15.12.1987
Efri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2204 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

137. mál, launaskattur

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. frá minni hl. fjh.- og viðskn., þá gafst mér færi á að fylgjast með störfum nefndarinnar í þessu máli. Ég hef tekið þá ákvörðun fyrir hönd Kvennalistans að styðja álit minni hl., fyrst og fremst vegna þess sem þar kemur fram, að við leggjumst gegn hækkun skatta á útflutningsatvinnuvegina eins og gert er ráð fyrir hér. Það er þá fyrst og fremst vegna þess að rekstrarstaða þeirra hefur versnað stórum á sama tíma og raunvextir eru hærri en þeir hafa áður verið.

Í frv. er kveðið á um að önnur meginatvinnugrein eða atvinnuvegur sé undanþegin skattskyldu á vinnulaun, þ.e. landbúnaðarstörfin. Okkur finnst eðlilegt að eins og nú er ástatt muni það sama eiga við um fiskvinnsluna. Þess vegna styð ég fyrir hönd Kvennalistans þetta minnihlutaálit.

Við munum, þingkonur Kvennalistans, að öðru leyti ekki taka þátt í atkvæðagreiðslu um þetta mál við 2. umr. en fylgjast með framgangi málsins í deildinni.