20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

31. mál, klak- og eldisstöð fyrir sjávarfiska

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka flm. fyrir flutning þessarar till. og í annan stað tel ég að hér hafi farið fram athyglisverðar umræður og m.a. í máli hv. þm. Stefáns Valgeirssonar komið fram mjög athyglisverðar ábendingar sem þurfi nánari skoðun.

Það kom fram í máli hans og máli hv. þm. Guðmundar Þórarinssonar að spurning væri hvort þessi till. væri ekki of þröngt skilgreind, þ.e. að það væri ástæða til rannsókna á fleiri sviðum en varðaði sjávarfisk. Vel má það vera, en reyndar höfum við á hv. þingi markað stefnu í þeim efnum, a.m.k. að verulegu leyti. Ég var 1. flm.till. varðandi stefnumörkun um þetta efni í þinginu. Ef ég man rétt flutti hv. þm. Stefán Valgeirsson till. á sama þingi sem hneig í svipaða átt. Báðar þessar tillögur voru reyndar afgreiddar með þeim hætti að það var skipuð nefnd sem átti að vinna eftir þeim línum sem þar voru lagðar og eitt af því sem var lögð áhersla á í þeim tillögum, sem þá voru til umfjöllunar, var að efla rannsóknarstarfsemi í sambandi við fiskeldi. Nú er það reyndar svo að við Stefán Valgeirsson erum báðir í þessari nefnd, en hún hefur ekki skilað þeim árangri enn þá sem ég held að við mundum báðir hafa óskað eftir.

En vissulega hefur það komið hér áður til umfjöllunar að efla rannsóknarstarf í sambandi við fiskeldi almennt, en það sem er kannski sérstakt í sambandi við þessa till. er að það er verið að tala um könnun á eldi sjávarfiska sérstaklega og það kann vissulega að vera ástæða til þess.

En ég get ekki stillt mig um það, herra forseti, að taka svo til orða að í rauninni ætti þessi till. að vera óþörf vegna þess að á þinginu 1980 fór fram ítarleg umræða um þetta mál. Á því þingi flutti hv. þáv. þm. Magnús H. Magnússon till. um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna þar sem gert var ráð fyrir að tilraunir með klak og eldi á þorski og öðrum nytjafiskum yrðu eitt af hlutverkum Hafrannsóknastofnunarinnar. Um þetta fór fram allmikil umræða í þinginu og það var nákvæmlega sú hugmynd sem hér er verið að fjalla um sem hv. þm. Magnús Magnússon var þá að tala fyrir og lagði ríka áherslu á. Hann benti á að það bæri nauðsyn til að byggja á þeim grunni sem hefði verið fundinn í Noregi þá þegar 1980 varðandi þetta efni og rannsóknir sem hefðu reyndar verið gerðar í Vestmannaeyjum árið 1974 og markmiðið var það sama og mér sýnist að hér vaki fyrir hv. flm. að menn gætu eflt þorskstofninn í rauninni með hafbeit. Menn gætu hjálpað til með því að vera með klak- og seiðaeldi sem síðan yrði sleppt í sjóinn. — Og nú sé ég reyndar að hv. 2. flm. þessa frv. til l. er mættur hér í salinn, Árni Gunnarsson.

Örlög þessa frv. til l. voru þau að það var afgreitt með þeim hætti að menn hefðu haldið að það væri óþarfi í rauninni að flytja till. af því tagi sem hér er flutt vegna þess að sjútvn., sem fékk þetta mál til umfjöllunar, lét þá skoðun í ljós að að vísu þyrfti ekki að breyta lögunum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna en hins vegar væri hér hið merkasta mál á ferðinni og það væri rétt að það yrði veitt fé til Hafrannsóknastofnunar til að hefja þessar rannsóknir. Og það fé var veitt. Hafrannsóknastofnunin fékk aukið fé til að sinna þessum rannsóknum í framhaldi af tillöguflutningi Magnúsar H. Magnússonar og Árna Gunnarssonar á þinginu árið 1980.

Mér er hins vegar ekki grunlaust um að starfið sem í hafði verið lagt af hálfu Hafrannsóknastofnunar í þessa veru sé heldur bágborið, en vissulega væri ástæða til þess í þessu sambandi að spyrjast fyrir um það.

Þetta vildi ég, herra forseti, rifja upp á þessari stundu vegna þeirrar umræðu sem fór hér fram á árinu 1980 um þetta mál og vegna þess að hér er vitaskuld um stórmerkt mál að ræða. Og vitaskuld er það svo, að úr því að ekki hefur gerst meira í þessum málum er fyllsta ástæða til þess að við málinu sé hreyft hér á þingi með þeim hætti sem þeir gera hér hv. þm. Hreggviður Jónsson og Júlíus Sólnes.

Hinu geta menn vitaskuld haft skoðun á, með hvaða hætti eigi hér á að knýja, hvort setja skuli nefnd, hverjir skuli vera í nefndinni, hvort tengja eigi þetta rannsóknum í sambandi við annað fiskeldi. Ég tel að það sé minni háttar mál sem Alþingi eigi að geta ráðið fram úr. En ljóst er að það er full þörf, brýn nauðsyn á rannsóknum bæði á þessu sviði og eins á sviði almenns fiskeldis til landsins, ef ég má orða það svo, hins hefðbundna fiskeldis, eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson gerðu að umræðuefni.

Ég lýsi yfir ánægju minni með þessa till. og vona að hún megi verða til þess að áfram verði haldið á þeirri braut sem þeir Magnús H. Magnússon og Árni Gunnarsson vildu marka og voru á leiðinni að marka árið 1980.