16.12.1987
Efri deild: 27. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

197. mál, vörugjald

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Hv. þm. Júlíus Sólnes hafði áhyggjur af því að breytingar á vörugjaldi kynnu að stuðla að hækkun orkuverðs. Hvernig hann fékk það út er mér óskiljanlegt. Raflagnaefni sem hér um ræðir, hvað gerist með það? Tollar lækka úr 35% í 0, vörugjald lækkar úr 24% í 14% verðlækkun á þessum aðföngum er 30%.

Hv. þm. spurði einnig: Af hverju er verið að leggja vörugjald á hreinlætistæki? Það er undarlega spurt. Þessar vörur eru með 30% vörugjald í dag og þær bera 30% toll. Það er verið að lækka vörugjald um helming og það er verið að fella tollinn niður. Vöruverðið lækkar um 45%. Maður skyldi ætla að þetta væri nokkuð vel að verki staðið.

Við fyrri umræðu spurði hv. þm.: Hvers vegna ekki að leggja vörugjald á alla hluti, á hinn breiða stofn? Hvað mætti lækka það við það? Því var svarað. Það mætti lækka það niður í 81/2%, en afleiðingarnar að öðru leyti yrðu á allt aðra lund en að er stefnt. Verðlagsáhrif yrðu mun óhagstæðari, möguleiki á raunhæfri innheimtu enginn, enda reynslan af núverandi vörugjaldi slæm.

Nú er spurt: Af hverju ekki að fella gjaldið bara hreinlega niður? Svarið við því er mjög einfalt. Það er vegna þess að það hefur verið ákveðið þrátt fyrir allt að afla tekna til þess að halda vöruverði á helstu matvælum óbreyttu og hafa þannig áhrif á m.a. kaupmátt heimilanna.

Þetta eru svona helstu atriðin sem stungu í augun við umfjöllun.