15.12.1987
Efri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2223 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Í fundahléi milli funda í Sþ. og á milli deildafunda tuttugu mínútur fyrir sex komu þingflokksformenn og forsetar Ed. og Nd. saman til fundar til að ræða um vinnubrögð. Þar var talað um að reyna að haga vinnunni með þeim hætti og stilla orðum í hóf, þó þannig að menn töluðu eins og þeir teldu sig þurfa, ef vera mætti að okkur tækist að koma í veg fyrir að halda kvöldfund í kvöld og annað kvöld. Það var talað um að hætta kl. hálfátta og við það verður staðið. Hins vegar hefur nú brugðið svo við að einn af talsmönnum stjórnarandstöðunnar hefur talað í tæpan klukkutíma og raunar mestallan tímann um annað frv. en er til umræðu. Ég skildi það samkomulag svo, sem gert var áðan, að við ætluðum okkur að ná nokkrum áfanga, taka lengri umræðu um húsnæðismálin við 2. umr., hætta klukkan hálfátta í síðasta lagi og reyna að koma þessu máli til nefndar. Um þetta taldi ég að hefði verið allgóð samstaða. Nú kemur í ljós að aðrir hafa skilið þetta öðruvísi og ég hef lært það af þeirri reynslu að treysta ekki samningum við þá hv. þm. Borgarafl. En ég bendi þm. á að þessi niðurstaða, að fulltrúi Borgarafl. hefur kosið að ræða annað frv. í heilan klukkutíma nú, þýðir að við verðum að halda kvöldfund annað kvöld sem ég hélt að menn hefðu verið nokkuð sammála um að reyna að komast hjá. En reynslan kennir manni og ég hef lært ákveðna hluti af þeim fundi sem haldinn var hér og því hvernig staðið hefur verið við það sem þar var ákveðið.