17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2390 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

161. mál, snjómokstur

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir greinargóð svör. Mér fannst sérlega athyglisvert að í svarinu kom fram að aukinn kostnaður á hringveginum gæti verið af stærðargráðunni 30 millj. kr. á ári, en að meiri hluti þess kostnaðar félli til á þeim kafla sem ekki er mokað samkvæmt gildandi reglum. Ég get nefnilega vel fallist á að það sé óþarfi að taka upp þá reglu að moka hringveginn allan þrisvar í viku. Það má vel vera að það sé alveg hárrétt, sem kemur fram í svari ráðherra, að það sé ástæðulaust að taka upp eina reglu fyrir alla þessa vegi þó að ég gerði það að vísu í minni fsp. að spyrja sérstaklega um það. En þá virðist ljóst að ef þessum langa kafla, sem nefndur var að alls ekki væri mokaður, sem er um 150 km langur, væri sleppt yrði kostnaðurinn á hringveginum aðeins brot af þeirri tölu sem nefnd var, þ.e. 30 millj. kr., kannski bara fáeinar milljónir, og sjá þá allir að þarna mætti fá stóraukna þjónustu fyrir tiltölulega lítið verð. Það teldi ég mikið fagnaðarefni fyrir t.d. íbúa sem búa við norðurleiðina til Akureyrar. Það er einkum og sér í lagi mikið yfir þessu kvartað á þeirri leið.

Það má líka vel vera að þegar um er að ræða tengingar við þéttbýli yrði það ekki undantekningarlaus regla. Það yrði eitthvað að fara þar eftir aðstæðum og í vissum tilvikum þar sem ekki hafa verið byggðir upp vegir og kostnaður væri úr hófi fram. Kostnaður við að taka upp þetta sem aðalreglu fyrir flesta þéttbýlisstaði yrði því væntanlega ekki nema brot af þeirri tölu sem nefnd var í fsp. varðandi þá staði.

Ég hvet mjög til þess að snjómokstursreglur séu endurskoðaðar. Ég fellst á að það geti verið hæpið að taka upp eina reglu á hringveginum öllum eða meginleiðum út frá honum, en þó gæti það verið aðalreglan með vissum undantekningum eins og ég hef nefnt varðandi kaflann frá Mývatni til Egilsstaða. Þá held ég að þessi stóraukna þjónusta þyrfti ekki að kosta óhóflega mikið fé.