15.12.1987
Efri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2202 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

137. mál, launaskattur

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ásamt hv. 7. þm. Reykn. hef ég skilað sérstöku nál., minnihlutaáliti um frv. til laga um breytingu á lögum um launaskatt.

Frv. þetta, sem hæstv. ríkisstjórn flytur í framhaldi af efnahagsráðstöfunum sínum í sumar, gerir ráð fyrir að um verði að ræða vissa samræmingu á álagningu launaskatts en hún er framkvæmd með þeim hætti að um er að ræða verulega íþyngingu fyrir útflutningsatvinnuvegina. Það er talið að þessi launaskattsbreyting þýði um 250 millj. kr. fyrir sjávarútveginn sérstaklega svo að dæmi sé nefnt.

Það er mín skoðun að eðlilegt væri við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu eftir hið mikla góðæri sem við höfum upplifað núna á síðustu einu eða tveimur árum væri eðlilegt að ýmsar þjónustugreinar sem hafa blómstrað og dregið til sín stórfé væru látnar bera skatta til að halda jöfnuði í ríkisútgjöldum. Ég tel hins vegar algjörlega óeðlilegt, miðað við þær aðstæður sem nú eru í sjávarútveginum þar sem mjög hefur sigið á ógæfuhliðina fyrir sjávarútveginn, að íþyngja honum með launaskatti af því tagi sem hér er gerð tillaga um.

Það hefur komið fram í umræðum um fjárlög í gær að hallinn á frystingunni er talinn vera 7–9%. Það er talað um að hallinn á fiskiðnaðinum í heild sé 3–4% og sérfræðingar stjórnarflokkanna gefa yfirlýsingar um það, m.a. Víglundur Þorsteinsson sem er einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstfl., að staðan sé þannig, ekki rétt? Nei. Hv. þm. gerði enga athugasemd við mal mitt, mér sýndist ... (GHG: Jú, það er gerð athugasemd hérna.) Það er gerð athugasemd við það, að hann sé ekki einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstfl. (GHG: Nei, að sjálfsögðu ekki.) Nei. Það er þá Hannes Hólmsteinn kannski enn þá í hásætinu. Jæja, hvað sem um það er, ég get tekið þetta aftur, herra forseti, ef það særir viðstadda sjálfstæðismenn. A.m.k. hafa ýmsir mætir menn í Sjálfstfl. hann er væntanlega þar enn þá og varaþm. einhverra — (Gripið fram í: Aðgát skal höfð í nærveru sálar.) lýst því yfir að staða atvinnuveganna sé nú þannig að raun og veru sé gengið fallið. Og miðað við þær aðstæður er það okkar skoðun að það sé algjörlega óeðlilegt að leggja á þennan launaskatt. Þess vegna erum við, ég og hv. 7. þm. Reykn., andvígir þessu frv.

Ég bendi hins vegar á að frv. er þannig útbúið að það er í raun og veru mjög erfitt að greiða atkvæði gegn einstökum efnisgreinum þess vegna þess að þetta eru tillögur almennt um launaskatt og mjög erfitt að flokka það út hverju ætti þá að greiða atkvæði á móti fyrir þá sem eru andvígir þessari sérstöku álagningu á útflutningsatvinnuvegina. Þess vegna mun ég fyrir mitt leyti greiða atkvæði gegn frv. í heild þegar það verður borið upp í 3. umr., en sitja hjá við meðferð málsins hér við 2. umr.