20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

Sláturleyfi sláturhússins á Bíldudal

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Það hefur komið hér í ljós að ég hygg að allir ræðumenn og væntanlega allur þingheimur vill að Sláturfélag Arnfirðinga fái leyfi til slátrunar í haust en hæstv. landbrh. telur sig skorta lagaheimild. Það er nú einfalt að bæta úr því. Það getum við gert í dag ef forsetar og þingheimur sameinast um það. Ég hef samið hér frv. sem má flytja í hvorri deildinni sem er og ég veit að þeir eru margir sem vildu vera flm. Það hljóðar einfaldlega svo:

Frumvarp til laga um leyfi til slátrunar.

1. gr. Sláturfélagi Arnfirðinga, Bíldudal er heimil slátrun í sláturhúsi sínu haustið 1987.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. Alþingi 20. október 1987.

Þá vík ég tali mínu að því að tala um dagskrá. Ég mælist til þess að hæstv. forseti sameinaðs þings og forsetar deilda hittist á fundi nú á eftir og ákveði fundahald hér síðar í dag til að afgreiða þessi lög.