15.12.1987
Efri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

137. mál, launaskattur

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég fagna því sérstaklega að hv. þm. stjórnarliðsins skuli vilja hefja almenna umræðu um stöðu útflutningsatvinnuveganna. Það er eitt af því brýna sem fyrir þinginu liggur að ræða þau mál ítarlega nú þegar, áður en jólaleyfi þm. hefst, þannig að okkur gefist öllum kostur á að bera okkur saman um stöðu útflutningsgreina. Og ég fagna því að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson er tilbúinn til þess eftir áramót að styðja okkur þm. stjórnarandstöðunnar í því að hjálpa til varðandi þróun og stöðu útflutningsgreinanna. Það væri vel þegið að hann byrjaði strax í dag og legðist gegn þessu frv., sem er fyrst og fremst skattur á sjávarútvegi, sem hann er nú að samþykkja. Það er býsna athyglisvert að það skuli verða eitt af hans fyrstu verkum í þessari virðulegu deild löggjafarsamkomunnar að íþyngja sjávarútveginum. Má þá kannski uppfæra á hann hendinguna „Þetta sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann“. Það er býsna dapurleg hending, en engu að síður niðurstaða, virðist mér.

Staðan er þannig, herra forseti, í sambandi við þróun útflutningsatvinnuveganna, svo ég nefni eitt dæmi, að það er talið að raungengi íslensku krónunnar, ef við segjum að það hafi verið 100 á árinu 1986, hafi hreyfst þannig að það var 110 í janúar 1987 en er komið upp í 129 í desember 1987. Því er spáð í gögnum frá Seðlabankanum, dags. 27. nóv. 1987, að raungengi íslensku krónunnar muni á næsta ári að óbreyttri stefnu stjórnvalda, skattpíningarstefnunni og fleiru sem á henni hangir og hv. þm. Halldór Blöndal og Guðmundur H. Garðarsson beita sér hér hart fyrir, hækka á næsta ári úr 129 í desember í 140 í desember á næsta ári. Það væri fróðlegt ef hv. þm. vildu halda áfram hinni almennu umræðu um stöðu útflutningsatvinnuveganna í deildinni með því að greina okkur frá því, annaðhvort nú eða við 3. umr. málsins, hvernig þeir hugsa sér að koma til móts við þann vanda sem blasir við útflutningsatvinnuvegunum þegar samkeppnisstaða þeirra mun að öðru óbreyttu versna á næsta ári um 10% til viðbótar við það sem liggur fyrir í dag.

Ég hef aflað mér ítarlegra upplýsinga um þessi mál, bæði varðandi þróun kauptaxta og vaxta hjá útflutningsatvinnuvegunum svo og allan annan kostnað, og það er ákaflega fróðlegt að fara yfir það. Ég efast um að þessir hv. þm., sem eru núna að reyna að pína í gegn þetta launaskattsfrv., hafi farið yfir þessi gögn eins og þeim ber þó skylda til um leið og þeir eru að taka á sig pólitíska ábyrgð á því að íþyngja útflutningsatvinnuvegunum með þeim hætti sem hv. þm. Halldór Blöndal og stuðningsmaður hans Guðmundur H. Garðarsson leggja hér til.

Ég skora á þá að kynna sér þessi gögn og gera þinginu fyrir hátíðar grein fyrir því hvernig þeir ætla að taka á vanda útflutningsatvinnuveganna. Ég hef orðið var við það í dag að þm. Sjálfstfl., sérstaklega þeir, telja þingið hafa yfrinn tíma til að fjalla um mál það sem eftir lifir til hátíðanna. Þess vegna hygg ég að það væri skynsamlegt að þeir ræddu það við forseta þingsins og formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar að það yrði tekinn eins og einn dagur í að ræða um vanda útflutningsatvinnuveganna. Ég er sannfærður um að við þm. stjórnarandstöðuflokkanna að minnsta kosti þm. Alþb., mundum taka því mjög vel ef þessir þm. beittu sér fyrir almennri umræðu um vanda útflutningsatvinnuveganna og tækjum í það eins og einn dag á þeim sólarhringum sem eftir eru fram að aðfangadegi — ég geri ekki ráð fyrir að menn verði mikið á aðfangadag í þessu. Bæði væri fróðlegt að fá almenna umræðu um þessi mál og sömuleiðis mun ég ganga eftir því að þeir sýni tillögur um hvernig þeir vildu leysa þennan vanda útflutningsatvinnuveganna. Það verður pantað núna fyrir hátíðarnar hjá þeim og gengið eftir því og fylgst með því á dagskrám þingsins hvort vandi sjávarútvegsins verður að þeirra frumkvæði sérstaklega til meðferðar eða hvort hv. þm. Halldór Blöndal ætlar að láta nægja að leggja 400 millj. kr. skatt á útflutningsatvinnuvegina miðað við þá þróun sem liggur fyrir, 10% verri staða en var í upphafi ársins og horfur á öðru eins á næsta ári.

En ég fagna því að þessir hv. þm. skuli hafa kveikt á því, eftir þessi fáu orð sem við fluttum í upphafi þessarar umræðu, að það er til nokkuð sem heitir vandi útflutningsatvinnuveganna.