16.12.1987
Efri deild: 27. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2347 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

196. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Júlíus Sólnes):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd minni hl. fjh.- og viðskn. Nál. minni hl. er á þskj. 333. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa nál.:

„Minni hl. er andvígur tillögunum um matarskatt. Í samræmi við það eru fluttar brtt. við frv. um söluskatt.

Minni hl. telur að matarskatturinn komi verst við láglaunafólkið eins og margoft hefur verið sýnt fram á.

Meiri hl. telur að þrennt vinnist við matarskattinn:

1. Skilvirkni. 2. Réttlæti. 3. Einföldun.

1. Engin ástæða er til að ætla að tryggt sé að söluskattur skili sér betur af þúsundum smáfyrirtækja sem einkum selja þjónustu þó að söluskattur verði lagður á matvæli. Skatturinn á matvæli — 5750 millj. kr. — er að því leyti „skilvirkur“ að fólk neyðist til að borða mat til þess að geta lifað — einnig fátækt fólk.

2. Skatturinn er bersýnilega ranglátur því að hann leggst þyngst á láglaunafólkið. Þannig fer skatturinn hlutfallslega hækkandi eftir því sem launin eru lægri.

Það getur a.m.k. ekki talist jafnaðarstefna.

3. Það getur verið skynsamlegt markmið að einfalda skattakerfið. En þá átti ekki að byrja á því að leggja á matarskatt. Fremur hefði átt að byrja á því að tryggja betur að fyrirtæki og þeir tekjumeiri í þjóðfélaginu greiði réttlátan skatt af tekjum sínum.

Guðrún Agnarsdóttir sat fundi nefndarinnar og tók þátt í meðferð málsins og er samþykk nál. þessu.“

Undir þetta skrifa Svavar Gestsson og Júlíus Sólnes.

Eins og sagt er frá í minnihlutaálitinu þá leggjumst við fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna öll gegn matarskattinum og tökum þar undir með fjölmörgum öðrum aðilum utan þings sem innan, að matarskatturinn er væntanlega það sem þessi ríkisstjórn verður þekkt fyrir. Þegar Íslandssagan verður skrifuð þá mun það verða matarskatturinn sem verður auðkenni þessarar ríkisstjórnar. Með matarskattinn á herðunum mun hún festast á blöðum sögunnar þegar saga okkar á þessum seinni hluta 20. aldarinnar verður skráð. Ég öfunda ekki hæstv. ráðherrana af því að þurfa að sitja undir því það sem eftir verður Íslandssögunnar að hafa nánast komið öllum almenningi í landinu á kaldan klaka með matarskattinum.

Einn þekktur leiðtogi jafnaðarmanna í Vestur-Þýskalandi, Willy Brandt, sagði eitt sinn að komist verðbólgan í 25% þá sé lýðræðið í hættu. Ég held að á sama hátt sé hægt að segja að þegar farið er að leggja 25% matarskatt á helstu nauðsynjavörur heimilanna, matvörurnar, þá er lýðræðið einnig í hættu. Það gerist að vísu ekki með sama hætti og í ríkjum t.d. Suður-Evrópu, þar sem fólk er örara, blóðið er heitara. Ef leggja ætti á það 25% matarskatt, eins og hér er verið að gera, ofan í þá staðreynd að verðlag matvara á Íslandi er með því hæsta sem þekkist í öllum heiminum, þá hygg ég að fólk í hinum suðlægari löndum mundi hreinlega streyma út á göturnar og gera uppreisn. Við Íslendingar erum ekki eins blóðheitir og Suður-Evrópubúar þannig að við látum okkur nægja að nöldra yfir þessu á öllum kaffistofum fyrirtækja landsins. Á öllum vinnustöðum landsins þar sem fólk kemur saman á morgnana til að fá sér kaffisopa, þar agnúast menn út í þetta og bölva hæstv. ríkisstjórninni og ráðherrum hennar fyrir þá ósvinnu að leggja matarskatt á fólkið. En ég hygg að almenningur í landinu muni láta þessa þraut yfir sig ganga eins og svartadauðann á 15. öld og móðuharðindin á 18. öld (HBl: Finnst þm. þetta sambærilegt?) Ja, allt að því. Ég geri ekki mikinn greinarmun á því. Ég geri því ekki ráð fyrir að hæstv. ráðherrarnir þurfi að óttast það að það verði gerð uppreisn í landinu þegar búið er að leggja matarskattinn á, þó svo að þeir hafi gætt þess að tollar af ýmsum hernaðartækjum voru ekki lækkaðir niður í núll.

Ég tel út af fyrir sig ekki nauðsynlegt að orðlengja frekar um matarskattinn. Við erum búin að hafa um hann miklar umræður nú þegar. Að vísu getum við sagt eitt og annað um matarskattinn alllengi enn. Í sjálfu sér væri hægt að tala í marga klukkutíma um matarskattinn, en ég ætla að vinda mér frekar í það að gera grein fyrir brtt. okkar þm. Borgarafl. í Ed. við frv. til l. um breyt. á l. nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum. Við leggjum til að eftirtaldar breytingar verði gerðar á frv.

1. Við 3. gr. Við 22. tölul. A-liðar 3. gr. — en þar er listi yfir þær vörur sem verða undanþegnar söluskatti — leggjum við til að við bætist nýr liður, sem verði þá 23. tölul. og orðist svo:

„Fiskur og fiskmeti, kjöt og unnar kjötvörur, mjólk og mjólkurafurðir, egg, brauð, grænmeti og ávextir.“ — Þetta komi inn undir 23. tölul. og verði þannig án söluskatts.

Mér varð á í messunni þegar ég var að leggja þessa brtt. inn til vinnslu hjá starfsfólki Alþingis. Ég hafði gleymt eggjunum. Ég kom eggjunum inn á síðasta augnabliki og er það vel því að mér þykir gott að borða egg og það hefði verið verra ef ég hefði gleymt þeim. En hins vegar láðist mér að taka með loðnuhrogn. Vonandi verða aðrir til að benda á það ásamt ýmsum fleiri liðum.

Önnur brtt. á þskj. 325 er afar einföld. Við teljum að það eigi að fella niður undanþágu sem kemur fram í 7. tölul. 4. gr. þannig að síðasti málsliðurinn falli brott. Það hefur áður komið fram í umræðum hér að okkur þykir afar einkennilegt að meðan verið er að leggja matarskatt á helstu matvörur sem heimilin nota daglega, þá skuli verið að veita undanþágu frá því að leggja söluskatt á afruglara. Þetta er alveg með ólíkindum og sýnir best með hvaða hætti hér er staðið að verki.

Þá leggjum við til að í 19. tölul. 4. gr. bætist við á eftir orðunum „eða líknarstarfsemi“: og íþróttafélaga. Þá mundi 19. tölul. hljóða svo: „Gjafir til björgunarsveita, svo og til mannúðar- eða líknarstarfsemi og íþróttafélaga.“ Að þar sé hægt að fella niður söluskatt eða endurgreiða söluskatt.

Að lokum langar mig svo til að fara aðeins inn á eitt atriði sem kemur fram í athugasemdum við þetta lagafrv., en þar er sagt að þessar breytingar muni fela í sér lækkun verðbólgu. Ég leyfi mér að stórefast um að þetta markmið muni nást, einfaldlega vegna þess að eftir áramótin eru fyrir dyrum kjarasamningar. Það er ekki nokkur vafi á því að verkalýðsfélögin og raunar allir launþegar, sem ganga til nýrra kjarasamninga, munu reyna að verjast þessari árás ríkisstjórnarinnar á launafólkið í landinu. Ég geri ráð fyrir því að verkalýðsfélögin og launþegasamtökin muni koma með mjög miklar kaupkröfur til þess að vega upp á móti matarskattinum ásamt þeim skattálögum sem er verið að demba yfir almenning með tekjustofnafrumvörpunum sem er verið að hella yfir þingið á síðustu dögum þinghaldsins fyrir hátíðirnar. Það er alveg ljóst að þær kaupkröfur sem verða settar fram í þessum kjarasamningum verða með þeim hætti að það er útilokað að kjarasamningar náist nema verulegar kauphækkanir komi til.

Þetta ásamt hinum gífurlegu vöxtum sem eru við lýði í þjóðfélaginu. Þeir eru orðnir þannig að m.a.s. eitilharðir framsóknarmenn — ef ég man rétt þá hafði forstjóri stærsta fyrirtækis landsins, Sambands ísl. samvinnufélaga, eitt og annað um þetta að segja og var helst á honum að skilja að hæstv. ríkisstjórn væri nú óðum að setja allan atvinnurekstur í þessu landi á hausinn með peningastefnu sinni sem leiðir af sér þessa háu vexti — þetta samanlagt hlýtur að hleypa verðbólgunni á fullt þegar komið verður fram á útmánuði, þannig að ég geri ráð fyrir því að við nálgumst nú óðum gömlu góðu árin, svo sem eins og fyrir fimm, sjö til tíu árum þegar verðbólgan æddi hér áfram óstöðvandi.