15.12.1987
Efri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2203 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

137. mál, launaskattur

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Við erum að fjalla hér um eitt skattafrv. enn. Mig langar til að athuga hvort ég hef lært hvernig ég á að hegða mér eins og hæstv. fjmrh. Hann segir að skattkerfið eigi að vera einfaldara, skilvirkara og réttlátara. Ég vona að ég hafi lært rétt þuluna. Þetta frv. ber ekki þessi einkunnarorð með sér, að það sé einfaldara, skilvirkara og réttlátara. Í raun og veru er þetta dæmigert íslenskt skattafrv. og er alveg með ólíkindum hvað stjórnmálamenn á Íslandi hafa verið lagnir við að finna upp alls kyns skatta og álögur á fyrirtæki og allan almenning í landinu. Það hefur oft verið sagt að frændur okkar á Norðurlöndunum séu meistarar í því að leggja skattálögur á þegnana, en ég er farinn að efast um að þeir standi með tærnar þar sem við höfum hælana í alls konar smásköttum og í fjölbreytileika þeirra skatta sem við leggjum á. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að launaskattur er nánast orðinn að hefð. Það verður mjög erfitt að losa sig við hann. Þó svo ég álíti að nú hafi kannski verið tækifærið í þessari allsherjar hreingerningu hæstv. fjmrh. að sópa m.a. launaskattinum burt, en væntanlega hefur hann séð eftir tekjunum sem hann gefur. Sannleikurinn er reyndar sá að m.a. byggingarsjóðir ríkisins eru nánast reknir að hluta til á launaskattinum svo það er erfitt um vik að losa sig við hann.

En ég tek heils hugar undir það með hv. 7. þm. Reykv. að hér er breytt til hins verra frá því sem áður var að láta útflutningsatvinnugreinarnar bera launaskatt líka. Eins og flestum hv. þm. ætti að vera kunnugt er ekki allt of björgulegt á þeim bæ þessa dagana meðan bandaríkjadalur heldur áfram hraðferð niður á við og afurðirnar verða í raun verðminni og verðminni á helstu útflutningsmörkuðum okkar.

Ég verð að segja eins og er að eins og ástandið er ætti allt að einu að vera hægt að setja launaskatt á landbúnaðarstörf eins og þau fyrirtæki sem bjástra við fiskverkun, þau fáu fyrirtæki sem enn þá reyna það.

En hvað um það. Ég hygg að við munum taka þá afstöðu þm. Borgarafl. að taka ekki þátt í efnislegri meðferð frv. við 2. umr., þ.e. við munum hvorki greiða atkvæði með né á móti, en áskiljum okkur allan rétt á því að hafa um það skoðanir við 3. umr.