17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2398 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

189. mál, ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrri fyrirspyrjanda, hv. 6. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Reykn. og 9. þm. Reykn. fyrir þeirra athugasemdir og áhuga á þessum málum því það er svo sannarlega rétt, sem fram hefur komið í athugasemdum allra þriggja, að hér er um afar mikilvæg verkefni að ræða sem brýnt er að sinnt sé af hæfum mönnum og þeir fái til þess frambærilega vinnuaðstöðu.

Til þess að svara beint fsp. hv. 3. þm. Reykn. um hvort mönnum hafi nýverið verið sagt upp störfum hjá deildinni, þá er mér ekki kunnugt um að það hafi verið gert.

Hv. 9. þm. Reykn. spyr hvort það sé rétt að dregið hafi verið úr yfirvinnu í deildinni og hætt yfirvinnu. Þá er því þar til að svara; eins og kom reyndar fram í mínu fyrsta.svari, að þar er um afar mikla yfirvinnu að ræða, meiri en hægt er að hafa til frambúðar, og það er rétt áð þarna hefur þurft að reyna að takmarka yfirvinnu, bæði vegna mannanna sjálfra og eins vegna fjárveitinganna, eins og á öðrum sviðum löggæslunnar. En ég tek það fram að það verður auðvitað að meta þetta eftir verkefnunum hverju sinni.

Í framhaldi af því sem kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv., fyrri fyrirspyrjandanum, um mikilvægi fíkniefnavarnanna, þá vil ég láta þess að endingu getið að ríkisstjórnin skipaði snemma á þessu hausti samstarfsnefnd þeirra ráðuneyta sem fjalla um fíkniefnavarnir, en það eru dómsmrn., heilbrmrn., menntmrn. og fjmrn. Formaður þessarar nefndar er nú skrifstofustjóri sá sem fer með lögreglumál í dómsmrn. Það er alveg vafalaust að efling löggæslunnar er fyrsta og mikilvægasta verkefnið á sviði fíkniefnavarna.