16.12.1987
Efri deild: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

163. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. allshn. (Jóhann Einvarðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir áliti allshn. um frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar.

Að fengnum tillögum hæstv. dómsmrh. verða á þessu þingi flutt tvö frumvörp um ríkisborgararétt, þetta og annað fyrir vorið. Nefndarmenn eru sammála um að þetta sé betra fyrirkomulag en að afgreiða þessi persónubundnu mál einungis einu sinni á ári.

Það var haft sama vinnulag sem áður, þ.e. undirnefnd beggja allshn. hefur skoðað fram komnar umsóknir í samráði við Ólaf Ólafsson, fulltrúa á skrifstofu Alþingis, en hann hefur langa reynslu í þessum málum.

Á þskj. 287 er flutt brtt. við frv. frá nefndinni og er það listi yfir 31 einstakling sem nefndin mælir með að öðlist íslenskan ríkisborgararétt. Það eru í frv. 18 nöfn og 13 nöfnum hefur nefndin bætt við. Með þessari brtt. leggur nefndin til að frv. verði samþykkt.