15.12.1987
Neðri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2230 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Vegna þeirra orðaskipta sem urðu áðan varðandi þá kynningu sem átt hefur sér stað eða þyrfti að eiga sér stað í tengslum við staðgreiðslukerfisbreytinguna langar mig að spyrja hæstv. fjmrh. og er hann nú málunum kunnur, bæði sem yfirmaður málaflokksins í ráðuneyti og þátttakandi í kynningarherferðinni, hvernig sé háttað eftirliti eða samstarfi hins háa ráðuneytis og embættismanna á sviði skattamála við þá fjölmiðla og aðra aðila sem eru ýmist gegn borgun eða að því er virðist óumbeðnir að taka að sér að kynna þessa staðgreiðslukerfisbreytingu fyrir þjóðinni.

Nú vill svo til að ræðumaður var að fá skattkort sitt í hendur í gær eða fyrradag og þar kemur fram, sbr. það frv. sem liggur til meðferðar í fjh.- og viðskn., að fullur persónufrádráttur, 100%, séu 13 607 kr. á mánuði og að skattahlutföll staðgreiðslu séu 35,20%. Þess vegna vakti það nokkra athygli mína þegar ég sá og mér var sagt að bæði í sjónvarpi í gær eða í fyrradag og einnig í DV í gær væru tekin dæmi til útskýringar fyrir væntanlega staðgreiðendur skatta með öðrum tölum. Í DV í gær, mánudaginn 14. des., eru tekin dæmi um reiknaða skatta einstaklings með 42 036 kr. í laun og þar er persónuafsláttur reiknaður upp á 14 797 kr. Væntanlega á það að vera fullur persónufrádráttur einstaklings við hinar venjulegu aðstæður. Og af því að mér sýnist þarna gæta nokkurs misræmis og jafnvel þó að það kynni að vera hægt og er auðvitað hægt að taka dæmi um mismunandi persónuafslátt þá væri æskilegast að slíkri kynningu væri háttað með sem allra einföldustum hætti þannig að sem almennust dæmi og alls staðar sömu dæmin væru tekin, þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig samstarfi við fjölmiðla sé háttað. Er reynt að tryggja það að þeir sem eru að fjalla um þessa kerfisbreytingu þessa dagana, akkúrat á sömu dögum og launamenn fá sín skattkort og aðrar upplýsingar í hendur, að það sé sæmilegt samræmi í þeim dæmum, í þeirri kynningu sem á sér stað? Og er þess að vænta af hálfu hins háa ráðuneytis að eitthvað verði gert á þeim dögum sem líða fram að áramótum og e.t.v. fyrstu daga ársins til þess að gera almenningi kleift að nálgast upplýsingar um þessi efni með auðveldari hætti?

Það sem mér hefur borist til eyrna um þessi efni frá síðustu dögum bendir jafnvel til þess að það væri ástæða til að ræða hvort ekki sé nauðsynlegt að opna ráðgjöf með línum þannig að almenningur geti hringt beint í aðila sem eru tilbúnir með svör á reiðum höndum, kunna það sem svara þarf til um og eru tilbúnir til þess að veita þessar upplýsingar. Ég held að það væri mjög mikilvægt, herra forseti, ef hægt væri að liðka fyrir þessari breytingu með þeim hætti og tryggja það að alls staðar væri um samræmdar upplýsingar að ræða þar sem verið er að kynna þessa breytingu, hvort sem það er umbeðið eða óumbeðið af hálfu fjölmiðla, hvort sem þeir fá fyrir það peningagreiðslur eða ekki og eins þetta, að almenningur þyrfti ekki að hrekjast milli margra aðila til að fá þessar einföldustu upplýsingar sem menn greinilega vantar þessa dagana eins og það hvað þeir eigi að gera við skattkortið sitt, hvar þeir geti fengið útgefið aukaskattkort, hvernig þeir eiga að fá að nota aukaskattkort, hvernig reikna skuli út og hvernig mönnum nýtist persónufrádráttur maka ef um slíkt er að ræða o.s.frv.

Ég vona að ég þurfi ekki að hafa þessi orð fleiri, hæstv. ráðherra skilji efnislega hvað ég er að fara og geti þá svarað einhverju til um það hvaða aðgerðir séu í gangi eða verði í gangi á næstu dögum, hvað hið háa ráðuneyti hyggist fyrir í þessum efnum.