15.12.1987
Neðri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2240 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Hér er lagt fram eitt frv. enn sem felur í sér skattahækkanir í landinu. Stefna núverandi ríkisstjórnar er áhyggjuefni. Fyrst er ráðist á heimilin og nú er ráðist á fyrirtækin. Það er talað um skatta eins og það sé verið að tala um súkkulaði. Ég held að mönnum sé ljóst að það verður að halda uppi atvinnulífi í landinu. Stefna núv. ríkisstjórnar er óðum að sigla atvinnurekstri í strand. Í ræðu sem ég hélt við 1. umr. um fjárlög minntist ég á fastgengið og gagnrýndi þá stefnu. Það er að koma æ betur í ljós að sú stefna er að sigla í strand. Þá er sú stefna að halda uppi lánskjaravísitölu sem við í Borgarafl. höfum gagnrýnt mjög harðlega. Það er líka að koma í ljós að hún er að sigla atvinnulífinu í strand.

Það er mjög athyglisvert að í Tímanum í dag er viðtal við forstjóra Sambands ísl. samvinnufélaga. Hann kemur inn á vandamál fyrirtækjanna. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta: „Að mínu mati eru þessi vaxtakjör í landinu og líka þessi svokallaða fastgengisstefna á góðri leið með að setja obbann af undirstöðu atvinnuvegunum í strand.“ Hann segir enn fremur: „Ég held að það sé ekkert ofsagt. Bæði er að fiskvinnslan er komin í bullandi hallarekstur og ekki þarf að tala um annan útflutningsiðnað eins og t.d. ullariðnað. Ég tel að því miður sé obbinn af atvinnurekstri þeim sem við (SÍS) og kaupfélögin í landinu öllu stöndum í, kominn í bullandi hallarekstur. Og hann fer hratt vaxandi.“

Þetta segir forstjóri stærsta fyrirtækis landsins og er það þó með betri skattareglur en mörg önnur einkafyrirtæki. Ég hefði átt von á að flokkurinn sem kennir sig við einkaframtakið, Sjálfstfl., hefði gert athugasemdir við þetta en svo er ekki. Þeir eru fangar skattastjórnarinnar. Þessi skattlagning við þessar kringumstæður á fyrirtæki sem þegar eru að sigla í strand getur haft alvarlegar afleiðingar. Það verður ekki fram hjá því litið að vaxandi skattlagning á öllum sviðum bitnar bæði á launafólki og fyrirtækjum. Og fyrirtæki sem þegar eru í bullandi taprekstri geta ekki bætt á sig meiri álögum. Það er svo að þessi stefna ríkisstjórnarinnar er einhver sú versta sem um getur.

En það er ekki nóg með að forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga tjái sig um lánskjaravísitöluna. Seðlabanki Íslands hefur skrifað ríkisstjórninni bréf. Við hér á Alþingi höfum ekki séð það, en í Tímanum í dag er vitnað í þetta. Með leyfi forseta stendur svohljóðandi í Tímanum í dag:

„Seðlabanki Íslands hefur tekið saman stefnumarkandi skýrslu um þróun í gjaldeyris- og peningamálum. Var þessari skýrslu skilað til ríkisstjórnarinnar í síðustu viku. Í skýrslunni kemur fram m.a. það álit að raunvextir séu óeðlilega háir og geti ekki haldist þetta háir til lengdar“. Ég endurtek: geti ekki haldist þetta háir til lengdar. „Einnig er komið inn á hlut ríkisins í þeirri gífurlegu eftirspurn sem er eftir lánsfjármagni og bent á nauðsyn þess að ríkissjóður verði rekinn hallalaust og þannig létt á lánsfjárþörf hans. Hins vegar bendir bankinn á að innlendar lántökur opinberra aðila muni aukast verulega á næsta ári samkvæmt áætlunum og því muni vextir haldast háir á næstu vikum og mánuðum.“

Þetta eru alvarlegir hlutir. Hæstv, ríkisstjórn er að leggja hér fram frv. um aukna skatta á fyrirtækjum.

Á sama tíma er ljóst að þau berjast í bökkum, a.m.k. útflutningsatvinnuvegirnir, og eiga í erfiðleikum með rekstur.

Ég tel að þetta beri vott um að ríkisstjórnin ætli að reynast ansi hörð við fólkið í landinu. Og þessi skattlagning á eftir að draga dilk á eftir sér.

Það frv. til laga sem hér er verið að ræða núna var fyrir skömmu lagt fram, raunar í dag, svo við höfum ekki haft mikinn tíma til að kynna okkur hvaða afleiðingar það hefur frekar en önnur frv. hæstv. ríkisstjórnar. (HBl: Þið eruð nú fljótir að lesa.) Það er ætlast til að við fjöllum um það. — Já, sem betur fer erum við fljótir að lesa og fljótir að sjá hvað er að gerast.

Það er því svo að hér er komið enn ein sönnun þess að þessi ríkisstjórn verður mesta skattastjórn sennilega frá upphafi lýðveldisins. Og það er nokkuð ljóst að það verður hæsti hlutur af vergum þjóðartekjum, sem eru þó þær hæstu frá upphafi, sem skattar eru teknir af. Aldrei fyrr hafa verið lagðir á eins miklir skattar og jafnháir. Þetta leiðir hugann að því að það verður erfitt hjá fyrirtækjunum og það verður erfitt hjá almenningi í landinu. Þetta frv. verður ekki til að bæta það ástand.