16.12.1987
Efri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2273 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég ætla ekki að flytja langa tölu um það frv. til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda sem hér er lagt fram í hv. Ed. Þetta er breyting á lögum um staðgreiðslukerfi opinberra gjalda sem var til meðhöndlunar á síðasta þingi og fylgdist ég þá með gangi mála sem almennur borgari þessa lands og las fréttir af störfum Alþingis.

Ég hef oft látið efasemdir mínar í ljós um það að taka yfirleitt upp staðgreiðslukerfi skatta á Íslandi. Ég ætla þó ekki að fara að gera mikið veður út af þessum efasemdum mínum því hér er aðeins verið að lagfæra þau lög sem voru samþykkt á síðasta þingi. Mig langar þó rétt til þess að láta nokkur varnaðarorð fylgja með.

Nú vill svo til að ég upplifði hliðstæða skattkerfisbreytingu hjá frændum okkar Dönum fyrir allmörgum árum þegar þeir skiptu úr gamla skattkerfinu, eins og við höfum haft fram til þessa, yfir í staðgreiðslukerfi skatta. Það var um áramótin 1969 og 1970 sem þessi skattkerfisbreyting átti sér stað í Danmörku. Alveg eins og hér á Íslandi voru miklar væntingar meðal launafólks sem reiknaði með því að hér væri um mjög jákvæða og góða breytingu að ræða sem kæmi launþegum fyrst og fremst til góða. Reynslan varð nú allt önnur. Þegar breytingin var um garð gengin og komin á hana nokkur reynsla, kom það í ljós að þeir aðilar sem fyrst og fremst höfðu hagnast á henni voru hinir opinberu aðilar, þ.e. þeir sem fá tekjurnar, á meðan launþegarnir fóru fremur illa út úr þessari breytingu. Þeir höfðu verið blekktir stórlega á þann veg að þeim var talin trú um að þetta yrði svo einfalt og lífið yrði svo miklu öruggara á eftir þegar menn vissu nákvæmlega hvað þeir hefðu milli handanna. Þegar búið væri að taka staðgreiðsluskattinn af laununum, þá hefðu þeir nákvæmar upplýsingar um það hverju þeir mættu eyða.

Að sjálfsögðu er þetta allt saman rétt að það er miklu auðveldara fyrir launþegann en það var í gamla kerfinu að fylgjast með því hverjar eru ráðstöfunartekjur í þessu kerfi. En menn skulu ekki gleyma því að það er mjög auðvelt að auka skattbyrðina í staðgreiðslukerfi skatta. Það er mun auðveldara að auka skattbyrði launþega í staðgreiðslukerfi skatta en það var í gamla kerfinu. Sérstaklega á þetta þó við um verðbólguþjóðfélag eins og það sem við lifum í. Þegar verðbólgan var sem verst hér á Íslandi, þá gerði hún þrátt fyrir allt launþegum þó lífið bærilegt því hún hjálpaði þeim við að greiða skattana eftir á. Við skulum ekki gleyma því. (Gripið fram í: Hún var ekki sem verst þá.) Ja, það má vel vera. En engu að síður var það nú svo á verðbólguárunum að verðbólgan hjálpaði launþegunum við að geta borgað skattana. Svo einfalt er málið. Í staðgreiðslukerfi skatta er ekki um neitt slíkt að ræða, þannig að fari verðbólgan á skrið aftur, þá má búast við því að launþegar fari mjög illa út úr þessu kerfi.

Ég ætla ekki að fara að fjalla hér neitt um einstakar greinar þessa frv. Eins og ég gat um í upphafi máls míns þá er hér um það að ræða að verið er að gera ýmsar lagfæringar og hreinsa út hortitti úr staðgreiðslulögunum eins og þau voru sett á síðasta þingi. En mig langaði engu að síður að vekja athygli á þeim vandamálum sem geta komið upp í sambandi við staðgreiðslukerfi skatta og vara launþega við að það getur verið að þeir hafi keypt það ansi dýru verði að fá þetta öryggi sem menn telja að komi með staðgreiðslukerfinu. Að menn viti nákvæmlega hverjar ráðstöfunartekjur heimilis eru hverju sinni.

Svo eitt hér að lokum, herra forseti. Með því að taka upp staðgreiðslukerfi skatta og eyða miklum tíma í umræðu um það mál hefur tekist að drepa á dreif umræðunni um það að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum. Mjög margir flokkarnir, og þar hefur kannski verið fyrstur meðal stjórnmálaflokka Sjálfstfl., hafa barist lengi fyrir þessu en gengið afar illa að koma fram. Með þeirri miklu umræðu sem hefur farið fram um staðgreiðslukerfi skatta hefur nánast tekist að þegja þá umræðu alveg í hel að afnuminn skuli tekjuskattur á almennum launatekjum. Það er eins og við staðgreiðslukerfið hafi alveg gleymst það aðalmarkmið sem menn settu sér, a.m.k. fulltrúar Sjálfstfl. Sérstaklega man ég þó eftir umræðu þeirra um þau mál fyrir kosningarnar 1983. (Gripið fram í: Og síðar.) Já, og síðar. Ég tek undir það, hv. þm. Það er oft sem talað er um það á tyllidögum að það beri að afnema tekjuskatt á almennum launatekjum, en eins og ég segi, það hefur gleymst dálítið í þessari umræðu um staðgreiðslukerfi skatta. Eins og lögin og frv. er, þá eru engir tilburðir í þá átt að afnema tekjuskatt af almennum launtekjum. En við getum komið betur inn á þau mál síðar þegar við förum að ræða hér í hv. deild frv. til laga um tekjuskatt.