16.12.1987
Neðri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

Vinnutilhögun í neðri deild

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að spyrja, hæstv. forseti: Hvað stendur til að ræða á boðuðum fundi? Ég veit ekki betur en okkur hafi miðað ágætlega áfram og í raun og veru lokið öllum þeim verkefnum sem ég sé að liggi fyrir þessari deild að afgreiða. Ég teldi mjög æskilegt ef hægt væri að komast hjá því og menn vissu fyrir fram að þeir hefðu kvöldið til annarra starfa, svo sem eins og nefndafunda eða annarra starfa, og þó ekki væri nema til að hvíla sig með tilliti til þess hvernig fundatími hefur verið hér undanfarið. Ég vildi fá upplýsingar um það, virðulegi forseti, hvað á að gera á fundi eftir þingflokksfundahlé. Það hlýtur alla vega að vera eitthvað annað en er á þeirri dagskrá sem við unnum eftir á þessum fundi.