20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

10. mál, umhverfisfræðsla

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Austurl. fyrir hans innlegg í umræðuna og fyrir það að minna á sína ágætu tillögu sem ég vissi mætavel um og hefði kannski átt að geta um en það hefði kannski líka verið ástæða til þess að geta um fleiri þingmál og ég gerði það sem sagt ekki. Ég kynnti mér þá tillögu vel. Hún fjallaði mjög vítt og breitt um þessi mál og hefði ég getað skrifað undir flest sem í henni stóð ef ég man rétt. Þar var umhverfisfræðslan einn liður af allmörgum og það var ekki meining okkar flm. þessarar tillögu að stela neinu frá hv. síðasta ræðumanni. Ég vona að hann hafi ekki tekið það þannig. Við höfum litið svo á að þetta væri einn mikilvægasti þátturinn í umhverfismálum nú og sá grunnur sem úrbætur í umhverfismálum og aukinn skilningur á úrbótum þar hvíli a. Þess vegna vildum við taka það sérstaklega út úr og leggja áherslu á það. Þess vegna m.a. er hugsanlega ástæða til þess að tillagan fari ekki í sömu nefnd og hv. síðasti ræðumaður sendi sína í. Hann gat þess að hún hefði farið í allshn. Ég nefndi félmn. þar sem í þingsköpum er gert ráð fyrir að þangað fari tillögur sem lytu að skólamálum og félagsmálum. Þar sem fyrst og fremst er e.t.v. um að ræða fræðslu sem fer fram í skólum var það mín hugsun að hún ætti frekar heima í félmn. Það er þannig með tillögurnar að það er sama hvaðan gott kemur. Svo er einnig með nefndirnar, það er sama hvar um gott er fjallað. Ég geri því engan ágreining um það í hvora nefndina málið fer. Ég legg þó til að það fari í félmn. og legg það í vald forseta hvert því verður vísað.

En ég þakka aftur hv. 2. þm. Austurl. fyrir að taka undir þessa till. Ég átti reyndar von á því því hann hefur sýnt mikinn áhuga á þessum málum og lagt þeim lið.