16.12.1987
Neðri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

137. mál, launaskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er á ferðinni frv. til l. um að breyta lögum um launaskatt á þann veg að leggja skatta á flestar þær greinar, nánast allar, að landbúnaði eða búskaparstörfum og skógrækt undanskildum, sem áður höfðu ekki borið launaskatt, leggja sem sagt launaskatt á þessar greinar, þó lægri prósentu en í gildi hefur verið fyrir þa sem greitt hafa launaskatt hingað til.

Hér er fyrst og fremst á ferðinni framleiðslustarfsemin, sjávarútvegsgreinarnar og iðnaðurinn, sbr. athugasemdir við lagafrv. þar sem farið er yfir hvaða laun fyrir störf hjá hvaða fyrirtækjum skuli falla þarna undir, þ.e. fiskverkun og iðnaður samkvæmt atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, laun fyrir störf við fiskirækt og störf sjómanna á íslenskum fiskiskipum, þar með störf hlutaráðinna landmanna sem innt eru af hendi í tengslum við úthald skipanna til fiskveiða. Eins og fram kom í máli hæstv. fjmrh. er gert ráð fyrir að þetta færi ríkissjóði um 400 millj. kr. í tekjur á næsta ári. Það skiptist nokkuð jafnt milli sjávarútvegsgreinanna annars vegar og hinna iðnaðargreinanna hins vegar.

Það getur út af fyrir sig verið fyllilega eðlilegt að ræða hvort ekki sé nauðsynlegt að samræma meir fyrirkomulag á launaskattsgreiðslum hinna ýmsu atvinnugreina, en þetta hefur þó verið við lýði alllengi. Ég hef skilið það svo eða gjarnan viljað skilja það svo, að með því að undanskilja framleiðslustarfsemina, landbúnað, sjávarútveg og iðnað, væri sýndur viss skilningur á þýðingu þeirrar starfsemi fyrir þjóðfélagið umfram aðrar greinar, þ.e. að framleiðslugreinarnar, útflutningsatvinnugreinarnar nytu þarna nokkurs forskots og með því væru yfirvöld að sýna skilning á mikilvægu hlutverki þeirra fyrir allt efnahagslífið í heild. Það má vera að menn eigi að taka það svo sem þessi nýja skattlagning, en þó með lægri prósentu en á aðrar greinar, eigi að halda þessum skilningi áfram til haga. Ég er ekki sammála því. Ég tel að ef verið er að mismuna greinum þarna á annað borð sé e.t.v. eðlilegra að undanskilja þá algerlega ákveðna starfsemi.

En það sem þó er sérstaklega rétt að ræða í tengslum við afgreiðslu málsins er hvort þetta er heppilegur tími til að breyta um í þessum efnum. Þá vakna fyrst og fremst spurningar um afkomu þeirra greina sem hér á að skattleggja. Þó hæstv. fjmrh. geti sjálfsagt með prósentuleikfimi sýnt fram á að þetta sé tiltölulega lítið mál fyrir þessar greinar miðað við veltu þeirra í heild sinni er nokkuð ljóst að 400 millj. kr. eru 400 millj. kr. og um 200 millj. þar af frá sjávarútvegsgreinunum munar. Menn geta haft til hliðsjónar þá óánægju sem verið hefur vegna þess að hæstv. ríkisstjórn er að breyta reglum um . endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti eða hefur gert að undanförnu. Eins og reyndar hæstv. ráðherrann gat um sjálfur eru nú aðstæður versnandi í þessum greinum. Sjávarútvegurinn er rekinn með tapi, flestallar greinar þar, þó mismunandi miklu tapi eftir verkunaraðferðum og greinum. En þar er versnandi afkoma. Og ekki þarf að minnast á iðnaðinn. A.m.k. eru öllum hv. þm. væntanlega kunnir erfiðleikar ullariðnaðarins, þess útflutningsiðnaðar sem á síðasta áratug óx mest allrar iðnaðarstarfsemi. Þar er nú við geysilega erfiðleika að etja, um 30% tap á ýmsum greinum þeirrar starfsemi, og ekki hillir undir að ástandið lagist, a.m.k. ekki á meðan hæstv. ríkisstjórn heldur fast við þau áform sín að halda genginu óbreyttu. Það hefur verið eins og menn muna alveg harðákveðin stefna hæstv. ríkisstjórnar, a.m.k. hafa miklir svardagar gengið um það á undanförnum vikum, að ekki stæði til að breyta genginu, að hreyfa gengið. Og hvað er verið að segja með því við þessar atvinnugreinar að það eigi ekki að hreyfa til gengið? Hvað er með því verið að segja við sjávarútveg og útflutningsiðnað? Það er verið að segja að það eigi að halda tekjum þessara greina óbreyttum í 30% verðbólgu innan lands frá mánuði til mánaðar. Það er nokkuð ljóst að verðhækkanir á afurðum koma ekki til með að vega upp þessar kostnaðarhækkanir í líkum mæli og verðhækkanir gerðu á síðasta ári og næstsíðasta. Þvert á móti er nú kyrrstaða og jafnvel lækkandi verð á ýmsum útflutningsvarningi sem þessum greinum tilheyrir. Ég held því að hæstv. ríkisstjórn, ef hún skoðar tímasetningu þessarar ákvörðunar sinnar í samhengi við aðstæður að þessu leyti, hljóti að komast að þeirri niðurstöðu að þetta séu býsna illa valin áramót til að skella þessum sköttum yfir, en eins og menn sjá hljóðar 4. gr. frv. upp á að lögin taki gildi hinn 1. jan. 1988.

En það kann að vera að þetta sé ákveðin þörf hæstv. fjmrh. til að láta engan ósnortinn af skattagleði sinni. Hann er smátt og smátt að komast yfir allt sviðið, hæstv. ráðherra, og bæta við einhverjum sköttum á næstum því að segja hverjum einustu vígstöðvum. Ef honum hefur einhvers staðar yfirsést hlýtur það að koma alveg á næstu dögum, hafi einhvers staðar leynst fyrir honum skattstofn sem hann hafi ekki tekið undir sína miklu regnhlíf og reynt að hækka pínulítið. Þetta er sjálfsagt eitt af því. Þarna sá hæstv. ráðherra að með því að leggja launaskatt á sjávarútveg og iðnað og nokkrar greinar í tengslum við það gat hann náð þó 400 millj. á næsta ári og það var þess virði, jafnvel þó að hæstv. ráðherra standi frammi fyrir því og viðurkenni reyndar sjálfur að tíminn til að taka upp skattlagningu á þessar greinar er einstaklega óheppilega valinn.

Ég tel t.d. að það hefði verið mun léttbærara fyrir sjávarútveginn og jafnvel iðnaðinn einnig að greiða þennan skatt sl. tvö ár, árin 1985 og 1986, en það verður væntanlega fyrir þessar greinar á næsta ári. Þessa skattkerfisbreytingu, hvort sem hún kynni að eiga einhverja réttlætingu fyrir sér við aðrar aðstæður, sem ég dreg þó í efa, og ég tek fram að ég dreg það í efa vegna þess að ég tel fyllilega koma til greina að styðja við bakið á þessari framleiðslustarfsemi í landinu með því m.a. að undanþiggja þar greiðslu launaskatts, er alveg ljóst að ég styð ekki og Alþb. mun ekki styðja að þessi skattlagning verði tekin upp við þær aðstæður sem nú eru.

Ég tel svo nauðsynlegt, virðulegur forseti, að það verði skoðað í hv. fjh.- og viðskn. hvaða afkoma er í raun í þeim greinum sem hér á að fara að taka upp skattheimtu á og þá í ljósi nýjustu upplýsinga til að mynda frá Þjóðhagsstofnun sem hefur verið að senda frá sér síðustu daga vissar upplýsingar um hvers verði að vænta þegar endurskoðuð þjóðhagsáætlun, endurskoðuð þjóðhagsspá liggur fyrir í upphafi næsta árs, um það leyti sem þessi nýja skattheimta á að taka gildi. Ég talaði við forstöðumann Þjóðhagsstofnunar rétt áðan og innti hann eftir því hvers væri að vænta frá þeim vígstöðvum um endurskoðun þjóðhagsáætlunar. Ég skildi það svo að ekki yrði að vænta eiginlegrar endurskoðaðrar áætlunar frá þeirri stofnun fyrr en í upphafi næsta árs. En vissar upplýsingar hafa borist frá stofnuninni til að mynda til fjvn. og ég mun fá þær í hendur innan tíðar. Ég tel nauðsynlegt að í tengslum við umfjöllun fjh.- og viðskn. um þetta mál verði dregið fram í dagsljósið hver hin eiginlega afkoma og hverjar hinar eiginlegu horfur eru fyrir sjávarútveginn og iðnaðinn á næsta ári og það liggi þá a.m.k. alveg ljóst fyrir að hæstv. ríkisstjórn geti ekki skotið sér á bak við það, þegar þessar nýju álögur verða hér afgreiddar, ef svo fer, að hafa ekki vitað hvaða afkomuhorfur voru fyrir þessa starfsemi á næsta ári.