17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2381 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

160. mál, vegamál við Siglufjörð

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Nú eru liðnir tveir áratugir síðan göng voru lögð gegnum fjallið Stráka við Siglufjörð og ekki þarf að orðlengja um það hve stórkostleg samgöngubót fékkst þá fyrir Siglfirðinga. Á þessum göngum hefur hins vegar alla tíð verið nokkur ágalli. Mikið vatnsrennsli hefur verið í göngunum og afleiðingin hefur verið sú að hætta er á því að vatn þetta frjósi og myndi mikla klakabunka, en á öðrum árstímum grefur þetta vatnsrennsli akveginn í gegnum göngin. Nokkrar ráðstafanir hafa verið gerðar til að bæta úr þessu. Bæði loftklæðning og uppsetning á hurðum koma í veg fyrir að mikið frost verði í göngunum. En þessar ráðstafanir hafa ekki dugað að öllu leyti. Akbrautin er mjög illa farin og löngu orðin óviðunandi.

Af þessari ástæðu spyr ég samgrh. hvort ekki sé löngu tímabært að ganga svo frá vatnsrennsli í Strákagöngum að vegurinn í gegnum göngin sé sæmilega akfær og ekki sé hætta á frostskemmdum í hvelfingunni.

Í nokkur undanfarin ár hafa vegaframkvæmdir við Siglufjörð lent á óhagstæðasta framkvæmdatíma, þ.e. seint að haustinu. Í skýrslu samgrh. um framkvæmd vegáætlunar 1986 kemur fram á bls. 53 að fjárveiting var þá til vegar um Almenningsnöf að gangamunna 3 millj. og þar segir, með leyfi forseta: „Unnið var við nýja veginn um Mánárskriður. Ólokið er frágangi og slitlagi.“

Staðreyndin var sú að byrjað var mjög seint á þessum framkvæmdum, líklega ekki fyrr en komið var fram í desember, og afleiðingin varð sú að aldrei tókst að ljúka þessum vegarkafla eins og fram kemur í þessum orðum. Yfirborðið var því allan veturinn mjög gróft, að ekki sé nú meira sagt, og mjög yfir þessu kvartað.

Þetta hefur vakið mikla óánægju á Siglufirði og þess vegna er ekki óeðlilegt að spurt sé: „Hvers vegna hafa vegaframkvæmdir við Siglufjörð lent á óhagstæðasta framkvæmdatíma seinustu árin, þ.e. seint að hausti?"