fyrir sig að það sé ekki hægt að færa fyrir því sterk rök að vatn sem hæft er til drykkjar og talið leyfilegt sé ekki nothæft í matvælaframleiðslu, enda mun raunin sú að það sé notað til t.d. fiskvinnslunnar, ef ég veit rétt og skildi þá hv. þm. sem hér hafa talað á undan. Hins vegar hefur þetta ekki komið á borð hjá mér. Héraðslæknir Vestfjarða hefur ekki rætt þetta mál eða kvartað við heilbrigðisráðuneytið um málið og heilsugæslulæknir þessa svæðis ekki heldur fjallað um það. Hins vegar vitum við að hér er farið eftir lögum og reglum og ég treysti því að hv. þm. leggi ekki til að fram hjá slíkum lagasetningum og reglugerðum sé gengið heldur vinni menn eftir því sem við hér höfum áður samþykkt og þeim vinnubrögðum sem áður var ákveðið að viðhafa. Ég veit að hæstv. landbrh. mun ekki heldur vilja brjóta þau lög eða þær reglugerðir.

Hann hefur út af fyrir sig svarað fyrir það hér á undan og það eru auðvitað dýralæknarnir sem þurfa að ábyrgjast þetta, gefa út leyfi til slátrunar á þessum stöðum. Það er þeirra mál en ekki mál þeirra lækna sem heyra undir heilbr.- og trmrn. Það hygg ég reyndar að hv. málshefjandi viti af fyrri reynslu í hans fyrri störfum.