15.12.1987
Neðri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2226 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hér er sömuleiðis um samkomulagsmál að ræða. Þetta frv. er að meginhluta byggt á áliti milliþinganefndar sem Kjartan Jóhannsson, hv. þm., veitti forustu og fjallaði um staðgreiðslu skatta. Frv. varðar einkum tæknilega framkvæmd og skipulagningu staðgreiðslunnar.

Á fundi nefndarinnar komu Garðar Valdimarsson ríkisskattstjóri, Indriði Þorláksson og Snorri Olsen úr fjmrn. og Magnús E. Guðjónsson og Sigurgeir Sigurðsson frá Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Nefndin var, eins og ég áður sagði, sammála um afgreiðslu málsins og leggur til að frv. verði samþykkt með tveimur breytingum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali. Þessar breytingar lúta að því að í 7. gr. frv. segir að ef launamaður hefur eigi nýtt meira en 10% af persónuafslætti sínum þegar komið er fram yfir mitt staðgreiðsluár eða flutt hann yfir til maka, sbr. 1. málsgr. 13. gr., er honum heimilt að sækja um útgáfu skattkorts sem hefur uppsafnaðan persónuafslátt frá ársbyrjun staðgreiðsluárs til næsta mánaðar á undan útgáfudegi. Í stað 10% sem í frv. er reiknað með leggjum við til að komi 20%. Enn fremur gerum við till. til breytingar á 12. gr. Þar er eingöngu um það að ræða að fella út orðið „eingöngu“ í síðari málsl. greinarinnar. Það er: Skattstjóri getur heimilað aðilum sem eingöngu reikna sér, maka sínum og börnum endurgjald, sbr. 2. tölul. 4. gr., að gera skil einu sinni á ári, enda séu reiknuð laun undir tilteknu lágmarki samkvæmt sérstökum reglum er ríkisskattstjóri setur. Það var samdóma álit okkar að orðið eingöngu væri óþarflega afdráttarlaust orðalag og samkvæmt og í samráði við ríkisskattstjóra leggjum við til að það verði fellt út.

Rétt er að geta þess að nefndarmenn skrifuðu allir undir þetta en einn þeirra, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, með fyrirvara.