17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2388 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

161. mál, snjómokstur

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég flyt fsp. til samgrh. um hvort ekki sé orðið tímabært að heimila snjómokstur á hringveginum og meginleiðum út frá honum til stórra þéttbýlisstaða a.m.k. þrisvar í viku. Ég hef hér fyrst og fremst í huga þær leiðir þar sem mokað hefur verið tvisvar í viku, en eins og kunnugt er er það stór hluti af hringveginum, þ.e, leiðin frá Reykjavík um Akureyri til Mývatns annars vegar og hins vegar frá Reykjavík um Suðurland til Egilsstaða. Víða eru leiðir til þéttbýlisstaða mokaðar tvisvar í viku ef þörf krefur, en þó eru ýmsir spottar á landinu mokaðir miklu oftar og hér á suðvesturhorninu er auðvitað miklu meiri mokstur en þessu nemur.

Nú hefur ástand vega verið að gjörbreytast á undanförnum árum og satt best að segja er búið að byggja upp svo stóran hluta af hringveginum að ég hygg að það þurfi yfirleitt ekki mjög mikinn snjómokstur og það er ekki langur tími árs sem þess gerist þörf. En þó ekki hafi snjóað mikið á þessum vetri vissulega skulu menn ekki halda að þannig verði um alla framtíð. Það kemur dagur eftir þennan dag. Ég hygg að á þessum vetri komi tímabil þar sem mjög verði yfir því kvartað að aðeins skuli mokað tvisvar í viku þar sem höftin eru ekki svo ýkja mörg eða stór. Ég er hér fyrst og fremst að hugsa um það að mokað yrði á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum í staðinn fyrir á þriðjudögum og föstudögum. Ég tel að það væri ákaflega mikill munur fyrir mörg byggðarlög ef þessi regla væri upp tekin.

Ég spyr um kostnaðarhliðina. Það má sjá það í opinberum plöggum að kostnaður við snjómokstur hefur numið í kringum 200 millj. kr. undanfarin ár. Það virðast t.d. vera í fjárlögum fyrir árið 1987 207 millj. ætlaðar til snjómoksturs. Ég hef nú grun um að í reynd hafi snjómokstur numið miklu, miklu lægri fjárhæðum á þessu ári. Það væri fróðlegt að vita ef ráðherrann hefði einhverjar upplýsingar um það efni.

En ég spyr um það hver væri kostnaðaraukningin sem af því leiddi að tekin væri upp önnur og rýmri regla miðað við snjómokstur undanfarna þrjá vetur.