16.12.1987
Neðri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2376 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

141. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Níels Árni Lund:

Herra forseti. Mér þykir skylt að standa upp í þessu máli og lýsa yfir stuðningi við það. Þannig hagar til að ég hef verið í forsvari fyrir Kvikmyndaeftirlit ríkisins frá því að lög um bann við ofbeldiskvikmyndum tóku gildi 1983 þar til nú í september að ég lét af því starfi. Ég veit frá minni reynslu hversu mikil nauðsyn þessi lög eru og hefði verið mjög slæmt ef þau hefðu misst gildi sitt nú um áramót. Hins vegar hef ég heyrt og séð á ræðu hæstv. menntmrh. í Ed. að svo var alls ekki ætlanin. En ég endurtek að það var gott að frv. kom fram hjá hv. flm. og lýsi yfir stuðningi mínum við það.

Hins vegar vil ég benda á að það varð gífurleg breyting á hlutverki Kvikmyndaeftirlitsins þegar þessi lög tóku gildi á sínum tíma og ég fullyrði að þróunin hefur orðið sú að það hefur fallið í hlut Kvikmyndaeftirlitsins, þeirra manna sem þar voru og eru, að móta meira og minna stefnuna í þessu eftir lögum og reglugerðum sem um þetta hafa gilt. Ég má líka segja að um þetta hefur náðst, þó hér sé um mikið hagsmunamál margra aðila að ræða, góð samvinna við þá aðila sem Kvikmyndaeftirlitið hefur þurft að hafa afskipti af eða viðskipti við.

Ég er líka viss um að af starfi Kvikmyndaeftirlitsins undanfarin ár má læra mjög margt sem ég fullyrði að þeirri nefnd, sem nú er tekin til starfa, mundi vera mikill fengur að að fá upplýsingar um. Því vil ég beina því til hæstv. menntmrh. að hann leggi áherslu á við nefndina að haft verði gott samstarf við Kvikmyndaeftirlitið um frekari lagasetningu í þessum málum. Þar er unnið af miklum áhuga af því fólki sem þar er og af miklum metnaði vil ég segja. Ég er sannfærður um að það yrði nefndinni mjög heilladrjúgt að fá þar veganesti. En ég sé á þeirri nefndarskipan sem um þetta mál fjallar að þar er enginn úr Kvikmyndaeftirlitinu. Ég get að vísu sagt það sem mína skoðun að ég hefði talið mjög æskilegt að þar hefði einhver úr eftirlitinu átt sæti, en ég er ekki þar með að kasta rýrð á þá nefndarmenn sem þarna eru og ég er viss um að þeir geta unnið sitt starf mjög vel. En ég legg á það áherslu að haft sé samstarf við Kvikmyndaeftirlitið um þetta eða leitað upplýsinga hjá því því að ég veit að mesta vitneskjan um þau mál er innan raða þeirra manna sem hafa starfað við mótun þessara laga og að framfylgja þeim sl. fimm ár.

Ég endurtek stuðning við þetta frv. og fullyrði að það er af hinu góða.