16.12.1987
Neðri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

137. mál, launaskattur

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er sérstakt ánægjuefni að við þessa umræðu skuli vera viðstaddir tveir hæstv. ráðherrar. Það er sannarlega nokkur breyting frá því sem verið hefur stundum hér á síðustu dögum, þegar hefur þurft að fara í langa leit, út í bæ sumpart, til að fá hluta af ríkisstjórninni í þingsal. Þess vegna lýsi ég ánægju yfir að hér skuli vera viðstaddir hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh., en það mál sem hér er til umræðu snertir einmitt báða þessa hæstv. ráðherra Alþfl. sem fara með lykilstöður í efnahagsstjórn í landinu, fjármál og viðskiptamál. Er ég þar með ekki að gera lítið úr hlut annarra hæstv. ráðherra og ábyrgð í sambandi við efnahagsstefnuna og þá auðvitað hæstv. forsrh. sem á að leiða skútuna.

En ég hlýt að vekja athygli á því hér, þegar við ræðum um frv. til l. um breytingu á launaskatti þar sem verið er að leggja 1% launaskatt á ný á framleiðsluatvinnuvegi í landinu, iðnað og fiskvinnslu þar á meðal, að á sama tíma og þetta er gert benda allar efnahagsspár til þess að staða þessara greina, þessara undirstöðuþátta í útflutningstekjum landsmanna fari versnandi dag frá degi. Við höfum fengið um þetta upplýsingar alveg nýverið, m.a. frá Þjóðhagsstofnun, varðandi afkomuhorfurnar almennt og einnig varðandi hluta af útflutningsiðnaðinum, þ.e. varðandi sauma- og prjónastofur. Þar kom fram sérstök úttekt í síðasta mánuði, athugun á hag þessara fyrirtækja og rekstrarhorfum. Eins og hefur komið fram af hálfu nokkurra talsmanna stjórnarandstöðunnar við þessa umræðu skýtur það sannarlega skökku við að á meðan hallar undan fæti í rekstrarstöðu þessara greina og það afar bratt, brekkan er brött sem fram undan er hjá fyrirtækjum í þessum greinum, hamast hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar á Alþingi við að auka álögur á þessar greinar.

Ég vil nefna í þessu samhengi, því að það hefur ekki verið rætt sérstaklega hvað töluupphæðir snertir, að fyrir utan launaskatt, sem verið er að leggja á sjávarútveginn, lækkar hæstv. fjmrh. eða ríkisstjórnin endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti um helming frá því sem var á þessu ári eða um 350 millj. kr., hvorki meira né minna, sem á að lækka endurgreiðslur á uppsöfnuðum söluskatti til fyrirtækja í sjávarútvegi. Við erum því hér að tala um að því er sjávarútveginn varðar upphæðir einhvers staðar á bilinu 1/2–1 milljarður kr. að þessu leyti. Svo getur hæstv. ráðherra komið hér og borið fram prósentutölu á bilinu 0,25–0,5% eða svo varðandi afkomustöðu í greininni. Það er sannarlega lengi hægt að leika sér með prósentur í þessum efnum. Ég vil ekki staðhæfa út af fyrir sig hversu hátt hlutfall þessar álögur eru og samdráttur í endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti, en ég fullyrði að þær tölur sem hæstv. ráðherra er hér að fleyta eru einhver meðaltöl sem eru mjög vinsæl þessa dagana þegar verið er að reikna sig niður í sambandi við rekstrarstöðu í atvinnulífinu og varðandi álögur á landsmenn sem dynja nú yfir dag frá degi.

Það hefur borist greinargerð frá Seðlabanka Íslands um þróun og horfur í peningamálum, gjaldeyrismálum og gengismálum. Kjarninn í þessari greinargerð var kynntur í Ríkisútvarpinu/sjónvarpi í gærkvöld þannig að menn sáu þar, sem á horfðu, hinar hrikalegu staðreyndir sem virðast blasa við ef treysta má þessum úttektum, þær hrikalegu horfur sem við blasa varðandi rekstrarstöðu þessara greina. Vegna þess að ég hygg að þetta hafi ekki komið fram í hv. þingdeild tel ég rétt að fara aðeins yfir, með leyfi forseta, því ég hygg að starfstími deildarinnar leyfi það vel, niðurstöðurnar í þessari greinargerð, en þær eru með þessum hætti orðaðar fyrir utan það sem fram kemur í töflum:

„Eins og sjá má í töflum og á mynd 3 hefur samkeppnisstöðu útflutnings- og samkeppnisgreina hrakað verulega á þessu ári þrátt fyrir batnandi viðskiptakjör. Samkeppnisstaða útflutningsgreina í heild verður á þessu ári talsvert lakari en viðmiðunarárið 1979 og miklu lakari en árin 1985 og 1986. Áætlanir hér benda til þess að ef samkeppnisstaðan ætti að vera áþekk og 1979 þyrfti meðalgengi krónunnar að vera skráð um 11% lægra í dag en raun er. Þar sem hér er gert ráð fyrir að kostnaður vaxi hraðar en tekjur verður gengisaðlögunarþörfin enn meiri á næsta ári“ — gengisaðlögunarþörfin eins og það er orðað hérna. „Staða sjávarútvegs verður heldur betri á þessu ári [þ.e. 1987] en 1979, en talsvert lakari en í fyrra og árið þar á undan. Á síðasta ársfjórðungi virðist sem mjög sigi á ógæfuhliðina hvað varðar samkeppnisstöðu sjávarútvegs og ekki batnar ástandið á næsta ári. Ekki er gert ráð fyrir að verð á sjávarafurðum hækki 1988, en allir kostnaðarliðir nema olía færast upp á við. Einhverjar líkur eru fyrir því að verðlag á sjávarafurðum fari aftur hækkandi þegar líður á næsta ár og það mundi að sjálfsögðu bæta þá mynd sem hér hefur verið dregin.

Útflutningsiðnaður býr í heild við mjög erfiðar aðstæður miðað við 1979. Eftir nokkuð hagstæða samkeppnisstöðu á árunum 1983–1985 syrti í álinn á sl. ári. Ef gera ætti samkeppnisstöðu útflutningsiðnaðar í dag sambærilega við 1979 yrði að færa meðalgengi krónunnar niður um fjórðung. Staða ullariðnaðarins skiptir hér sköpum og fyrirsjáanleg uppstokkun hans gefur fyrirheit um að það megi bæta ástandið talsvert án gengisbreytinga.

Frá því árið 1983 og fram á seinni helming þessa árs var samkeppnisstaða innlendra framleiðenda sem keppa við innflutning mjög viðunandi í samanburði við 1979. Að undanförnu virðist sem heldur hafi hallað undan fæti og þar sem fyrirsjáanlegar innlendar kostnaðarhækkanir verði talsvert meiri en sem nemur verðhækkun innfluttrar neysluvöru er þess vænst að samkeppnisstöðu þessara greina hraki enn á næstu missirum. Á móti kemur að fyrirhugaðar breytingar á innflutningsgjöldum á hráefni kunna að hafa jákvæð áhrif á rekstrarskilyrði samkeppnisgreina.“

Síðan er vikið að töflum sem á eftir fylgja og segir þar um í texta, með leyfi virðulegs forseta:

„Eins og töflurnar hér á eftir sýna er gengistengd samkeppnisstaða sjávarútvegs, útflutningsiðnaðar og samkeppnisiðnaðar nokkuð misjöfn. Árið 1985 er svo að sjá sem þessar þrjár greinar“ - Virðulegur forseti. Ég veitti því athygli að hæstv. viðskrh. vék úr þingsal. Mér þótti það miður eftir að hafa fagnað sérstaklega veru hans hér við umræðuna og ég vildi biðja virðulegan forseta að gera ráðherra viðvart að ég óska eftir nærveru hans. (Forseti: Ég mun gera ráðstafanir til að gera honum viðvart.)

„Árið 1985 er svo að sjá sem þessar þrjár greinar hafi allar búið við hagstæð skilyrði og 1986 batnaði hún verulega nema í útflutningsiðnaði. Nú eru samkeppnisaðstæður samkeppnisiðnaðar og sjávarútvegs lakari en 1979 og kemur þessi staða í kjölfar hagstæðra skilyrða fram á mitt þetta ár. Aftur á móti virðist ljóst að útflutningsiðnaður hefur verið illa settur frá því á síðasta ári og vandi hans hefur stigmagnast í ár.“

Þetta voru niðurstöður í greinargerð Seðlabanka Íslands, sem dagsett er 7. des. 1987, varðandi þróun og horfur í peningamálum, gjaldeyrismálum og gengismálum.

Í töflunum, sem vitnað er til, blasir það mat við varðandi útflutninginn að ef leiðrétta ætti stöðu þessara greina með gengisbreytingum til jafns við það sem var 1979 þyrfti gengið varðandi útflutninginn í heild að meðaltali að lækka um 15,2% miðað við rekstrarhorfur á árinu 1988. Varðandi sjávarútveginn sérstaklega er með sömu viðmiðun þörf á 13% gengisbreytingu, 13% gengislækkun eða gengisaðlögun eða hvað Seðlabankinn nú kýs að kalla þetta. Og varðandi útflutningsiðnaðinn er þörfin 28,8%, spáin varðandi rekstrarhorfur á næsta ári. Og fyrir samkeppnisiðnaðinn sérstaklega, þ.e. þann iðnað sem keppir við innflutning hér á innanlandsmarkaði og kallaður er samkeppnisiðnaður, er gengisbreytingarþörfin metin á 11,9% til lækkunar. Þetta er sú mynd sem Seðlabanki Íslands dregur upp þegar vika er liðin af desembermánuði. Og ekki hygg ég að staðan hafi batnað þá daga sem liðnir eru síðan miðað við þróun á ýmsum ytri aðstæðum og sífelldri kostnaðaraukningu sem stafar m.a. af þeirri vaxtastefnu sem hæstv. ríkisstjórn hefur fylgt og hæstv. núv. forsrh. boðaði sem kaflaskipti í Íslandssögunni í ágústmánuði 1985 ef ég man rétt.

Það er ánægjuefni að hæstv. forsrh. er hér viðstaddur þegar við ræðum um þessa þætti því að hæstv. ráðherra hefur lýst því hér yfir úr þessum ræðustól ítrekað undanfarna mánuði að ríkisstjórnin muni halda við fastgengisstefnuna sem meginstjórntæki í efnahagsmálum.

Nú veit ég að ég fæ engan hæstv. ráðherra upp í ræðustól og ætlast út af fyrir sig ekki til þess að ráðherrar komi hingað til að lýsa því yfir að gengið verði lækkað eða genginu verði breytt í dag eða á morgun. Það væri út af fyrir sig ekki sanngjarnt. Ég býst við að hæstv. ráðherrar hafi haft meira að gera á skrifborðum sínum við að undirbúa þau frumvörp sem snjóar inn á Alþingi meðan hlákan er utan dyra, eins og hv, þm. Kristín Halldórsdóttir kallaði þetta áðan, að þeir hafi verið fyrst og fremst uppteknir við það en ekki að rýna í rekstrarstöðu atvinnulífsins í landinu. En hins vegar þætti mér æskilegt við þessa umræðu í tiltölulega rúmum tíma sem virðist vera í hv. þingdeild til að ræða um þessi mál að biðja ekki aðeins hæstv. fjmrh. að rökstyðja nánar hvernig í ósköpunum á því stendur að hann ber hér fram breytingar á launaskatti til hækkunar með þeim hætti sem fyrir liggur hér í frv. sem við ræðum heldur spyrja hæstv. forsrh. að því og hæstv. bankamálaráðherra, viðskiptaráðherrann, hvort þeir telji að það sé skynsamlegt að auka með þessum hætti álögur á útflutningsatvinnugreinarnar í landinu þegar við þeim blasir það dæmi sem Seðlabanki Íslands hefur dregið upp og margt bendir til að sé enn þá hraklegra og er þá náttúrlega ekkert farið að tala um þá nauðsynlegu leiðréttingu sem þarf að gera á kjörum þess fólks sem starfar við þessar greinar og fyllir láglaunahópana í þjóðfélaginu og vinnur myrkranna á milli þannig að óþekkt er annað eins í Evrópu.

Við hljótum að biðja hæstv. ráðherra um að skýra fyrir okkur hvernig á því stendur að okkur er ætlað að taka ákvarðanir um þessar álögur, sem frv. þetta ber með sér, þegar við blasir þessi staða.

Ég ætla hér ekki að fara að rekja í einstökum atriðum horfurnar t.d. í sauma- og prjónastofum í landinu, þar sem gengislækkunarþörfin er metin upp á nærri 30% af Seðlabanka Íslands. Það er að finna í skýrslu sem hefur verið dreift til hv. þm. Þarna er um að ræða smáfyrirtæki mörg hver, fyrir utan Álafoss hinn nýja og eflda að stærðinni til, nýja fyrirtækið, en þá er þar sem eru prjóna- og saumastofur um að ræða fyrirtæki sem skapa atvinnu víða út um landið, ekki síst á stöðum þar sem ekki er um mikla undirstöðustarfsemi að ræða að öðru leyti. Í plássum sem ekki eru tengd sjávarútvegi að sumu leyti a.m.k. er um það að ræða.

Ég held að við hljótum öll á hv. Alþingi að hafa miklar áhyggjur af þeirri þróun sem stafar af efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar og auðvitað vegna þess að ýmsar ytri aðstæður hafa verið að breytast til hins verra í sambandi við útflutningsgreinar landsmanna.

Ég vil svo, herra forseti, koma að því að það kann að vera skynsamlegt markmið út af fyrir sig að leiðrétta samkeppnisstöðu greina sem standa í svokallaðri frjálsri samkeppni við innflutning t.d. í landinu. Þegar ég var starfandi í ríkisstjórn Íslands vann ég m.a. að því í iðnrn. í samvinnu við ýmsar stofnanir, þar á meðal Seðlabanka Íslands, að leiðrétta rekstrarstöðu samkeppnisiðnaðarins þannig að hann byggi við svipuð skilyrði og almennt gerist um þann innflutning sem berst inn í landið. Slíkt er auðvitað fyllilega réttmætt. Ég tók eftir því að hv. 10. þm. Reykn. Kristín Halldórsdóttir vék að því hér áðan að hennar þingflokkur væri þeirrar skoðunar að það væri eðlilegt að búa rekstraratvinnuvegunum svipuð rekstrarskilyrði. Ég vil í þessu sambandi benda á að þetta kann að gilda um iðnaðinn og samkeppnisiðnaðinn. En hvernig ætli málið sé með sjávarútveginn? Skyldi sjávarútvegurinn sem stærsti og gildasti þátturinn í sambandi við gjaldeyrisöflun í landinu búa við einhverja jafnstöðu, skyldi hann keppa á erlendum mörkuðum við hliðstæð skilyrði og afurðir sjávarútvegs ýmissa þeirra þjóða sem við erum í harðri samkeppni við bæði á Bandaríkjamarkaði og í Evrópu? Málið er ekki þannig. Sjávarútvegurinn lýtur ekki lögmálum hinnar frjálsu samkeppni sem svo er kölluð í alþjóðaviðskiptum með þeim hætti sem gildir um ýmsar iðnaðarvörur heldur er þar um að ræða ríkisafskipti og ríkisstyrki í verulegum mæli, t.d. hjá nágrönnum okkar Norðmönnum. Þetta hefur verið orðfært af ráðherrum í ríkisstjórn Íslands á erlendum vettvangi fyrr og síðar að reyna að fá þessum aðstæðum breytt. Þess vegna finnst mér að við verðum að horfast í augu við að það gilda ekki þau almennu lögmál sem menn eru að tala um að verði að laga sig að varðandi sjávarútveginn. Hann er þarna í mjög ójafnri vígstöðu í samkeppni á erlendum mörkuðum við aðrar þjóðir og þarf ekki upp að telja. Það er hægt að vísa beggja vegna Atlantshafsins til Noregs og Kanada, en það eru auðvitað margar fleiri.

Ég vil svo að endingu, virðulegur forseti, benda á þá staðreynd að við erum í rauninni að tala um undirstöðuþættina í byggðastefnu á Íslandi þegar við erum að ræða um afkomuskilyrði útflutningsgreinanna og samkeppnisiðnaðarins í landinu, en alveg sérstaklega útflutningsgreinanna sem skapa okkur skilyrði til að flytja inn og standa í utanríkisviðskiptum meira en flestar aðrar þjóðir. Hlutfall utanríkisviðskipta á Íslandi er með því allra hæsta sem gerist. Þessi starfsemi, sem t.d. öll meginumsvif höfuðborgarsvæðisins hvíla á og blómstrar á því að ekki verður séð að það sé verið að auka álögurnar eða hefta eða byggja upp höftin þar í sambandi við þá atvinnustarfsemi sem er undirstaðan og burðarásinn í atvinnulífi á höfuðborgarsvæðinu og er ég síst að draga úr gildi þeirra starfa sem þar eru unnin út af fyrir sig, en útflutningsstarfsemin og gjaldeyrisöflunin hvílir á fyrirtækjum sem eru dreifð hringinn í kringum landið og þá sjávarútvegsfyrirtækjunum alveg sérstaklega. Það sem er að gerast þessa mánuði er að það er verið að draga þróttinn úr þessum fyrirtækjum sem á liðnum árum hafa oft búið við erfiða stöðu og hafa ekki fengið sinn hlut, hvorki fyrirtækin hvað þá fólkið sem við þau starfar, út úr góðæri síðustu ára. Þegar það blasir við er hér um að ræða slíka blóðtöku, slíkt ósamræmi milli almennra orða stjórnmálamanna, sem eru í forustu í ríkisstjórn Íslands og taka í orði undir nauðsyn þess að halda landinu í byggð, og hins vegar gerðanna, athafnanna, og hér er bara einn lítill steinn í þá hleðslu eða ættum við ekki að segja í þá skriðu því ekki er verið að byggja upp. Hér er aðeins ein valan í þeirri skriðu sem ríkisstjórnin stendur fyrir við að brjóta niður þessa undirstöðustarfsemi gjaldeyrisöflunar í landinu og undirstöðu undir atvinnu í byggðarlögunum úti um landið.

Hæstv. fjmrh. mælti fyrir öðru skattafrv. Eða var það að koma frá nefnd? Ég hef það ekki alveg í minni. E.t.v. var það að koma frá nefnd. Það er um skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. (Forseti: Það var mælt fyrir því.) Það var mælt fyrir því. Ég þakka, virðulegur forseti. Mig minnti það. Ætli hafi verið þar um hækkun að ræða á þeim gjaldstofni? Skyldi hæstv. fjmrh. hafa lagt til hækkun á skattlagningu á skrifstofu- og verslunarhúsnæði frá því hlutfalli sem verið hefur? Ég varð ekki var við það. (Fjmrh.: Það var ekki búið að afnema það.) Það var ekki búið að afnema það, segir hæstv. ráðherra. Það var aldeilis stórsnjöll athugasemd. Það var ekki búið að afnema þennan skatt og þess vegna leyfir hæstv. ráðherra sér og telur eðlilegt að halda hlutfallinu óbreyttu.

Nei, það má að sjálfsögðu ekki hrófla við eða réttara sagt skerða rekstrarstöðu og rekstraraðstæður þeirra aðila sem hafa fengið obbann af góðærinu a Íslandi undanfarin ár, hinum hagstæðu ytri skilyrðum, festa það í húsnæði hér á höfuðborgarsvæðinu sem ekki þarf að nafngreina. Þau eru mörg musterin sem reist hafa verið hér. Það má ekki hækka hlutfallið á þeim. En sjávarútvegurinn og iðnaðurinn, sem eru þegar komin í strand ef dæmið væri gert upp hér og nú, skulu fá að taka á sig auknar álögur með ákvörðunum teknum á Alþingi Íslendinga að tillögu ríkisstjórnar.

Ég vænti þess að hæstv. ráðherrar greini okkur frá hugrenningum sínum í þessum málum og hvers er að vænta. Ég legg það ekki á hæstv. fjmrh. að koma upp í stólinn og endurtaka yfirlýsingar sínar um fastengisstefnuna sem hornstein efnahagsstjórnar á Íslandi næstu mánuði. Ég held ég leggi það ekki á hæstv. ráðherra nema hann kjósi að koma hér og endurtaka orð sín sem hafa fallið úr þessum ræðustól. Fastgengisstefnan er hornsteinninn í efnahagsstefnu ríkisstjórnar Íslands. Kannski gerir ráðherrann það. Kannski greina viðskrh. og hæstv. fjmrh. frá því að þeir ætli að halda sig við þetta og ef þeir ætla að gera það, sem vel má vera að sé kleift, með geysilegum tilfæringum öðrum í efnahagslífi í landinu sem stundum hafa verið kallaðar millifærslur og ekki hafa alltaf verið á hægra brjóstinu á talsmönnum Alþfl. hvað þá Sjálfstfl. að grípa til slíkra aðgerða. En við hljótum að spyrja hér og nú: Hver eru ráðin til að taka á þessum málum, hæstv. ráðherrar? Við höfum lykilráðherrana þrjá sitjandi og við höfum enn tíma og væntanlega síðar í dag til að heyra til hvaða ráða þeir hyggjast grípa því ég held að það sé fullkomin ástæða til að ræða þetta áður en meginskriðan af skattálagningarfrumvörpunum, sem innifela 9 þús. millj. kr. aukningu í skattlagningu í landinu, dynja yfir í þessa deild ofan úr hv. Ed. Alþingis næstu daga.