15.12.1987
Neðri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur hér mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. ákvæði þess lagabálks sem snýr að skattlagningu fyrirtækja, og er það vissulega vel að hæstv. fjmrh. er nú loksins tekinn til við að mæla fyrir skattafrv. sem snerta aðra en almenning og ber að fagna því. Ég efast út af fyrir sig ekki um vilja hæstv. fjmrh., margyfirlýstan sem mjög á loft hefur verið haldið undanfarin ár, um að hann vilji reiða hátt til höggsins í skattamálum og koma á réttlátara og sanngjarnara skattakerfi á Íslandi. Auðvitað hlaut að reka að því fyrr eða síðar að hæstv. fjmrh. legði til atlögu við skatta fyrirtækjanna eða skattgreiðslur þeirra, léti ekki nægja að skera niður undanþágur og frádráttarheimildir einstaklinga. Það hefur verið mikið gagnrýnt af hálfu talsmanna Alþb. í skattamálum a undanförnum árum að á sama tíma og skattalegum reglum fyrirtækja hefur verið breytt að flestu leyti þeim í hag á undanförnum árum, þá hafa skattar gagnvart almenningi ekki tekið sams konar breytingum, en nú er með vissum hætti brotið blað í þessum efnum því að hér stendur til að fækka eða einfalda frádráttarheimildir fyrirtækjanna og er það vissulega spor í rétta átt þó smátt sé.

Hæstv. fjmrh. þurfti ekki langt eftir fordæminu, enda sést það og kemur fram í frv. hans ef það er skoðað að honum hefur orðið að góðu liði sú vinna sem Alþb. hefur á undanförnum árum unnið í þessum efnum og birst hefur í tillögu- og frumvarpsflutningi hér á hinu háa Alþingi nú sl. tvö ár í formi lagafrumvarpa um breyttar skattgreiðslur fyrirtækja eða reyndar bæði einstaklinga og fyrirtækja. Fyrir því Alþingi sem nú starfar, 110. löggjafarþingi, liggur einmitt frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt á þskj. 9, 9. mál, lagt fram í Ed. og mælt þar fyrir því af 1. flm. Svavari Gestssyni fyrir alllöngu síðan. Ef það frv. er tekið og skoðað þá kemur þar fram að í nokkrum greinum eru frv. sambærileg, en hæstv. ráðherra hefur af einhverjum ástæðum, sem út af fyrir sig er ekki ástæða til og e.t.v. er hæstv. ráðherra enginn sérstakur greiði gerður með því að vera uppi með getsakir um það hvers vegna hann hefur ekki náð fram ýmsum þeim einföldunarákvæðum sem við fyrstu sýn virðast næsta sjálfsögð, svo sem eins og því að takmarka eitthvað heimildir fyrirtækja til að draga frá tap á útistandandi viðskiptaskuldum. Sömuleiðis fyrningarreglur sem ég hefði talið að einnig hefði átt að taka á ef frádráttarheimildir fyrirtækjanna eru til meðferðar á annað borð.

Það er einn grundvallarmunur á skattlagningu fyrirtækja og einstaklinga, sem þarf að sjálfsögðu ekki að minna hv. þm. á en gleymist stundum þegar um þessi mál er fjallað úti í þjóðfélaginu, og hann er sá að tekjuskattar og útsvar einstaklinga eru brúttóskattar. Þeir eru lagðir á heildartekjur með tilteknum frádráttarliðum einstaklinganna, en tekjuskattar fyrirtækja eru nettóskattar, lagðir a nettótekjur að frádregnum öllum kostnaði. Það gerir það að verkum að þrátt fyrir gífurlegt umfang og gífurlega veltu fyrirtækjanna í landinu er skattstofninn harla smár og hinn álagði tekjuskattur fyrirtækja í landinu merkilega lítil upphæð eða um 11/2 milljarður eins og kemur fram í fskj. með frv. ráðherrans. Rúmur 11/2 milljarður, álagður tekjuskattur fyrirtækja á árinu 1987.

Þess vegna er það auðvitað þeim mun nauðsynlegra að mínu mati, herra forseti, að þegar skattur er lagður á þessar nettótekjur fyrirtækjanna þá séu álagningarreglur þar sem skýrastar og frádráttarliðir sem fæstir og auðvitað helst engir. Helst engir því að það á auðvitað að skattleggja nettóhagnað fyrirtækjanna þegar þau hafa haft eðlilegan frádrátt frá tekjum upp í öll sín útgjöld eins og þau gera, þá er auðvitað ekkert eðlilegt við það að þar til viðbótar komi einhverjar umfangsmiklar frádráttarheimildir af hinum hreina hagnaði fyrirtækjanna. Þess vegna var það að í tillögum Alþb. var og er raunar eina frádráttarheimildin, sem við vildum heimila frá hagnaði fyrirtækja fyrir skatt, að draga frá t.d. annað hvert ár eins og 5% vegna rannsóknar- og þróunarstarfsemi á verksviði viðkomandi fyrirtækja. Ég hefði talið að hæstv. ráðherra hefði gert gott í því að leggja til að hjóla í annan hvorn frádráttarliðinn sem hann ekki leggur til atlögu við, þ.e. viðskiptaskuldirnar eða fyrningarreglurnar, og bjóða þau kaup að fella annan hvorn niður á móti sæmilega rýmilegri frádráttarheimild til fyrirtækja sem lyti að því að heimila þeim frádrátt vegna starfsemi á þessu sviði. Það er tvímælalaust þörf fyrir það í íslensku atvinnulífi að hvetja fyrirtækin til umsvifa að þessu leyti, að hvetja þau til rannsóknar- og þróunarstarfsemi og það væri t.d. hægt að gera með því að veita þeim einhverja skattalega ívilnun af þessu tagi.

Í frv. okkar alþýðubandalagsmanna eru auðvitað ýmis fleiri markverð atriði sem ástæða væri til að nefna í þessari umræðu vegna þess að ég tel eðlilegt að þær nefndir sem fjalla um þessa skattlagningu fyrirtækjanna taki mið af því að fyrir þinginu liggur ítarlegt frv. um nákvæmlega sama efni, að vísu lagt fram í annarri deild. Þess vegna mun ég fara fram á það í þeirri nefnd sem væntanlega fær þetta frv. til meðferðar, fjh.- og viðskn. Nd., að hún horfi á það frv. sem liggur fyrir þinginu um þetta efni nú þegar. Þar vil ég nefna t.d. ákvæði um árvissa skattarannsókn á fjárhag tiltekins hluta fyrirtækja sem ég teldi að væri gagnlegt nýmæli þannig að á skattrannsóknarstjóra hvíldi sú kvöð að rannsaka á hverju ári t.d. úrdrátt úr framtölum 100 fyrirtækja umfram þau verkefni sem berast honum með ýmsum öðrum tilteknum hætti. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið af þessu tagi hafa ekki verið reglulegar. Þær hafa verið tilviljanakenndar eftir því hvernig verkefni hafa staðið hjá skattrannsóknarembættunum og sum árin kannski verið allt of lítið af því gert að skoða uppgjör með þessum hætti.

Við höfum einnig lagt til að fjármagnstekjur yrðu framtalsskyldar. Hvað sem líður hugmyndum eða vilja til þess að skattleggja slíkar tekjur þá tel ég það mjög þýðingarmikið og sjálfsagt að fjármagnstekjur séu taldar fram, þær séu framtalsskyldar. Þannig er það í flestum nálægum löndum þó ekki sé nema til að hafa yfirsýn yfir fjármagnshreyfingar í þessum efnum, enda gegna þar bankar og sparisjóðir ýmsum skyldum gagnvart skattayfirvöldum til þess að gera þeim grein fyrir tekjum og gjöldum og hreyfingum í þessum efnum.

Síðan erum við með hugmyndir um verulega einföldun á framtalsreglum og fleira sem nefna mætti. Herra forseti. Að lokum þetta: Hvað felst svo í frv. hæstv. ráðherra? Hver er uppskeran af þessum breytingum? Ég gerði það nokkuð að umtalsefni hér á kvöldfundi, sem reyndar teygðist ofurlítið inn í nóttina sl. nótt, hver yrði hlutdeild fyrirtækjanna samkvæmt þessum nýju lögum í þeim auknu skattbyrðum sem stendur til að leggja á í landinu. Og ég verð að segja að þar finnst mér uppskeran merkilega rýr þó ég ætli ekki að gera lítið úr vilja hæstv. fjmrh. Ég vil alls ekki gera það því að ég vil trúa því í lengstu lög að a.m.k. þarna sé honum þó alvara. En hann hefur að nokkru leyti rakið það sjálfur, hæstv. ráðherrann. Niðurstaðan er sú að vegna brottfalls framlaga í varasjóð falla til 53 millj. kr. í tekjur á næsta ári. Vegna hækkunar vörubirgða falla til 297 millj. kr. á næsta ári eða á verðlagi ársins 1987 væntanlega. Og vegna lækkunar skattahlutfallsins úr 51% í 45% lækka skattgreiðslur þessara aðila á móti um 187 millj. kr. Það var nefnilega þannig að þegar menn skoðuðu hvað kæmi út úr dæminu, hvað brottnám þessara tveggja meginfrádráttarliða eða breytingar á þeim gæfu í skatttekjur á næsta ári, sem sagt 350 millj. kr. eða svo, þá þótti mönnum þetta of mikið. Það væri ekki hægt að leggja það á fyrirtækin í landinu að bera þetta þannig að menn lækkuðu skattprósentuna á móti um 6%, úr 51% í 45% og fá þannig 187 millj. kr. afslátt til að draga frá og nettóniðurstaðan er 163 millj. kr. á verðlagi ársins 1987. Miðað við innheimtuhlutfall skilst mér að gert sé ráð fyrir því að þetta geti skilað í skatttekjum á verðlagi yfirstandandi árs um 122 millj. kr. og uppreiknað til verðlags á árinu 1988 er sem sagt gert ráð fyrir því að fyrirtækin skili með þessum hætti 160 millj. kr. í viðbót við það sem hefði verið að óbreyttu. Þetta er nú niðurstaðan. Ég tók að gamni mínu þessa tölu, 160 millj. kr., og fann það út í nótt, það hefur verið svona rétt fyrir kl. þrjú í nótt að ég reiknaði það út að af 8750 millj., sem margsannað var hér í umræðum í gær og í nótt að væru hinir nýju skattar samanlagðir sem leggja á á, þá eru þetta 1,7%. 1,7% á að sækja þangað af þessum mikla bagga. Það er auðvitað merkilega rýr uppskera hjá hæstv. ráðherra og tel ég ástæðu til að vekja rækilega athygli á þessum tölum hér.

Ég vil einnig nefna að þau tíðindi hafa nú gerst á tiltölulega fáum árum, líklega eru það um fjögur ár, herra forseti, þrjú eða fjögur ár, að skatthlutfall fyrirtækja hefur lækkað úr 65% niður í 45%. Þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við völdum, þá var skatthlutfall í tekjuskattsálagningu á fyrirtæki 65%. 65% af nettóhagnaði fyrirtækja með leyfilegum frádrætti skyldi á þeim tíma renna í ríkissjóð. Síðan tók auðvitað þessi ágæta ríkisstjórn, sem sló næstum því Íslandsmet í kjaraskerðingu á almenning, sig til við að lækka álögur á banka og fyrirtæki, m.a. með því að færa niður skattprósentuna á fyrirtækin. Vissulega var það einnig í tengslum við verðlagsbreytingar en eftir stendur sú staðreynd að á næsta ári, verði frv. þetta að lögum, þá verður frá því að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hóf að lækka þetta skatthlutfall búið að færa það niður um 20% eða 1/5, á ekki lengri tíma en þetta. Þetta finnst mér vera athyglisverð staðreynd þegar rætt er um það hvort virkilega sé mikil ástæða til þess, þó að þarna sé aðeins höggvið í tvo frádráttarliði fyrirtækjanna, fyrir hæstv. fjmrh. að færa skatthlutfallið svona mikið niður á móti. Ég sé ekki rök fyrir því. Þvert á móti hefði ég talið að það hefði verið óhætt að leyfa þessu skatthlutfalli að standa óbreyttu jafnvel þó að fleiri frádráttarliðir yrðu undan teknir eða t.d., eins og ég kom að í upphafi máls míns, skipt á ákveðnum frádráttarliðum fyrir aðra.

Ég verð að vona að hæstv. fjmrh. gangi svo vel, betur en þetta, við að fækka frádráttarliðum fyrirtækjanna meir, við að koma t.d. böndum yfir það sem er almennt viðurkennt að allt of mikið sé um að kostnaður af ýmsu tagi, sem er óviðkomandi eða ekki í beinum tengslum við nauðsynlegan rekstur fyrirtækjanna, sé færður þar inn undir. Þetta þekkja auðvitað hv. þm. og hefur verið margoft rætt hvort sem það heitir nú risna eða eitthvað annað. Þar kæmi margt til greina. Auðvitað þurfa að vera í fyrsta lagi alveg skýr ákvæði um að slíkt sé óheimilt og í öðru lagi kæmu til greina margir möguleikar við að setja þak eða takmarka með ýmsum hætti möguleika fyrirtækjanna til að vera með slíkar æfingar til að koma sér hjá að greiða tekjuskatta. Tekjuskattar upp á rúman 11/2 milljarð af allri veltu, öllum tekjum fyrirtækjanna í landinu er auðvitað svo hlægilega lágt hlutfall í raun að það tekur naumast tali.

Við skulum líka minnast þess í tengslum við staðgreiðslukerfisbreytinguna að í skattlagningu á almenning í landinu er verið að skera miskunnarlaust niður við trog alla þá félagslegu frádráttarliði að kalla sem í því skattakerfi hafa verið við lýði. Það má telja á fingrum sér hluti eins og námsmannafrádrátt, rétt leigjenda til að draga húsaleigu frá, rétt fólks til að draga frá kostnað vegna stofnunar heimila og svo gæti ég þulið áfram. Þessum félagslegu frádráttarliðum á að sögn að fórna á altari einföldunar skattakerfisins. Menn deila í sjálfu sér ekki um að það geti verið og sé réttlætanlegt og gott ef hægt er að koma til móts við þessa hópa. Ég geri ekki ráð fyrir því að það sé almenn skoðun manna. En menn segja sem svo að þrátt fyrir það að þetta séu réttlætanlegir liðir með tiltekinn félagslegan grundvöll að baki, þá skuli þeim fórnað og þeir skornir niður í þágu einföldunar skattakerfisins. Ég tel að það eigi þá að beita sömu vinnureglu á fyrirtækin. Það getur varla verið óréttlátara gagnvart þeim að ganga að þessum frádráttarliðum og fella þá burtu, ef menn vilja einföldun skattakerfisins á annað borð, heldur en það er t.d. að fella niður frádrátt námsmanna sem eru að koma út úr skólum og hefja göngu sína úti í lífinu, stofna heimili eða annað slíkt.

Þess vegna ítreka ég hvatningu mína og brýningu mína til hæstv. fjmrh. að gera nú betur. Ég tek viljann fyrir verkið og tek þennan litla og rýra pappír sem hér birtist með þessari léttvægu niðurstöðu, 1,7% af hinum nýju skattaálögum, með þeim jákvæða hætti að ég vona að meira fylgi á eftir. Ég vona það svo sannarlega.