15.12.1987
Sameinað þing: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2197 í B-deild Alþingistíðinda. (1567)

1. mál, fjárlög 1988

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þessi atkvæðagreiðsla snýst um hvort menn styðja eða styðja ekki þá sérkennilegu nýbreytni, sem tekin var upp við gerð íslensku fjárlaganna að ég hygg á síðasta ári, að færa hluta af útgjöldum Bandaríkjahers eða Atlantshafsbandalagsins til hermála inn og út í gegnum íslensku fjárlögin. Hér er sem sé um að ræða að liður, sem er algerlega óviðkomandi íslensku þjóðinni, útgjöld til hernaðarmála og þar með óviðeigandi og niðurlægjandi að færa það inn í íslensku fjárlögin, er færður inn og út, gjöld upp á 308 millj. 980 þús. kr. og tekjur á móti, það er reyndar ekki sagt frá hverjum, upp á 308 millj. 980 þús. kr. Mismunurinn á þessum tveimur tölum, herra forseti, er núll. Þetta kemur íslensku fjárlögunum og íslenska ríkinu jafnmikið við og þetta núll, nákvæmlega ekki neitt. Ég hygg að hér sé að einhverju leyti á ferðinni gamall draugur frá þeirri tíð þegar hæstv. fyrrv. utanrrh. og núv. seðlabankastjóri, Geir Hallgrímsson, var að plata þessu hernaðarmannvirki inn á íslensku þjóðina, m.a. undir því yfirskini að þetta mundi auðvelda bændum heyskap. Ég hygg að með sama áframhaldi geti þess verið að vænta að öll útgjöld t.d. til rekstrar herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli verði færð undir íslensku fjárlögin. (Forseti hringir.) — Ég er að gera grein fyrir atkvæði mínu, herra forseti, með svipuðum hætti og hér hefur verið gert nokkrum sinnum fyrr í dag og leyfi mér að halda því fram að ég sé enn innan þeirra marka sem þá voru leyfð óátalið. (Forseti: Hv. þm. er að mati forseta nákvæmlega innan þeirra marka þar sem gerð var athugasemd áður.) Já, og þá skal ég ljúka við að gera grein fyrir atkvæði mínu, herra forseti. Ég tel þetta fullkomlega óeðlilegt formlega séð. Hér er ekki flutt um það brtt. hvort leggja eigi niður þessa starfsemi eða ekki, eins og mér heyrist að sumir hv. þm. hafi misskilið tillöguflutninginn, heldur um það hvort eðlilegt sé að útgjöld sem eru alfarið kostuð af erlendum aðilum, til þarfa sem koma íslenska þjóðfélaginu ekkert við, séu færð inn og út gegnum íslensku fjárlögin. Hér er um stórt grundvallaratriði að ræða sem ég vil að hv. þm. geri sér grein fyrir áður en þeir greiða atkvæði.

Ég vil ekki horfa upp á það að eiga e.t.v. von á því, virðulegur forseti, að með sama áframhaldi verði innan tíðar öll útgjöld til herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli færð inn og út, tekjur og gjöld, gegnum íslensku fjárlögin. Ég segi því já við að fella þennan lið út og koma þar með þeim skilningi á að svo skuli vera í framtíðinni að þessi útgjöld. sem eru okkur óviðkomandi, standi ekki í íslensku fjárlögunum.