16.12.1987
Efri deild: 27. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (1711)

196. mál, söluskattur

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. 7. þm. Reykn., þá stend ég að því nál. sem minni hl. hefur gefið út í þessu máli um söluskattinn. Það er ekki síst vegna þess að í þessum söluskatti er áætlað að leggja skatt á lífsnauðsynjar fólks, sem, eins og kom fram í nál., mun koma sér afskaplega illa fyrir marga og þá einkum þá sem minnstar tekjurnar hafa.

Í sambandi við vinnubrögðin við þessi frv. sem hér hafa verið lögð fram þá hef ég þegar gagnrýnt þau. Það er í raun fáránlegt að við skulum standa hérna og fletta blöðum til þess að glöggva okkur á brtt. í þessum málum, hafa varla tök á því að kynna okkur þær. Og mér datt það í hug áðan hvort þeir menn, sem setja okkur í þessar aðstæður, mundu kæra sig um það að vera skornir upp af lækni sem væri með leiðbeiningabók í anatómíu í annarri hendinni þegar hann væri að reyna að skera þá upp með hinni. Málið er nefnilega það að það er afskaplega erfitt að átta sig á því og ég held að þeir stjórnarliðar, sem hér eru að flytja brtt. ráðherra og ráðuneytisins í raun, átti sig tæplega á því eins og hv. 8. þm. Reykv. sagði. Hér er staðurinn, en hér er ekki stundin, klukkan að verða 3, til þess að ræða þessi mál af neinni viðhlítandi skynsemi.

Eins og ég hef áður minnst á þá erum við kvennalistakonur afskaplega mótfallnar matarskattinum og höfum verið síðan þeim hugmyndum var hreyft að leggja hann á. Það er ekki síst vegna þess að hann kemur sér afskaplega illa fyrir þá sem minnstar tekjurnar hafa og fyrir barnmargar fjölskyldur. Og mér er mjög til efs að þær bætur sem mæta eiga þessari skerðingu, einkum fyrir þær fjölskyldur, verði í raun nægar, enda hefur alls ekkert verið útfært í okkar eyru um það hvernig á að mæta þessari skerðingu sem vegur svona þungt hjá einungis hluta launþega í þjóðfélaginu, miklu þyngra en á öllum öðrum vegna þess að matvæli eru hjá láglaunafólki allt að 1/3 af neyslu þess. Í raun hafa hefðbundnar neysluvenjur breyst talsvert þannig að það er miklu minna vægi í þeirri matvöru sem ákveðið hefur verið að niðurgreiða, eins og kindakjöti. Og það kom líka fram hér um daginn að einmitt þetta fólk hefur tæpast talið sig hafa efni á því að neyta þessarar vöru vegna þess hversu dýr hún er orðin. Það er talið að matvöruliðurinn muni hækka um 7% en í raun verður þessi hækkun mun meiri hjá lágtekjufólkinu. Hún verður verulega meiri og má ætla að hún verði um 15% í raun miðað við þeirra neyslu og hlutfallið af matvælum í henni.

Það kom reyndar fram á fundum okkar í nefndinni með fulltrúum launþegasamtakanna, bæði ASÍ og BSRB, að fulltrúar þeirra voru báðir mjög andvígir þessum matarskatti. Þeim fannst þetta mjög óréttlát dreifing á söluskatti og andmæltu reyndar kröftuglega í nafni samtaka sinna þessari álagningu á matvæli. Og okkur hafa verið send mótmæli frá t.d. ASÍ við þessum matarskatti, sem mig langar til að lesa upp ef ég kynni nú að finna það blað í öllu því pappírsfargani sem á okkur hefur dunið undanfarna daga. Ég vil lesa, með leyfi forseta:

„Mótmæli við matarskatti. Sambandsstjórnarfundur ASÍ, haldinn dagana 30. nóv. og 1. des. 1987, ítrekar mótmæli miðstjórnar ASÍ vegna áforma stjórnvalda um skattlagningu matvara um næstu áramót.

Skattlagning matvöru kemur óhjákvæmilega harðast niður á þeim sem tekjulágir eru og nota stóran hluta tekna sinna til matvörukaupa. Sambandsstjórn krefst þess að ríkisstjórnin hætti við öll áform um matarskatt og að felldar verði niður þær álögur sem þegar hafa tekið gildi. Nái áform ríkisstjórnarinnar fram að ganga munu þau spilla frekar en orðið er samkomulagsmöguleikum á vinnumarkaði.“ En það eru viðræður sem stjórnvöld eiga í vændum einmitt við launþegasamtökin.

Það var líka talið, reyndar í viðræðum okkar við þessa fulltrúa í nefndinni, að þessar hækkanir á almenning mundu í raun valda alvarlegri þróun í þjóðfélaginu með tilliti til kjarasamninganna og mikil hætta væri á því einmitt að verðbólgan mundi æða af stað og sú skoðun kom fram að þessi skattheimta, sem þegar hefði gengið yfir, hefði í raun komið af stað verðbólguþróun og beinni þyngingu á framfærslukostnaði, einkum á þá lægst launuðu.

Það var einnig rætt um það hve byrði stórra fjölskyldna yrði erfið og að hún yrði ekki leyst vegna þess að þeir sem hafa stórar fjölskyldur fá ekkert hærri laun en þeir sem eru einhleypir og eins og ég áður sagði langar mig að biðja hæstv. fjmrh. um að útfæra fyrir okkur hvernig hann ætlar að mæta þessum vanda þannig að vel sé og þannig að í raun mæti þeirri skerðingu sem verður hjá þessu fólki.

Hv. 7. þm. Reykv. bað áðan um nánari útlistun og skýringu á því hverjar þær forsendur væru sem hefðu verið lagðar af reiknimeisturum og fjmrh. þegar þeir ákváðu þessar kerfisbreytingar og þessar miklu tilfærslur sem þeir hafa gert í skattheimtu og þá um leið á ráðstöfunartekjum fjölskyldnanna í landinu. Ég vil taka undir þær spurningar.

Annað kom líka fram í máli þessara fulltrúa launþegasamtakanna og ég tek þessu miðilshlutverki sem ákveðnu málamiðlunarhlutverki. Ég tel að það sé ágætt að koma þessum skilaboðum áleiðis til hæstv. fjmrh. að þessar aðgerðir og áhrif þeirra á gerða samninga, sem ríkisvaldið gerði við launþegasamtökin, yrðu til þess að vekja eða endurvekja og viðhalda vantrausti launþegasamtakanna á ríkisvaldið sem slíkt þegar það gengi þannig á gerða samninga. Það að ríkisstjórnarskipti yrðu til þess að brotnir væru samningar væri ekki til annars en að vekja vantraust og viðhalda því á ríkisvaldið sem slíkt og það hlýtur að gera mönnum erfitt fyrir ef reyna á að ná samstöðu í þjóðfélaginu, hvað þá þjóðarsátt.

Eins og ég sagði áður þá höfum við kvennalistakonur ítrekað mótmælt matarskattinum, og ég ætla ekki að hirða um það að fara að lesa upp mótmæli okkar eða yfirlýsingar, það hef ég þegar gert við 1. umr. um þetta mál og vitna til þess. En þó að við séum mótfallnar þessu frv. og munum greiða atkvæði gegn því þá ætlum við samt að freistast til þess að gera við það brtt. í þeirri von að tekið verði tillit til þeirra. Það væri að sjálfsögðu hægt að gera margar brtt. en við ákváðum að halda okkur á mottunni og gera einungis þær sem mestu varða, og mig langar að kynna þessar brtt. hér í umræðunni.

Það eru þá brtt. á þskj. 329 frá þingkonum Kvennalistans í Ed., Guðrúnu Agnarsdóttur og Danfríði Skarphéðinsdóttur.

Í fyrsta lagi er það við 1. mgr. 3. gr. frv. Þar við bætist nýr tölul, er verði 23. tölul. og hljóði svo: „Vörur sem um ræðir í 1. til IV. flokki viðauka I í tollalögum (tollskrá) og ætlaðar eru til manneldis.“ — Þetta þýðir í raun að við undanskiljum undan söluskatti allar matvörur. Og þessi brtt. er í fullu samræmi við undanþáguna sem er í gildandi reglugerð um söluskatt nú. Við viljum sem sé undanskilja matvæli algjörlega söluskatti. — „Undanþága samkvæmt þessum tölul. tekur þó ekki til hreinna eða blandaðra grænmetis- og ávaxasafa eða tilreiddra efna til slíkrar drykkjarvörugerðar, sælgætis, öls, gosdrykkja eða annarra vara sem skyldar eru samkvæmt lögum um vörugjald, sbr. reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim lögum. Undanþágan nær ekki heldur til tóbaks, drykkjarvara sem innihalda áfengi, tilbúinna efna til öl- eða víngerðar, poppkorns eða annars sælgætis þótt það sé ekki gjaldskylt samkvæmt lögum um vörugjald. Undanþága þessi nær ekki til sölu veitingahúsa, greiðasölustaða eða annarra á tilbúnum mat.“

Í öðru lagi er brtt. við 14. tölul. 2. mgr. 3. gr. frv. sem orðist svo:

„Aðgangseyrir að íþróttasýningum, íþróttamótum, sundstöðum, heilsuræktarstöðvum og skíðalyftum.“ — Þetta er undanþáguheimild sem varðar fyrst og fremst heilsuræktarstöðvar. Til okkar hafa borist erindi víða að í sambandi við heilsuræktirnar sem áætlað er að setja söluskatt á. Þar hefur komið fram að mikill fjöldi þeirra sem sækir slíkar heilsuræktir eru einmitt konur. Konur sem stunda leikfimi. Og það hefur líka komið fram að margar þeirra telja sig þegar greiða fyrir þetta það sem þær geta og hætta talin á því að þær muni ekki treysta sér til þess að halda áfram þessari heilsurækt eða iðkun leikfimi muni söluskattur leggjast á. Að vísu eru þessar heilsuræktir jafnan blandaðar hvað snertir þá starfsemi sem þar fer fram. Þar er ekki endilega einungis leikfimistarfsemi heldur er þar líka um að ræða gufuböð og nudd og jafnvel sólböð o.fl. Sums staðar er um tækjanotkun að ræða. Það er mjög erfitt að greina þarna á milli og fyllsta ástæða til að taka söluskatt af einhverju af þessu, en þó allra síst tel ég af leikfiminni. Hins vegar tókum við þá ákvörðun að setja heilsuræktarstöðvar þarna í greinina eða töluliðinn með þeim íþróttaiðkunum sem þar eru sérstaklega tilgreindar af þeim ástæðum sem ég hef þegar talið upp. Ætti það raunar að samræmast þeim anda söluskattsfrv. sem hæstv. ráðherra tilgreindi og eiginlega státaði sig af hér um daginn að þarna væri tekið fullt tillit til íþróttaiðkana og heilsubætandi starfsemi.

Í þriðja lagi er brtt. við 4. gr.brtt. er flutt fyrst og fremst vegna þess að í brtt. okkar við frv. til breytingar á tollalögunum ákváðum við að fella niður tolI af innfluttu grænmeti í þágu neytenda. Hins vegar er oft erfitt þegar verið er að velja slíkt að það er alltaf einhverjum hagsmunaaðilum sem er mismunað. Þegar verið er að gæta eins þá kann að vera að gengið sé eitthvað á rétt annars. Við gerum okkur fyllilega grein fyrir mikilvægi þess að vernda innlenda garðyrkju og garðrækt og teljum að tímabundið bann á innflutningi komi til móts við þarfir þessa iðnaðar til verndar. En við viljum gjarnan mæta þeirri skerðingu sem e.t.v. kann að vera í kjölfar þeirrar brtt. sem við gerðum við tollalögin og var gerð til þess að mæta þörfum neytenda almennt og þá manneldissjónarmiðum með því að gera þessa breytingu við 13. tölul. 4. gr. þannig að á undan orðinu „loðdýrarækt“ komi: garðyrkju. Og þá hljóðar greinin svo:

„Fjárfestingarvörum til nota við garðyrkju, loðdýrarækt, loðkanínurækt, fiskeldi, hafbeit og fiskirækt, þar með talið byggingarefni og jarðvinnu.“ Heimildin tekur þó ekki til ökutækja.

Það er sem sé verið að koma til móts við þarfir þessa mikilvæga innlenda iðnaðar, garðyrkjunnar og garðræktarinnar, með því að gefa heimild til undanþágu fyrir fjárfestingarvörur til hans.

Það væri ýmislegt fleira sem væri vert að athuga og gera brtt. um, en við höfum ekki gert það. Hins vegar hafa aðrir fulltrúar stjórnarandstöðunnar, úr Alþb. og Borgarafl., komið með brtt. sem við munum gjarnan styðja ef okkar tillaga nær ekki fram að ganga, sem ég svo sannarlega vona að hún geri.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt því að tíminn líður og nóttin er ekki lengur ung en langur vinnudagur á morgun sem byrjar snemma og því mun ég ljúka máli mínu nú, herra forseti. En ég hlýt þó að undirstrika það, sem ég minntist á í máli mínu áðan þegar ég ræddi breytingar við tollalögin, að það er einkum í þessu þriðja máli, í þessu frv. til laga um breytingu á lögum um söluskatt, sem falski tónninn í þríþætta stefinu um einföldunina, skilvirknina og réttlætið hljómar hæst, þ.e. sá falski tónn sem syngur ranglæti í stað réttlæti.