16.12.1987
Efri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2252 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þetta frv. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins hefur fengið mjög ítarlega umræðu í hv. Nd. Alþingis svo og í fjölmiðlum á undanförnum vikum eins og kunnugt er og ég tel þess vegna ekki ástæðu til þess að sinni, miðað við þær aðstæður sem hér eru nú, að fara að setja á langt mál um ástandið í húsnæðismálum sem væri þó full ástæða til, bæði varðandi hið almenna húsnæðislánakerfi og ekki síður varðandi félagslega íbúðabyggingakerfið.

Vandi húsnæðiskerfisins er sá sami og verið hefur um langt skeið, sá að það vantar peninga. Það er enginn vandi að búa til fallegt húsnæðiskerfi á blaði og láta peningastærðirnar eiga sig. Það hefur verið vandi allra þeirra sem með þessi mál hafa farið á undanförnum árum, félmrh. og Alþingis, að það hefur gengið erfiðlega að fá fjármagn í þennan málaflokk.

Ég hygg að það liggi fyrir sem lífsreynsla núv. hæstv. félmrh. að það sé hægara um að tala en í að komast. Þegar hún var í stjórnarandstöðu, bæði gegn síðustu stjórn og þeirri næstsíðustu, átti hún ráð á hverjum fingri við lausnum húsnæðisvandans. Þau fara nú mjög þverrandi eftir því sem hún situr lengur í embætti félmrh. og er það kannski að vonum vegna þess að hún á við vanda að glíma sem er staða ríkissjóðs og efnahagsmálanna í heild, en það eru þær nöpru staðreyndir sem fagráðherrar verða yfirleitt að taka tillit til.

Ég tel að því miður breyti frv. ákaflega litlu. Ég tel að það skaði ekki og ég tel að það sé eðlilegt og óhjákvæmilegt. Miðað við hvernig ráðherrann og Húsnæðisstofnunin hafa sett málin upp sé óhjákvæmilegt að afgreiða þetta mál hið snarasta þannig að það standi ekki á þinginu og sé ekki hægt að kenna þinginu um að ekki megi afgreiða mál frá Húsnæðisstofnun ríkisins.

Ég bendi hins vegar á að í yfirlýsingum forstjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins kemur fram að hann telur að ef þetta frv. verður að lögum verði að breyta öllum lánaforritum Húsnæðisstofnunar ríkisins. Það taki margar vikur. Það er því ljóst að jafnvel þó að þetta frv. verði afgreitt hér og nú mun það taka enn langan tíma fyrir það fólk, sem hefur beðið allt frá í mars 1987, að fá úrlausn sinna mála ef þessar upplýsingar eru réttar. Og ég ítreka þær fyrirspurnir sem bornar hafa verið fram við hæstv. ráðherra frá hv. 6. þm. Reykv. og bæta þeirri fyrirspurn við að spyrja: Hvenær fær þetta fólk úrlausn sinna mála? Þarf það enn að bíða marga mánuði þannig að það verði ár sem líði, frá mars 1987 til mars 1988, þar til niðurstöður liggja fyrir?

Ég mun spara mér frekari umræðu um þetta við 1. umr. málsins. Alþb. vill greiða fyrir meðferð þess, telur hins vegar að það hefði þurft að gera miklu róttækari breytingar á húsnæðismálakerfinu, bæði hinu félagslega kerfi og hinu almenna, og einkum og sér í lagi hefði auðvitað átt að tryggja það með þessum stórkostlegu skatttökum ríkisins að auka fé til húsnæðislánakerfisins. Það hefur því miður ekki verið gert sem skyldi. En ég áskil mér að öðru leyti rétt til að fjalla ítarlega um málið við 2, og 3. umr. eftir því sem þörf og aðstæður verða til.