17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2387 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

204. mál, afstaða Íslands til framkvæmdar afvopnunartillagna

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ef það er rétt að þessi tillaga hafi áður komið fram hef ég heldur ekki fengið réttar upplýsingar. Ég talaði við mína menn í utanrrn. í morgun og spurði hvort ekki væri öruggt að hún hefði ekki komið fram áður. Mér var tjáð að svo væri ekki. A.m.k. spurði ég sérstaklega að því hver væri afstaða Norðurlandanna þegar þessi tillaga kom á mitt borð og fékk þá upplýst að hún lægi ekki fyrir. Skýringin var m.a. sú að tillagan hefði ekki verið flutt áður.

Ég tek undir með hv. þm. að við skulum leiðrétta þetta ef rangt er. Staðreyndin er að ég hafði engar upplýsingar um hvernig aðrir litu á þessa tillögu.

En það er eitt atriði. Hv. fyrirspyrjandi segir að samkvæmt tillögunni beri skilyrðislaust að framkvæma tillögur eða samþykktir Sameinuðu þjóðanna. Ég get ekki fallist á það. Eins og ég las áðan í enskri útgáfu þetta atriði, ég vil ekki lengja mál mitt með því að lesa tillöguna alla, segir þar: „make every effort“, þ.e. gera allt sem á þeirra valdi stendur. Það þýðir ekki að öll ríki skuli skilyrðislaust framkvæma. Svo koma ýmsar skýringar á eftir sem ég hygg að mörgum þjóðum muni reynast erfitt að fullnægja, t.d. með eftirlitið, sem er áreiðanlega eitt stærsta atriðið, tekið er fram að það skuli vera mjög öruggt.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt, en langar til að segja að lokum að það er svo með afstöðu til samþykkta alþjóðastofnana að þar virðist oft vera dálítið tvöfalt siðgæði, ef ég má orða það svo, og þjóðir virðast taka þessar samþykktir eftir því sem þeim hentar. Ég nefni t.d. mál sem varðar okkur mikið, Alþjóðahvalveiðiráðið. Samþykktir þess eru alls ekki bindandi og þarf m.a.s. 2/3 atkvæða til að þær geti orðið bindandi ef meðlimaríkin fallast á að þær skuli vera bindandi. Sumar þjóðir láta sér samt lynda að fylgja hart eftir samþykktum þar sem eru samþykktar af einföldum meiri hluta. Við höfum orðið fyrir barðinu á því. Svo virðist vera að eftir því hvað hentar hverri þjóð draga þær fram samþykktir alþjóðastofnana og gera þær að lögum í sínu landi. Ég verð að segja hér og nú að á slíkt tvöfalt siðgæði get ég ekki fallist.