15.12.1987
Efri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2200 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

195. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Júlíus Sólnes):

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga, stjfrv., um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Við höfum tekið þátt í nefndarstörfum hv. fjh.- og viðskn. Ed. og fjallað um þetta frv. Við þm. Borgarafl. lýsum þeirri afstöðu okkar að við erum á móti sérstökum skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, eins og skatti á atvinnuhúsnæði almennt. Ef hins vegar endilega þarf að leggja sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði mundum við heldur kjósa að það yrði athugað með hvaða hætti yrði þá lagður skattur á allt atvinnuhúsnæði í gegnum t. d. hærri eignarskatta þó að við séum í sjálfu sér ekki sérlega hrifnir af slíkri hugmynd. Miklu skynsamlegra er að láta verslunarfyrirtæki greiða skatta eftir þeim tekjum sem þau kunna að hafa á sínum rekstrarreikningi í stað þess að vera að leggja sérstakan skatt á húsnæði þessara fyrirtækja. Þessi skattur er nú búinn að vera á í allmörg ár. Hann, eins og margir aðrir skattar, var lagður á tímabundið. Var hugmyndin væntanlega sú á sínum tíma með þessum skatti að refsa mönnum fyrir allt of margar byggingar, verslunarbyggingar og skrifstofubyggingar, sem var talið að væru meira eða minna óþarfar, einkum hér á höfuðborgarsvæðinu. Eins og í sambandi við aðra skatta sem eru lagðir á tímabundið vill þetta með „tímabundið“ gufa upp með tímanum og þessir skattar verða fastir. Og það er ekki nokkur leið að losna við þá aftur.

Við viljum hins vegar leggja okkar fram til þess að það megi losna við þennan skatt í eitt skipti fyrir öll og leggjum því til að frv. verði fellt.