17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2387 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

204. mál, afstaða Íslands til framkvæmdar afvopnunartillagna

Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég þakka utanrrh. fyrir hans svör við þessum fyrirspurnum. Raunar væri afar gagnlegt að þingheimur gæti fengið aðgang að upplýsingum um hvaða tillögur aðrar það hafa verið þar sem afstöðu hefur verið breytt frá því í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. En ég harma ef það er misskilningur að þessi tillaga hafi verið flutt áður. Ég hef staðið í þeirri trú og reyndar hef ég þær upplýsingar úr utanrrn. Ef það er ekki rétt harma ég að sá misskilningur hefur slæðst inn í fsp. og bið ráðherra velvirðingar á því að sjálfsögðu. En það mál mun væntanlega verða upplýst.

Aðalatriðið í þessu máli finnst mér vera að það hefur komið fram að þessi ákvörðun var tekin að yfirlögðu ráði. Ég tel að þessi ákvörðun sé á misskilningi byggð og röng vegna þess að það segir í ályktuninni að það beri að hrinda í framkvæmd öllum ályktunum þings Sameinuðu þjóðanna um þessi mál. Við höfum verið á móti sumum þessara ályktana. Við höfum setið hjá við aðrar. Það er mótsögn í því að samþykkja síðan tillögu sem gerir ráð fyrir framkvæmd þeirra allra.

Varðandi skilyrðislausa framkvæmd, þá eru þau atriði sem ráðherra nefndi yfirleitt tekin fram í öllum þessum ályktunum, þannig að það eru ekki þessi skilyrði sem við er átt, heldur þau sem snúa að framkvæmd tillagnanna, sem á skilyrðislaust að hrinda í framkvæmd.

Ég tel því út af fyrir sig að þetta mál sé upplýst og ég harma að það skuli vera í pottinn búið á þann veg sem raun ber vitni.