16.12.1987
Efri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2267 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

180. mál, gildistaka staðgreiðslu opinberra gjalda

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þegar lögin um staðgreiðslu opinberra gjalda voru samþykkt á Alþingi á síðasta þingi var í 42. gr. laganna gert ráð fyrir að lögin kæmu ekki til framkvæmda fyrr en Alþingi hefði sett sérstök lög um gildistöku þeirra. Hér var um að ræða nýmæli í íslenskri löggjöf en þessi háttur hefur tíðkast nokkuð á þjóðþingum grannþjóða.

Frv. sem nú er til umræðu fjallar um breytingu á lögum nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í gildistökulögunum frá því í vor eru auk ákvæða um sjálfa gildistökuna reglur um það hvernig hátta skuli skattlagningu á tekjur manna á núverandi tekjuári, þ.e. á árinu áður en staðgreiðsla tekur gildi.

Skv. 5. gr. gildistökulaganna skulu svokallaðar yfirfærðar tekjur, sem taldar verða fram sem tekjur ársins 1987, skattlagðar við álagningu en skattar af þeim ekki felldir niður. Yfirfærðar tekjur teljast þær tekjur sem komnar eru til vegna breytinga á uppgjörsaðferð eða á annan hátt eru færðar frá fyrri tíð eða ókominni tíð til ársins 1987.

Í frv. er lagt til að ótvírætt verði kveðið á um að ef þessar tekjur eru ekki eða hafa ekki verið rétt tilgreindar sé tryggt að skattstjóri hafi sömu heimild til endurákvörðunar á gjaldstofninum og álagningu og almennt er í hliðstæðum tilvikum. Telja verður eðlilegt að breyting sú sem frv. felur í sér nái fram að ganga.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.