15.12.1987
Efri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

137. mál, launaskattur

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir þau ummæli hv. þm., sem hér hafa talað, að það sé vissulega erfitt og óeðlilegt að þurfa að leggja á þann skatt sem hér um ræðir vegna þeirrar erfiðu stöðu sem útflutningsatvinnuvegir okkar eru komnir í, en með tilliti til þess að það hlýtur að vera meginstefna okkar allra að atvinnuvegirnir sitji við sama borð, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals, 2. þm. Norðurl. e., er hér um ákveðið samræmingaratriði að ræða í sambandi við útflutningsiðnað og samkeppnisiðnað sem ég held að allir hv. þm. hljóti að vera sammála um að nauðsynlegt sé að viðhafa ef atvinnugreinarnar eiga að sitja á annað borð við sama borð.

Hins vegar hlýt ég að lýsa ánægju minni yfir því að skilningur hv. þm., sem hér hafa talað, a hinni erfiðu stöðu útflutningsatvinnuveganna er mjög ríkur. Við hljótum að vænta þess að þegar að því kemur að ræða þurfi stöðu útflutningsatvinnuveganna í heild og gera þær ráðstafanir sem duga, því hér erum við raunverulega að tala um smámuni miðað við það erfiða heildardæmi sem við stöndum frammi fyrir, fáum við góðan stuðning hv. þm., sem hér hafa talað, til að lagfæra stöðu útflutningsatvinnuveganna. Ég trúi ekki öðru fyrr en á reynir en að hv. 7. þm. Reykv. muni taka þar vel í árina með okkur.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að því miður hefur fall dollarans, sérstaklega núna síðustu vikur og daga, haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir útflutningsatvinnuvegina í heild, sérstaklega á útflutning frystra sjávarafurða sem taka u.þ.b. 70% af heildartekjum á grundvelli dollaragreiðslna. Þess vegna hlýt ég og við öll að vænta þess að þegar við gerum upp það stóra og erfiða dæmi, sem við því miður komum til með að standa frammi fyrir, munum við njóta góðs stuðnings hv. þm. sem hafa talað á undan.