15.12.1987
Efri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

137. mál, launaskattur

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að þeir hv. 2. þm. Norðurl. e. og hv. 14. þm. Reykv., sem láta sér annt um hagsmuni útflutningsatvinnuveganna, kvöddu sér ekki hljóðs við 2. umr. þessa máls núna áðan. Það er nokkuð athyglisvert og bendir til þess að málið sé flókið og snúið og þeir eigi fá ráð í fórum sínum til að bregðast við hinum mikla vanda önnur en þau að leggja launaskattinn á þennan atvinnuveg upp á 400 millj. kr. Nú stendur hins vegar yfir 3. umr. þannig að þeir eiga enn kost á því að koma málinu áleiðis, koma sjónarmiðum sínum á framfæri, ella verður gengið eftir því við síðara tækifæri eins og ég gat um í fyrri umræðu því ég tel það rétt, sem þeir sögðu báðir, að málið þarfnast ítarlegrar umræðu og það er brýnt að þingið taki á þessum vanda áður en það fer heim í jólaleyfi. En það var athyglisvert við 2. umr., herra forseti, hversu fáorðir þeir voru.