17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2394 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

187. mál, erlent starfsfólk hérlendis

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég náði reyndar ekki niður öllum þeim tölum og upplýsingum sem hún gaf, en ég mun kynna mér það nánar síðar.

Það eru þó nokkur atriði sem ég vil aðeins minnast á án þess að ræða svör hennar nánar. Það er t.d. sú staðreynd að það má ætla að þarfir þessa erlenda fólks verði svipaðar og þarfir íslenskra starfsmanna. Þeir þurfa þak yfir höfuðið, þ.e. húsnæði, og eins og hæstv. félmrh. veit er mikill vandi á höndum hvað varðar bæði leiguhúsnæði og eins húsnæði til kaups. Þeir þurfa e.t.v., ef þeim dettur í hug að eignast börn, á dagvistun að halda og eins og við vitum eru þau mál í miklu öngþveiti hér og hvergi nærri að eftirspurn sé fullnægt. Og þeir þurfa væntanlega líka að lifa af þeim launum sem þeim eru greidd og verða varla lægri en þau sem Íslendingum eru boðin. Þetta eru allt vandamál sem blasa við íslensku starfsfólki í ýmsum atvinnugreinum í dag.

Mig langar lítillega að tæpa á athugasemdum, bæði atvinnurekenda og forsvarsmanna launþega, sem komu fram í Morgunblaðinu sunnudaginn 1. nóv. þegar spurt var hvað fólki fyndist um innflutning á erlendu vinnuafli. Þar komu ýmis sjónarmið fram. Þar komu t.d. þau sjónarmið fram að við mættum ekki byggja upp einangrunarstefnu gagnvart nágrannalöndum okkar, ekki síst vegna þess að í dag eru mörg þúsund Íslendingar við störf erlendis og hefur svo verið um langan tíma og við hefðum ómældan hag af því að hafa frjálsan eða lítið heftan aðgang að erlendum vinnumörkuðum.

Það kom líka fram það sjónarmið að menningu okkar og siðum væri hætta búin ef hingað streymdi mikill fjöldi erlendra manna til vinnu. Það kom líka fram að sú þensla sem er á vinnumarkaðnum væri tímabundin og til þess að ráða við hana þyrfti að sníða atvinnustarfsemi okkar eftir eigin stærð og slá á þá spennu sem er hér innan lands og aðlaga atvinnueftirspurn og framboð í stað þess að auka framboðið með erlendu vinnuafli.

Það kom einnig í ljós, t.d. hjá Þórunni Sveinbjörnsdóttur, formanni Sóknar í Reykjavík, að ef atvinnurekendur sæju sér fært að byggja yfir hóp af útlendingum hljóta þeir að geta gert það fyrir íslenskt verkafólk líka.

Það kom einnig fram að víða erlendis hefur reyndin orðið sú að stórir hópar útlendinga lenda á atvinnuleysisbótum þegar spenna minnkar á vinnumarkaði og störf verða ekki eins mörg og áður.

Og svo kom vitanlega fram sú athugasemd líka að það væri stórhættulegt að skipuleggja innflutning á erlendu vinnuafli til að vinna lægstlaunuðu störfin í þjóðfélaginu, eins og víða hefur gerst a Vesturlöndum, t.d. á Norðurlöndunum. Þetta gæti orðið til þess að halda í raun niður launum hérlendis.

Ég tel allar þessar athugasemdir, sem ég nefndi, auk þess sem ég hef sjálf sagt, vera þess eðlis að það væri vert að huga vel að því hvaða stefnu stjórnvöld ætla sér að hafa í þessum málum. En fyrst og fremst hlýtur að þurfa að sinna mannlegum þörfum allra þeirra sem hér á landi vinna, af hvaða þjóðerni sem þeir eru, til þess að þeir geti lifað mannsæmandi lífi.