17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2397 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

189. mál, ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar

Níels Árni Lund:

Herra forseti. Það kom margt fram í svörum hæstv. ráðherra, en samt langar mig til að standa hér upp og spyrjast fyrir. Það er um sögusagnir sem ég hef heyrt úti í bæ. Ég efast um að þær hafi mikið til síns máls, en samt vil ég nota tækifærið og spyrja hvort mönnum þarna hafi verið sagt upp nýverið vegna þess að það sé ekki nægilegt fjármagn veitt í þessa deild lögreglunnar sem þó, eins og hæstv. ráðherra gat um, hefur skilað afskaplega góðum árangri. Því vakti það undrun mína þegar ég heyrði á skotspónum að verðlaunin fyrir það hefðu verið að nokkrum mönnum hefði verið sagt upp störfum vegna þess að það hefði ekki verið til fjármagn til að greiða þeim fyrir störfin. Ef þetta er vitleysa finnst mér gott að það komi fram hér vegna þess að ég veit að þetta hefur heyrst úti á götu.