20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

31. mál, klak- og eldisstöð fyrir sjávarfiska

Guðmundur G. Þórarinsson:

Hæstvirtur forseti. Hér er hreyft ákaflega athyglisverðu máli. Máli sem reyndar er unnt að nálgast frá mjög mörgum sjónarhornum. Ég hef reynt með lestri grg. og með því að hlýða á flm. að átta mig á hvað fyrir honum vakir og held að ég skilji það að nokkru þó að grg. sé stutt og ræðan hefði mátt vera lengri þegar svo viðamikið mál er til umræðu.

Ég er einn af þeim mönnum sem hafa trú á því að fiskurinn sé að verða húsdýr og muni verða það í framtíðinni. Ég hef trú á því að fiskeldi og fiskrækt verði meðal mikilvægustu atvinnugreina Íslendinga innan tíðar. Ég hef trú á því að engin atvinnugrein á Íslandi hafi jafnmikla vaxtarmöguleika og fiskeldi, engin atvinnugrein hafi jafnmikla möguleika til að auka þjóðartekjurnar.

Í því sambandi er einfaldast og auðveldast að vísa til þeirrar reynslu sem Norðmenn hafa. Þegar árið 1985 höfðu Norðmenn meiri tekjur af laxeldi en af þorskveiðum og veiddu þó, ef ég man rétt, um 240 þús. tonn af þorski það ár. Stefna Norðmanna, sem fram hefur komið í fjölmörgum tímaritum, er sú að árið 1990, sem næstum er komið, muni þeir hafa þrisvar sinnum meiri tekjur af fiskeldi en af öllum sínum fiskveiðum samanlagt og eru þó með mestu fiskveiðiþjóðum heims.

Ef menn líta á þetta sjá menn stóra drauma fyrir framan sig sem að hluta hafa orðið að veruleika. Líklega hafa Íslendingar þó óvenjulega góðar aðstæður til fiskeldis, ekki bara í sjó heldur líka á landi. Þeir eru fámenn þjóð í stóru landi, mengunarlausu að heita má, með yfirráð yfir hreinum sjó og hreinu vatni, hreinu lofti, heitu vatni, miklum möguleikum til fóðurframleiðslu o.s.frv.

Ég hef einhvern tíma sagt að gamni mínu að ef Íslendingar nýta sér þá gífurlegu möguleika sem þeir eiga til fiskeldis muni eftir tiltölulega skamman tíma, hvaða merkingu sem menn vilja nú leggja í þau orð, engin þjóð í heiminum geta borið sig saman við Íslendinga í þjóðartekjum á mann nema ef vera skyldi Kuwait eða slíkar þjóðir sem tæpast vinna fyrir sér heldur dæla olíu einfaldlega upp úr jörðinni. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að þarna séu geysilegir möguleikar og ég er þeirrar skoðunar að Alþingi eigi að fjalla nokkuð ítarlega um þessi mál þó að gert hafi verið á undanförnum árum eitthvað eins og hv. 2. þm. Austurl. sagði áðan.

Ég skil þessa þáltill. þannig, og ég bið flm. að leiðrétta mig ef rangt er skilið, að þeir flm. séu að leggja til að sett sé á stofn klak- og eldisstöð fyrir sjávarfiska. Ég skil þetta þannig að þarna sé verið að hugsa um nokkurs konar hafbeit, ekki beinlínis eldi. Af grg. skildi ég þetta þannig að hugsað væri sem svo að fiskur væri strokinn, startfóðraður, alinn upp í ákveðna stærð og síðan væri honum sleppt og það væri hugsunin að auka veiðar við landið með því að taka klakið að hluta í land þar sem það yrði öruggara og minna misfærist en úti í náttúrunni. Þannig skildi ég þetta að mestu leyti. Þegar talað er um eldisstöð veit ég reyndar ekki alveg hvað átt er við því að sums staðar þar sem slík aðferð er höfð eru kynþroska fiskar veiddir og þeir stroknir og síðan seiðunum sleppt aftur þegar á ákveðið stig er komið.

Ég hegg reyndar eftir því að hér er talað um sjávarfiska. Þar sem ég hef fylgst með þessu hefur þetta náð lengra en til sjávarfiska. Fyrir stuttu skoðaði ég stöð í Noregi þar sem voru í eldi 120 þús. humrar. Norðmenn sögðu að humarstofninn væri í talsverðri hættu hjá þeim vegna ofveiði. Eftirsókn eftir humar væri hins vegar mjög mikill. Þeir veiða kynþroska humar, klekja eggjunum og hrognunum út og sleppa humrunum eftir að þeir hafa náð ákveðinni stærð. Þá kaupa sveitarfélögin humarinn. Honum er sleppt á ákveðin mið. Hann færir sig tiltölulega lítið úr stað. Þannig hafa þeir verið að reyna að viðhalda humarstofninum og veiða humarinn aftur.

Mér er ekki alveg ljóst hvað flm. eiga við með klak- og eldisstöð, hvort þeir reikna með að eldisstöð verði líka, en mér sýnist þó að þeir séu fyrst og fremst að hugsa um sjávarfiska, en ekki rækju og ýmis krabbadýr, svo sem humar, en þar hygg ég að séu verulegir möguleikar líka og þar af leiðandi er þessi hugmynd kannski dálítið þröng.

Ég bendi á að Hafrannsóknastofnun er þegar á Reykjanesi komin af stað með nokkra starfsemi. Það má vel vera að hún sé af vanefnum reist. Mér er þó ekki alveg ljóst hvort hugsað er að hún verði að einhverju leyti klakstöð, ég hef ekki skoðað það nægilega vel, en ég veit þó að fiskeldisfélagið, sem stofnað hefur verið við Eyjafjörð, hugsar sér klak og eldi bæði á lúðu og þorski, hvort sem það er nú ekki líka á vanefnum reist og verður kannski hæg þróun þess vegna.

En ég hefði álitið í fyrsta lagi að það væri eðlilegra að reyna að efla þá stöð Hafrannsóknastofnunar á Reykjanesi sem þegar er komin af stað. Hún er í landi Íslandslax, að ég hygg, í landi Staðar. Þar eru glettilega miklir möguleikar með samnýtingu við stórt fyrirtæki að minnka kostnaðinn. Þeir hafa gert þarna, eins og flm. nefndi réttilega, dálitla tilraun með lúðu. Þær tilraunir byggjast hins vegar fyrst og fremst á því að veiða smálúðu og ala hana síðan upp. Það hefur, hygg ég, gefið sæmilega raun upp á síðkastið. Það eru einkennileg atvik sem þarna hafa komið fram. Þeir misstu talsvert af lúðunni vegna þess að hún sólbrann. Lúðan er botnfiskur og þoldi ekki útfjólubláa geislun sólarinnar í grunnum kerum.

Lúðueldi eða lúðuklak er hins vegar mjög stutt komið. Á fiskeldissýningu í Þrándheimi í sumar sýndu Norðmenn hversu langt þeir eru komnir. Þeir sýndu held ég tvær lúður sem hafa náð einhverri stærð og hétu báðar mannanöfnum, ef ég man rétt. En þó að tekist hafi að klekja út lúðuhrognum hefur gengið og gekk lengi vel afar illa að startfóðra lúðuseiði vegna þess að þessi litlu seiði eru svo smá að það gekk illa að finna þær lífverur eða „bíóorganisma“ sem þær gætu lifað á. Besti árangur sem náðst hefur í lúðueldi í Noregi er held ég sé að 10% lifi, en það náðist núna á þessu ári að 10% lifðu af startfóðrun. En langflestir sem hafa reynt þetta eru með miklu minna. Eftir allar þær tilraunir sem Norðmenn hafa gert í þorskeldi hygg ég að það séu núna 2 millj. þorskseiða lifandi í Noregi. Norðmenn eru hins vegar að gera tilraunir líka með steinbít og skötusel.

Ég heyri á hæstv. forseta að tími minn er senn á þrotum, en ég má þó til með að bæta aðeins við þetta. Í fyrsta lagi er ég ekki alveg viss um nema þessi hugmynd um sjávarfiska sé heldur þröng miðað við þá þróun sem þarna er á ferðinni.

Í öðru lagi hygg ég að samstarf við þá stofnun sem komin er á Reykjanesi eða efling hennar kynni að vera skynsamlegri en að hefja nýja slíka starfsemi eða setja af stað nýja stofnun.

Í þriðja lagi hef ég ekki sannfæringu fyrir að nefnd sem að þessu ynni ætti að hafa þá samsetningu sem þarna er rakin.

Í fjórða lagi hefði ég viljað benda á að Norðmenn eru lengst komnir í fiskeldi og æskilegt væri að ná samvinnu við þá og stytta sér rannsókna- og tilraunatíma mjög með því að nýta sér þær rannsóknir sem þeir hafa þegar unnið að.

Ég geri ekki mikið með deilur eða togstreitu varðandi undir hvaða ráðuneyti þessi mál eiga að falla. Fiskeldismenn hafa hins vegar óskað eftir því að mál þeirra falli undir sjútvrn. í sinni stefnumörkun. Aðalatriðið hygg ég að sé að ráðuneyti það sem málið fellur undir sinni þessum málum mjög vel.

En hvað sem öllum þessum umhugsunaratriðum líður hygg ég að hér sé hreyft góðu og athyglisverðu máli. Hvort það á að ganga fram einmitt í þeirri mynd sem það er hér lagt fram er annað mál. En þetta mál er æskilegt að fá til umfjöllunar og vonandi mun Alþingi láta þessi mál meira til sín taka því að hvergi verður e.t.v. þróun í atvinnulífinu meiri en einmitt á þessu sviði.