15.12.1987
Neðri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2242 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka Steingrími J. Sigfússyni, hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 10. þm. Reykn. Kristínu Halldórsdóttur fyrir jákvæðar undirtektir við þetta litla frv., svo langt sem þær jákvæðu undirtektir náðu.

Til mín var beint þeirri fyrirspurn hvernig á því stæði að þetta frv., sem ekki væri þó viðameira en þetta, væri svo seint fram komið. Svarið við því er það að upphaflega var það ætlan fjmrh. að leggja fram mun viðameira frv. sem tæki til heildarendurskoðunar á skattmeðferð fjármagns- og eignatekna. Það verk vissum við frá upphafi að væri veigamesta verkefnið við endurskoðun skattalöggjafar og það hefur, einfaldlega af þeim ástæðum, orðið að bíða betri tíma til þess að hægt væri að gera því þau skil sem þörf er á, þannig að það bíður.

Ég legg á það áherslu að hér er um að ræða fyrsta skrefið í átt til endurskoðunar á skattlagningu fyrirtækja til samræmingar við þá endurskoðun sem þegar hefur átt sér stað varðandi tekjuskattsálagningu einstaklinga. Undirbúningstími þess hefur verið lengri. Nú er það svo, eins og fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að það er nokkur eðlismunur á skattareglum að því er varðar fyrirtæki og einstaklinga. Hann tók það sjálfur fram að annars vegar væri tekjuskattsálagning einstaklinga í staðgreiðslukerfi eins og nú hagar til nánast brúttóskattlagning, þar sem aftur á móti skattlagning fyrirtækja er eftiráskattlagning og skattlagning á nettóhagnað eftir að heimilt hefur verið að draga frá margvíslega kostnaðarliði. Síðan má nefna þriðja atriðið. Það er að fyrirtæki geta oft á tíðum, mismunandi eftir markaðsaðstæðum, velt sköttum sem á þau eru lagðir að hluta til eða jafnvel alveg yfir á herðar neytenda eða viðskiptavina, að vísu í mjög mismunandi miklum mæli og breytilegt eftir aðstæðum. Þetta þýðir líka að það krefst nokkurs undirbúningstíma að breyta skattlagningu fyrirtækja með hliðsjón af því að halda í heiðri þá meginreglu skattalaga að þau reynist ekki afturvirk, þ.e. að menn viti fyrir fram þegar ákvarðanir eru teknar um fjárráðstöfun í rekstri eftir hvaða skattareglum verði farið. Það þykir víðast hvar ekki nægilega góð regla að þær reglur séu settar eftir á.

Megingagnrýnin á frv. hefur verið sú að það sé mikill munur á að því er varðar skattatilhögun þessarar ríkisstjórnar, annars vegar að lagðar séu þungar byrðar á einstaklinga en fyrirtækjum hlíft. Nú er það svo að þau eru tiltölulega fá íslensk fyrirtæki sem greiða einhvern umtalsverðan tekjuskatt. Þessi breyting, sem hér er boðuð, mun fjölga þeim allverulega og þegar við bætist reglugerð væntanleg, sem herðir á framkvæmd á meðferð einkaneyslu og risnu, má ætla að tekjuöflun vegna þessa frv. sé varleg. En ég kemst ekki hjá að vekja athygli á því að það er náttúrlega fjarri öllum sanni að segja að hlutur fyrirtækja í heildarskattatillögum þessarar ríkisstjórnar sé aðeins 1,7%. Þá hafa menn gleymt því að mjög margt í tekjuöflunaráætlun ríkisstjórnarinnar byggir á skattlagningu á fyrirtæki. Þar er ekki bara um að ræða þessa tekjuskattsálagningu á fyrirtæki heldur einnig launaskatt, verktökugjald, gjald á erlendar lántökur, hækkun á ríkisábyrgðargjöldum, kjarnfóðurskatt, arðtöku ríkisfyrirtækja o.fl. þannig að óhætt er að fullyrða að á bilinu 1500–1600 millj. kr. eru lagðar á fyrirtæki af þeim 5 milljörðum nettó sem þetta mál snýst um.

Herra forseti. Ég ætla ekki að svo stöddu hér og nú að lengja þessar umræður. Ég skal þó geta þess í lokin að ég hef kynnt mér vendilega það frv. sem fyrir liggur og lagt var fram snemma á þessu þingi af hálfu þeirra alþýðubandalagsmanna um skattlagningu fyrirtækja og get sagt að í stórum dráttum er ég sammála þeim markmiðum sem þar eru sett fram. Að svo miklu leyti sem ég er ekki sammála þeim byggist það á því að í framkvæmdinni eru kannski nokkrir þættir þess frv. af því taginu að þeir þarfnast betri skoðunar í þingnefnd rétt eins og þetta frv.