15.12.1987
Sameinað þing: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2193 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

1. mál, fjárlög 1988

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég harma þessi óskiljanlegu taugaveiklunarkenndu viðbrögð hæstv. ráðherra og óvirðuleg ummæli um fyrrv. ráðherra og starfsbróður minn í ríkisstjórn á sínum tíma sem með sinni framkomu og störfum hefur áunnið sér traust og virðingu þjóðarinnar almennt að ég held. Ég hef aldrei heyrt öðruvísi um þá virðulegu persónu talað. Ég tek undir það, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði rétt í þessu, að það væri metið, a.m.k. frá minni hálfu, og ég mundi líta á hæstv. fjmrh. sem meiri mann ef hann bæði virðulegan þm. Ragnhildi Helgadóttur afsökunar á sínum taugaveiklunarkenndu viðbrögðum.

Hvað Alþýðublaðið snertir er það að ske nú að hæstv. ráðherra er að afneita blaðinu á sama hátt og Morgunblaðið hefur afneitað Sjálfstfl., en ég veit ekki betur en Alþýðublaðið taki afstöðu með Alþfl. og öfugt.

En ég tek undir ráðleggingar hv. 7. þm. Reykv. og ég vil gera þær að minni ósk og lít ég öðrum augum á hæstv. fjmrh. eftir.