17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2383 í B-deild Alþingistíðinda. (1767)

160. mál, vegamál við Siglufjörð

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans. Í svari hans við seinni fsp. kom það berlega fram að dregist hefur nokkuð að vinna vegaframkvæmdir við Siglufjörð núna í tvö skipti. Afleiðing þessa verður auðvitað sú að kostnaður stóreykst og fjármagn nýtist illa og er þá minna gert en ella vaxi unnt.

Siglufjörður og Fljót eru meðal snjóþyngstu byggða landsins og ég hygg að frekar væri ástæða til þess að geyma önnur verk en einmitt þar vegna þess hve erfitt er að vinna þar verk þegar kemur langt fram á haust.

Siglfirðingar hafa vissulega haft á tilfinningunni að þeir sætu á hakanum í þessum efnum og að framkvæmdir við Siglufjörð væru látnar bíða óhóflega lengi. Ég ber þessa fsp. hér fram fyrst og fremst til að vekja athygli á þessu vandamáli.

Ég heyri hjá hæstv. samgrh. að Vegagerðin gerir sér fulla grein fyrir því að úrbóta er þörf í Strákagöngum og er það vel. Ég held að ekki verði lengur við unað hversu illa akbrautin þar er farin og ég heyrði það á svari hæstv. ráðherra að Vegagerðin er þar með ákveðin áform um úrbætur og er það vel.