20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

10. mál, umhverfisfræðsla

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir efni þessarar till. til þál. um umhverfisfræðslu sem hér er flutt af þm. Kvennalista, ekki síst þar sem ég hef flutt till. um þetta efni á undanförnum þingum, þrívegis flutt um þetta till. í Sþ., síðast á þinginu 1986–87 á þskj. 90, sem var till. í 10 liðum um úrbætur í umhverfismálum og náttúruvernd, þar sem lagt var til að ríkisstjórninni væri falið að sjá til þess að undirbúin verði og framkvæmd tiltekin 10 atriði sem þar eru upp talin og 10. liðurinn er einmitt um þetta efni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fræðsla um íslenska náttúru, umhverfisvernd og auðlindir í fjölmiðlum og skólum verði efld, m.a. með því að nýta söfn, friðlýst svæði og náttúrulegt umhverfi í og við þéttbýli með skipulegum hætti í þessu augnamiði.“

Í grg. með þessari till. er síðan að finna ítarlega umfjöllun um umhverfisfræðslu, þýðingu hennar og gildi. Ég ætla ekki að fara að þreyta hv. þm. á því að lesa það upp. Það liggur fyrir í nefndu þskj. nema hvað ég rifja það upp að náttúruverndarþing 1984 gerði ályktun um þetta efni, eins fjallaði landsfundur Alþb. 1983 um þetta sérstaklega. Það var raunar í framhaldi af ályktun þar um umhverfismál sem ég flutti þessa þáltill. ásamt fjórum öðrum þm. Alþb.

Ég vil nefna það við hv. 1. flm. að í þessu þskj., nr. 90 á síðasta þingi, er að finna umsagnir sem borist höfðu á þingunum áður um þessa till., þar á meðal um umhverfisfræðslu. Þessari till. var vísað til ýmissa aðila og þar er að finna umsagnir m.a. frá Landgræðslu ríkisins, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Landgræðslan telur aukna fræðslu um umhverfismál einn helsta lykilinn að aukinni umhverfisvernd þegar til lengri tíma er litið. Einkum eru skólarnir mikilvægir. Í því sambandi vill stofnunin benda á nauðsyn þess að auka kennslu í bændaskólum og búvísindadeildinni á Hvanneyri um umhverfis- og gróðurverndarmál. Fyrirbyggjandi aðgerðir til gróðurverndar eru mikilvægasti þátturinn í almennri umhverfisvernd. Auk fegurðar landsins og gildi til almennra nota er búskapur í framtíðinni kominn undir því hvernig til tekst að varðveita og efla landgæðin. Landgræðslan mælir með því að till. þessi hljóti jákvæða afgreiðslu og lýsir sig fúsa til frekari viðræðna um þessi mál.“

Félag leiðsögumanna tók undir 10. liðinn um umhverfisfræðslu í umsögn sinni. „Þessi liður“, segir þar, „á það samnefnt með öllum hinum að hafa fengið ítarlega umfjöllun á fundum og ráðstefnum og mikilvægt er að ýta þessu úr vör strax.“

Ferðamálaráð Íslands segir um aukna umhverfisfræðslu í sinni ítarlegu umsögn um þessa till.: „Ferðamálaráð tekur undir það sem kemur fram í 10. lið grg., bls. 5, og væri reiðubúið að leggja því máli lið ef fjárveiting væri fyrir hendi.“

Þetta eru dæmi um jákvæðar umsagnir varðandi þennan lið till. sem ég hef staðið að á undanförnum þingum með fleiri þm. Alþb.

Það skiptir ekki máli hvaðan góð mál koma. Góðar vísur verða sjaldan of oft kveðnar á meðan ekki er um framkvæmdir að ræða og þess vegna tek ég eindregið undir þessa till. Mig minnir að till. um umhverfismálin hafi farið til allshn. á síðasta þingi, sem hafi fjallað um þetta mál, en ég geri engan ágreining úr því út af fyrir sig. En hv. þm., 1. flm., íhugar kannski hvert skynsamlegt væri að beina tillögum um umhverfismal. Ég tel mikilsvert að samræmi verði í því varðandi tillöguflutning hér í þinginu þannig að það sé sama þingnefndin sem fær málasviðið umhverfismál og tillögur sem þar að lúta til meðferðar.

Að endingu get ég þess svona til upprifjunar að þessi mál hafa lengi verið á döfinni. Ég held að það hafi verið fyrir 12–13 árum sem ég flutti sérstakt erindi í Ríkisútvarpið um nauðsyn umhverfisfræðslu og rökstuddi það, líklega veturinn 1973–1974. Það hefur allt of lítið miðað í þessum efnum eins og á fleiri sviðum umhverfisverndar. Menn, sem um þessi mál hugsa, gera sér ljósa þörfina en það vantar samræmd átök og vissulega þarf menntmrn. að taka þar til hendi varðandi skólakerfið en fjölmiðlar landsins þurfa að koma inn í þá umræðu með skilvirkari hætti en orðið hefur. Ég skal þó ekki lasta það sem gott hefur verið gert og umræðan um gróðurverndarmálin á síðasta sumri var vissulega þörf og góð áminning og varð áreiðanlega til þess að vekja marga til umhugsunar um þann mikla vanda sem þar blasir við.