17.12.1987
Sameinað þing: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

192. mál, ríkisfjármál og heilbrigðisáætlun

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Í Ed. hefur mikið verið rætt um tekjuöflunarfrv. hæstv. fjmrh., þar á meðal frv. um breytingar á söluskatti, þar sem hæstv. ráðherrann, formaður þess íslensks stjórnmálaflokks sem kennir sig við jafnaðarmennsku, áætlar að setja matarskatt á þjóðina. Það er ekki bara að þessi matarskattur fari fyrir brjóstið á fólki vegna þess að hann bitnar svo harkalega á lífsnauðsynjum láglaunafólks, en matvæli eru a.m.k. 1/3 af neyslu þeirra, heldur og líka að þarna gafst hæstv. ráðherra kærkomið tækifæri til að stunda hollustusamlega neyslustýringu sem hann lét fram hjá sér ganga.

Ég hef leyft mér að spyrja á þskj. 221 hvernig nýlegar ráðstafanir í ríkisfjármálum, þ.e. breytingar á söluskatti, vörugjaldi og tollum af matvælum, samræmist manneldismarkmiðum íslenskrar heilbrigðisáætlunar sem lögð var fram á síðasta þingi og hæstv. núv. heilbrmrh. hefur tilkynnt að hann muni leggja fram á því þingi sem nú situr og reyndar halda ráðstefnu um í febrúarbyrjun á næsta ári.

Í þessari heilbrigðisáætlun, sem hæstv. fyrrv. heilbrmrh. lagði fram á síðasta þingi, stendur, með leyfi forseta, um markmið 6 sem er manneldismarkmið:

„Næringarástand þjóðarinnar er talið gott, en það þarf að sjá um að allir fái nægan mat og í honum séu rétt hlutföll frá næringarfræðilegu sjónarmiði. Leggja skal áherslu á framleiðslu og framboð hollrar innlendrar fæðu. Það á að ýta með ýmsu móti undir neyslu kornmetis, fisks, kjöts sem er magurt, kartaflna og grænmetis. Stuðla skal að neyslu mjólkurvara með lágu fituinnihaldi með fræðslu og verðstýringu. Neysla matar sem hefur mikið af sykri og neysla sætinda svo og saltaðs matar á að minnka með upplýsingastarfsemi og verðstýringu.“

Ég hirði ekki um að lesa frekar um þetta markmið því að þarna koma í raun mjög skýrt fram ákveðin áhersluatriði, en í lok markmiðanna stendur:

„Markmiðin skulu innihalda fyrirmæli um verðlagningu, framleiðslu og þá upplýsingu sem er nauðsynleg til þess að þjóðin snúi sér að heilbrigðara mataræði en nú tíðkast.“

Ég vil jafnframt vekja athygli á að fulltrúar manneldisráðs, Manneldisfélags Íslands og landlæknir hafa látið í ljós vanþóknun sína á því að sjónarmið sem eru ekki hliðholl viðurkenndri manneldisstefnu skuli ráða þegar verðlagning á matvælum er ákveðin í fjmrn. og af þessari ríkisstjórn.