15.12.1987
Neðri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2229 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég læt fyrst í ljós ánægju mína með það hversu ég tel að allir sem nálægt þessum málum hafa komið á undanförnum vikum og eins í nefndum þingsins núna leggja sig fram um að reyna að finna sem farsælasta lausn á fyrirkomulagi staðgreiðslunnar og á það jafnt við þó að menn greini á um ýmsar greinar. Þetta held ég að við getum öll verið þakklát fyrir og það hefur einmitt greitt fyrir framgangi málsins, bæði í milliþinganefndinni á sínum tíma og eins sýnist mér að hið sama sé að gerast í nefndum þingsins.

Ég vil þó fyrst og fremst taka undir það eða ítreka það sem kom fram hjá seinasta ræðumanni um nauðsyn góðrar kynningar einmitt um þessar mundir. Ég verð mjög var við það að margir í þjóðfélaginu eiga örðugt með að vera vissir um hvernig þeir eigi að fara með skattkortið sitt eða fá því skipt eða út gefin aukaskattkort og þess vegna, einmitt nú, þyrfti að auka upplýsingastarf um það. Og mér finnst að sjónvarpsstöðvarnar ættu að sjá það sjálfar að þær ættu einmitt að vera með kynningu af þessu tagi um þessar mundir. Þær eru öflugur fjölmiðill sem geta sýnt það svart á hvítu hvernig menn eiga að bera sig til við hin ýmsu atriði í sambandi við skattkortið og ég vil eindregið beina því til hæstv. fjmrh. og kannski þá til menntmrh. líka ef hann er viðstaddur að beita sér fyrir því að slík kynning fari hið allra fyrsta fram. Ég held að það sé ekki síður nauðsynlegt að slík kynning fari fram en að mönnum lærist að strika það út að þeir búi á Ísafirði.