16.12.1987
Efri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2249 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hæstv. félmrh. að það er sjálfsagt að flýta þessu máli þannig að það fái afgreiðslu úr þinginu fyrir jólaleyfi. Þetta tel ég að beri að gera vegna þess að þær breytingar, sem hér er reynt að gera í því frv. sem fyrir liggur og hafa lifað af meðferðina í Nd., eru í átt til réttlátara húsnæðiskerfis. Hins vegar er margt að mínu viti að núverandi húsnæðiskerfi að finna sem þarfnast endurskoðunar og endurbóta og hefði þurft að framkvæma það sem kemur fram í nál. hv. minni hl. félmn. í Nd. Þar er minnst á að í kjölfar samninga aðila vinnumarkaðarins í febrúar 1986 voru samþykkt núgildandi lög um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem náðu aðeins til hluta lánakerfisins, og voru þau lög samþykkt með þeim fyrirvara, sem fram kemur í nál. meiri hl. þáverandi félmn. á þskj. 1017 frá 108. löggjafarþingi, að húsnæðislánakerfið yrði tekið til gagngerrar endurskoðunar með sérstöku tilliti til félagslegra íbúða, leiguíbúða, íbúða fyrir aldraða, öryrkja og námsmenn. Enn fremur var lagt til að kanna leiðir til að koma til móts við þá sem hafa lent í verulegum greiðsluerfiðleikum eftir 1980 og hið nýja húsnæðislánakerfi tekur ekki til. Því miður hefur allt of lítið verið gert fyrir þennan síðastnefnda hóp.

Endurskoðunin hefur ekki enn farið fram og því verður að líta á breytingarnar, sem verið er að gera a núgildandi lögum, sem skammtímalausn til að reyna að leysa úr brýnasta vanda sem liggur fyrir Húsnæðisstofnun vegna þess fjölda umsókna sem þar liggur.

Annað veigamikið grundvallaratriði, sem við kvennalistakonur höfum miklar áhyggjur af, er sá vandi húsnæðiskerfisins sem varðar fjármögnun. Fjárveitingar til Byggingarsjóðs ríkisins hafa ekki verið og eru ekki í neinu samræmi við það sem þarf til þess að kerfið sjálft nái jafnvægi fjárhagslega. Það er dagljóst að ef ekki verður tekin einhver stefnubreyting í þessu máli verður sjóðurinn gjaldþrota innan fárra ára.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1988 er gert ráð fyrir að ríkissjóður bindi 500 millj. kr. af skuldabréfakaupum lífeyrissjóðanna fram yfir áramótin 1988–1989 þannig að raunverulega er aðeins gert ráð fyrir 500 millj. kr. sem framlagi ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins sem er að sjálfsögðu allt of lágt. Enn fremur: Þetta framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins er svo lítið að það er á engan hátt í samræmi við þann mikla mun sem er á þeim vöxtum sem sjóðurinn greiðir af lánum sem hann tekur hjá lífeyrissjóðunum og þeim vöxtum sem fólk greiðir af lánunum þó að þeir séu allt of háir og reyndar mörgum ofviða. Það er því líklegt að stefni í gjaldþrot sjóðsins ef ekki verður á stefnubreyting.

Mig langar reyndar að vitna í blaðagrein, sem er úr Morgunblaðinu frá því á sunnudaginn var, með leyfi forseta, þar sem forstjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins, Sigurður E. Guðmundsson, tjáir sig um það að ekkert sé hægt að gera fyrir umsækjendur sem sóttu um lán fyrir 13. mars sl. fyrr en fleiri lífeyrissjóðir hafa undirritað samninga um skuldabréfakaup. Reyndin er að aðeins 25 lífeyrissjóðir hafa nú þegar undirritað samninga um skuldabréfakaup. Eins og komið hefur fram í þessum umræðum eru um 6000 umsækjendur sem bíða eftir afgreiðslu hjá húsnæðismálastjórn og hann segir:

„Mikill fjöldi fólks bíður nú eftir að vita hvort Alþingi breyti útlánareglunum eða ekki. Töfin á afgreiðslu málsins hefur líka þau áhrif að allt of margir lífeyrissjóðir bíða með að undirrita samninga við okkur um skuldabréfakaup fyrir árið 1989 og 1990 þar til þeir vita hvað gerist. Óneitanlega veldur það óþægindum og erfiðleikum að ekki hafa nema 25 lífeyrissjóðir af 80–90 undirritað samninga við Húsnæðisstofnun ríkisins. Það er ljóst að við getum ekkert gert fyrr en fleiri lífeyrissjóðir hafa skrifað undir þessa samninga hvort sem breytingar verða á útlánareglunum eða ekki. Það er ekki heimilt að veita lánsloforð út á umsóknir félagsmanna annarra lífeyrissjóða en þeirra sem samið hefur verið við.“

Og mig langar til að bera fram þá fyrirspurn til hæstv. félmrh. fyrst hún er komin hér hvort hún hefur spurnir af því hverjar fyrirætlanir lífeyrissjóðanna séu nái þetta frv. fram að ganga því það er ískyggilegt ef einungis 25 af 80 til 90 sjóðum hafa í raun þegar skuldbundið sig með undirskrift.

Þessi fjármagnsvandi veldur því, sem hefur reyndar verið viðloðandi við húsnæðiskerfið til margra ára og er ein af meginástæðunum fyrir því að kerfið allt þarfnast endurskoðunar og uppstokkunar, að allir þeir mörgu, sem bíða eftir húsnæðislánum og vænta jákvæðra svara við umsóknum sínum í kjölfar nýrrar lagasetningar um húsnæðismál hér á Alþingi, munu þurfa að bíða enn um sinn.

Með þessu frv. er ekki verið að gera grundvallarbreytingar eins og ég sagði áðan, en það er fyrst og fremst verið að gera þær breytingar að færa þá í forgangshóp sem eiga ófullnægjandi íbúð og þurfa að skipta um húsnæði af fjölskylduástæðum. Þetta er mikilvæg breyting teljum við vegna þess að margar stórar fjölskyldur eru oft í mun erfiðari aðstöðu en ýmsir sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn.

Með 1. gr. frv. og þeim breytingum sem lagðar eru til að verði gerðar á henni er verið að reyna að takmarka lánsrétt þeirra sem minnst eða alls ekki þurfa á láni að halda, eiga fullnægjandi húsnæði fyrir. Við teljum reyndar þá takmörkun sem ráðherra gerir ganga allt of skammt og muni hún varla ná þeim tilgangi að draga nógu mikið úr fjárþörf lánakerfisins. Við hefðum viljað vera róttækari og ganga lengra, en við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að ráðherra hlýtur að þurfa að ná einhvers konar málamiðlun við samstarfsflokka sína í ríkisstjórn og aðra þm. hér á þingi.

Ég mun ekki við 1. umr. fara neitt ítarlega út í að ræða efni frv. að öðru leyti. Ég vil hins vegar boða brtt. sem verður flutt við 2. umr. frv. og er í raun endurflutningur á þeirri brtt. sem hv. 12. þm. Reykv. Kristín Einarsdóttir og hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrímur J. Sigfússon fluttu við þetta sama frv. í Nd. Ég mun víkja að efni þeirrar brtt., en hún er við 2. gr. frv., þegar hún hefur verið lögð fram og ræða hana nánar ásamt öðrum greinum þessa frv. við 2. umr.