15.12.1987
Efri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2208 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem er 47. mál þingsins. Þetta frv. hefur fengið nokkuð ítarlega umræðu og ætti efni þess því að vera þm. vel kunnugt og því óþarft að hafa um það mörg orð.

Meginmarkmið frv. kemur fram. í grg. þess, en þar segir, með leyfi forseta: „Meginmarkmiðið með þeim breytingum sem lagðar eru til á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins eru eftirfarandi:

Að tryggja betur en nú er forgang þeirra til lána sem eru í brýnni þörf fyrir lánafyrirgreiðslu vegna kaupa á íbúðarhúsnæði.

Að draga úr þenslu á fasteignamarkaði og koma í veg fyrir óeðlilega hækkun á verði íbúðarhúsnæðis. Að takmarka sjálfvirkni í útlánum og draga úr fjárþörf húsnæðiskerfisins.

Að gera Ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunar kleift að gegna betur en hingað til því veigamikla hlutverki að láta umsækjendum í té leiðbeiningar og fara yfir kostnaðar- og greiðsluáætlanir með þeim áður en þeir ráðast í húsnæðiskaup til að reyna að forða greiðsluerfiðleikum.“

Í meðförum félmn. Nd. og við afgreiðslu málsins í Nd. voru gerðar nokkrar breytingar á frv. sem ekki breyta þeim meginmarkmiðum frv. sem hér hefur verið lýst. Ég vil þó í örfáum orðum gera grein fyrir frv. með þeim breytingum sem orðið hafa á því eftir umfjöllun málsins í Nd.

1. gr. frv. kveður á um takmörkun á lánveitingum til þeirra sem eiga fyrir fleiri en eina íbúð, en með þessu ákvæði getur húsnæðismálastjórn annaðhvort skert eða synjað um lán þegar aðstæður umsækjenda eru með þeim hætti að hann á fleiri en eina íbúð fyrir.

Í öðru lagi kveður 1. gr. frv. á um að húsnæðismálastjórn sé heimilt að skerða lán og breyta kjörum á lánum umsækjenda sem eiga fyrir fullnægjandi íbúðarhúsnæði skuldlaust eða skuldlítið og stærra en 180 m2 brúttó að frádregnum bílskúr. Í því efni, þegar um skerðingu er að ræða eins og fram kemur í nál. meiri hl. félmn., kemur hvort tveggja til greina að stytta lánstíma og hækka vexti hjá þessum hópi.

Ef um er að ræða skerðingu eða synjun á láni skv. ákvæðum 1. gr. frv. skal sú ákvörðun húsnæðismálastjórnar vera rökstudd.

2. gr. frv. er um margt mikilvægasta grein frv. Vil ég um það efni vísa til þess sem fram kemur í frv. um 2. gr. þess, svo og nál. meiri hl. félmn., en þar er lögð áhersla á mikilvægi þessa ákvæðis til að koma jafnvægi á húsnæðislánakerfið og til að draga úr þenslu á fasteignamarkaði. Breytingin, sem hér um ræðir, er einkum í því fólgin að einungis er skylt að gefa bindandi svar einu ári áður en lánið kemur til úthlutunar.

Í 3. gr. frv. er nú með þeirri breytingu sem gerð hefur verið á frv. í Nd. kveðið á um að húsnæðismálastjórn sé heimilt, þegar um er að ræða þá sem eiga fyrir íbúð, að láta þá ganga fyrir úthlutun lána sem eiga fyrir ófullnægjandi íbúð og þurfa að skipta um af fjölskylduástæðum, en framkvæmdin nú að því er varðar þá sem eiga íbúð fyrir er að afgreiðsla á lánum er í sömu röð og umsóknirnar berast.

Ég hef, herra forseti, gert grein fyrir helstu efnisatriðum frv. eins og það nú liggur fyrir og meginmarkmiðum þess. Með frv., ef að lögum verður, er stigið fyrsta skrefið til að koma því jafnvægi á húsnæðislánakerfið sem að er stefnt.

Ég vænti þess, herra forseti, að þm. geti sameinast um að afgreiða það frv., sem ég hér mæli fyrir, fyrir jólaleyfi þm. Með því verður létt af þeirri óvissu sem allt of lengi hefur ríkt um afgreiðslu lána hjá Húsnæðisstofnun.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.