17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2384 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

204. mál, afstaða Íslands til framkvæmdar afvopnunartillagna

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Út af fyrir sig vil ég taka undir það með hv. þm. að verðugt væri að ræða á hinu háa Alþingi um afstöðu til fjölmargra tillagna hjá Sameinuðu þjóðunum bæði fyrr og síðar. Ég taldi mér skylt að fara nokkuð vandlega yfir stóran hluta þessara tillagna. Sumar eru þess eðlis að ég held að fáir lesi þær, en aðrar eru athyglisverðar. Til upplýsingar vil ég geta þess að ég breytti afstöðu í tíu tilfellum og er sjálfsagt, ef óskað er, að gera grein fyrir því, en það yrði töluvert langt mál.

Þegar ég fór yfir þessar tillögur lagði ég til grundvallar í fyrsta lagi yfirlýsta afstöðu okkar Íslendinga, ekki síst t.d. í samþykkt Alþingis frá maí 1985 um afvopnunarmál, og í öðru lagi yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar þar sem m.a. kemur fram að hún leggur mikla áherslu á að starfa innan Sameinuðu þjóðanna af heilindum. Það þarf ekki að taka það fram. Ég lagði einnig til grundvallar þær breytingar sem hafa orðið í heimsmálum núna síðustu árin. Þær hafa orðið gífurlega miklar ekki síst á einu ári eða svo, líklega meiri en oftast áður. Í fjórða lagi skoðaði ég hver afstaða Norðurlandanna er því við höfum leitast við að hafa samstöðu með þeim. Í fimmta lagi skoðaði ég hver afstaða annarra bandalagsríkja okkar er, t.d. innan Atlantshafsbandalagsins. Meginatriði þau sem lögð eru til grundvallar eru þá nefnd.

Ég get t.d. getið þess að ég breytti afstöðu í tillögum þar sem mér þótti ekki þess gætt, sem er grundvallaratriði í stefnu okkar Íslendinga, að virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Ekki hefur verið spurt um það hér, en ég nefni það sem dæmi um breytta afstöðu. Norðurlöndin höfðu slíka afstöðu, en við höfðum af einhverjum ástæðum ekki greitt þannig atkvæði áður. Ég nefni sem dæmi Vestur-Sahara. Það er nokkuð athyglisvert mál en er hins vegar ekki í fyrstu nefnd Sameinuðu þjóðanna. En eins og ég sagði í upphafi ætla ég ekki að ræða þessi mál almennt.

Sú tillaga sem hér er til umræðu er flutt í fyrsta sinn nú svo að þar er ekki um breytta afstöðu að ræða. Við höfðum ekki upplýsingar um hvernig Norðurlöndin ætluðu að greiða atkvæði. Það er misskilningur eins og segir í fsp. að um sé að ræða skilyrðislausa framkvæmd afvopnunartillagna. Það er ekki skilyrðislaus framkvæmd sem um er að ræða.

Án þess að lengja allt of mikið umræðuna vil ég fara yfir nokkur atriði tillgr. Í fyrsta lagi er vísað til sérstaks þings Sameinuðu þjóðanna sem gerði ályktun þess efnis að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna skyldi vera aðalvettvangur afvopnunarumræðu og samþykkta í því sambandi. Þar var sú till. samþykkt án atkvæðagreiðslu eða m.ö.o. samhljóða.

En sú grein í tillögunni sem hvað mestum deilum mun valda hljóðar þannig í íslenskri þýðingu, með leyfi forseta:

„Allsherjarþingið telur mikilvægt að öll aðildarríki geri sitt ýtrasta til að auðvelda samræmda framkvæmd ályktana allsherjarþingsins á sviði afvopnunar og sýni þar með ásetning sinn til að gera afvopnunarráðstafanir sem allir geti samþykkt, sem hægt er að hafa algert eftirlit með og eru virkar.“

Mér sýnist satt að segja að þarna séu þrír svo stórir fyrirvarar að allir geti skotið sér undan eins og reyndar í flestum þessum tillögum. Skorað er á löndin að gera það sem í þeirra valdi stendur til að auðvelda samræmda framkvæmd ályktana. Ekki er sagt að slíkt eigi að vera skilyrðislaust. Þvert á móti. Það er háð þeim skilyrðum að allir geti samþykkt slíkar ráðstafanir og hægt sé að hafa með þeim algert eftirlit og þær séu virkar.

Til að fyrirbyggja allan misskilning ætla ég að leyfa mér að lesa ensku greinina. Þar stendur:

„That all member states make every effort to facilitate the consistant implementation of general assembly resolutions in the field of disarmament and thus show the resolve to arrive at mutually acceptable comprehensive veryfiable and effective disarmament measures.“

Það er því mikill misskilningur að hér sé um skilyrðislausa framkvæmd á tillögum Sameinuðu þjóðanna að ræða.

Ég verð hins vegar að viðurkenna að þegar ég fór yfir þessa tillögu sá ég ekkert illt í henni þó hún væri flutt af Tékkóslóvakíu og Úkraínu, ef ég má leyfa mér að orða það svo. Það vill verða svo innan Sameinuðu þjóðanna að þjóðirnar hópast í blokkir þar sem mér virðist æðioft um að ræða fyrirfram ákveðna afstöðu. Ég velti því fyrir mér; hvers vegna erum við að samþykkja tillögur hjá Sameinuðu þjóðunum ef við ætlumst ekki til þess að gerð verði tilraun til að framfylgja þeim? Hvernig er þá með okkar aðild að þessari stofnun? Er hún á heilindum byggð?

Ég hafði engar upplýsingar um hvernig Norðurlöndin mundu greiða atkvæði um þessa till. né önnur okkar bandalagsríki. Þegar ég sá að við höfðum verið einir á báti, hin Norðurlöndin sátu hjá við tillöguna flest ef ég man rétt, óskaði ég eftir því að kannað yrði hvernig á því stæði. Þegar ég fékk upplýsingarnar var búið að afgreiða till. í alls herjarþinginu sjálfu og við höfðum greitt þar eins atkvæði. Ekki gafst því tækifæri til að breyta ef ástæða hefði þótt til.

Spurt var hvort utanrmn. hefði verið gerð grein fyrir málinu. Ég gerði utanrmn. grein fyrir þeim breytingum sem ég gerði. Það var að vísu ekki fyrr en eftir atkvæðagreiðslu í fyrstu nefndinni. Þetta gengur þannig fyrir sig að venjulega koma tillögurnar á borðið að morgni og greiða á atkvæði seinni partinn í New York. Því var ákaflega erfitt að halda fund í utanrmn. um þær. En ég gerði utanrmn. að sjálfsögðu grein fyrir málum og fékk enga athugasemd þar.