17.12.1987
Sameinað þing: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

Greinargerð utanrrh. um byggingu flugstöðvar

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Hér eru til umræðu þrjú mál er varða kostnað og þá einkum umframkostnað við byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Það er skýrsla Ríkisendurskoðunar, till. til þál. um rannsókn á ábyrgð á umframkostnaði og svo skýrsla utanrrh. um kostnað vegna byggingarinnar. (Forseti: Það skal vakin athygli hv. þm. á því að það er eitt mál til umræðu en það eru þrjú mál á dagskrá.)

Herra forseti. Þó að eitt mál sé nú til umræðu þá er það hárrétt hjá hæstv. forseta að það eru þrjú mál á dagskrá og ég hef tekið eftir því vegna þess að ég hef setið hér lengur í salnum en hæstv. forseti að þau hafa í raun öll verið rædd. Það var þess vegna sem ég sagði að þau væru til umræðu því þau hafa öll verið rædd hér hvort sem það er leyfilegt eða ekki.

Það ber að fagna því að mitt í ótrúlegum önnum þingsins rétt fyrir jól gefst tækifæri til þess að ræða þessi mikilvægu mál. Hins vegar verða þau hvergi nærri fullrædd á svo stuttum tíma, ekki síst vegna þess að þm. hefur ekki gefist neinn viðhlítandi tími til þess að kynna sér og gaumgæfa nógu vel þessar þrjár þykku skýrslur sem lagðar hafa verið fram, þ.e. skýrsla frá Ríkisendurskoðun og fskj. með henni og svo athugasemdir byggingarnefndar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli í tilefni af skýrslu Ríkisendurskoðunar. Að auki er svo fljótlesið svar utanrrh. við beiðni minni og annarra þingkvenna í stjórnarandstöðu um skýringar á útgjöldum og kostnaði við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þessum skýrslum hefur verið dreift eins og hæstv. utanrrh. sagði.

En ekki er nóg að hér snjói inn pappír í formi skýrslna og viðamikilla frv. um afdrifaríkar kerfisbreytingar varðandi margháttaða skattlagningu við tekjuöflun ríkisins, sem reyndar er uppstokkun á því kerfi, fjárlög, breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og fjölmörg önnur viðamikil mál sem þm. þurfa nú að sinna öllum á sama tíma og tíminn er naumur. Þessi vinnubrögð leiða til þess að mönnum gefst ekki nægur tími til að kynna sér og gaumgæfa þau mál sem þeir eiga að taka ákvarðanir um, gefst ekki tími til að öðlast nema takmarkaða innsýn, hvað þá heildarsýn eða yfirsýn yfir þau mál sem þeir eiga síðan að bera ábyrgð á. Slík vinnubrögð eru forkastanleg. Því hef ég þessi orð í formála mínum að við erum hér einmitt að ræða afleiðingar vinnubragða sem ekki hafa verið nógu góð. Á sama tíma fyrirskipar verkstjórn þessarar ríkisstjórnar gagnrýniverð vinnubrögð hér á Alþingi, bæði við umfjöllun þessara mála sem hér eru til umræðu, svo og annarra mikilvægra mála.

Það kemur einmitt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og ég vitna í hana, með leyfi forseta: „Varðandi yfirstjórn verkefnisins verður að telja að skort hafi á heildaryfirsýn, bæði fjárhagslega og framkvæmdalega. Samræmd áætlanagerð og eftirfylgni hennar var ábótavant.“ Og mér dettur nú bara í hug það sem við vorum að ræða í Ed. í nótt: Hve margir þeirra þm. sem þar sátu gera sér fyllilega grein fyrir og hafa heildarsýn yfir þau áhrif og þær afleiðingar sem þau mál kunna að hafa fyrir alla þjóðina? Það gildir nefnilega svipað um ábyrgðaraðila í því máli sem hér er rætt og okkur þm. að vera ekki hnútum nógu vel kunnugir og því legg ég til að þessari umræðu verði í raun ekki lokið nú heldur verði henni frestað og hún tekin upp aftur eftir jólaleyfi.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar rekur sorgarsögu þessa umdeilda máls. Þegar lagt var fram frv. hér á Alþingi á síðasta kjörtímabili, í byrjun þess reyndar, varðandi lántöku vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli lagði stjórnarandstaða fram eftirfarandi minnihlutaálit, með leyfi forseta, og ég vitna:

„Undirritaðir nefndarmenn eru andvígir byggingu umræddrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli vegna þess að byggingin tengist óneitanlega hernaðarumsvifum hér á landi og er auk þess langtum of stór og dýr miðað við þarfir farþegaflugs milli Íslands og annarra landa. Jafnframt teljum við að bygging nýrrar flugstöðvar sé ekki forgangsverkefni eins og nú háttar í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þess í stað sé það næsta verkefnið í máli þessu að endurskoða og hanna byggingu nýrrar flugstöðvar í samræmi við þarfir farþegaflugs á komandi árum. Við erum þar af leiðandi andvíg ákvæðum þessa frv. og leggjum til að það verði fellt.“

Lántökuheimild var þó veitt en það var langt í frá að menn gerðu sér grein fyrir þeim kostnaði sem af mundi hljótast. Við erum nú að ræða umframkostnað sem nemur a.m.k. 871 millj. kr., þó að ekki séu öll kurl komin til grafar vegna vanáætlana og annarra orsaka, þannig að heildarkostnaður við byggingu þessarar flugstöðvar er því samtals nú a.m.k. 3 milljarðar 170 millj. kr.

Ýmsir alvarlegir hönnunargallar komu í ljós í síðasta áfanga verksins og m.a. segir, og hefur reyndar verið vitnað í áður í skýrslu Ríkisendurskoðunar, að í áfanga FK 5 þar sem um var að ræða innréttingar „komu strax upp verulegir erfiðleikar sem urðu þess valdandi að þessi fimmti og stærsti verkáfangi fór úr böndum“. Og enn segir: „Þegar samningar við Hagvirki hf. voru á lokastigi um áramótin 1985–86 kom í ljós að endurhanna þyrfti loftræsikerfið, auk þess sem hönnun á öðrum sviðum var áfátt. Þetta ástand í hönnunarmálum kom stjórnendum verksins, byggingarnefnd og framkvæmdastjóra, á óvart. Þeir höfðu verið í góðri trú um að hönnun væri á eðlilegu stigi.“

Ég veitti því athygli þegar ég las þessa fróðlegu skýrslu, eða þann hluta af henni sem mér veittist tími til, hversu fjarskalega hógværlega hún var orðuð og í öllum tilvikum var sagt minna en hefði verið hægt og gafst kostur frekar á að lesa á milli línanna.

Enn segir í þessari skýrslu að afleiðingar hefðu verið tvenns konar vegna þess arna. Kostnaður varð meiri við verkáfangann en ætlað hafði verið og í öðru lagi var flugstöðin afhent síðar en til stóð. Ástæður fyrir ofangreindu ástandi í hönnunarmálum voru taldar vera, eins og reyndar hefur komið fram, breytingar á byggingunni og fyrirkomulagi í henni á byggingartímanum, vanmat hönnuða á umfangi verksins, ófullnægjandi hönnunarstjórn, bæði hjá einstökum hönnuðum og í heild, og vandamál sem komu upp vegna ólíkra staðla þar sem byggt var á erlendri grunnhönnun, fjarlægðar milli hönnuða og ábyrgðarskiptingar. — Þarna er a.m.k. talað um ábyrgð.

Ýmsum sögum hefur farið af ástandi mála þegar þessi áfangi var unninn og hafa nokkrar þeirra verið sagðar hér. Sjálf hef ég átt kost á því að tala við iðnaðarmenn sem þarna unnu og hafa þeir aldrei séð önnur eins vinnubrögð. Þar ríkti algjör ringulreið að þeirra mati. Verkstjórn var í molum, margar teikningar í gangi í einu fyrir sama verkefni og kom það oft í hlut iðnaðarmannanna sjálfra að reyna að ráða fram úr eða taka ákvörðun um hvaða teikningu skyldi fylgja. Stundum kom fyrir að mönnum var uppálagt að mála vegg einn daginn, næsta dag var hann rifinn því hann hafði aldrei átt að vera þar. Hönnuðir tóku ákvarðanir oft af mikilli vanþekkingu á því hráefni sem unnið var með og þegar svo klandur hlaust af, eins og iðnaðarmenn höfðu spáð, fengu þeir vart að ráðleggja hvernig ráða skyldi bót á því því að hönnuðir létu smekk ráða en ekki verkþekkingu.

Það bruðl og sá flottræfilsháttur og skipulagsleysi sem gengið hefur berserksgang í hönnun og framkvæmdum við flugstöðina í Keflavík hefur eins og aðrir berserksgangar valdið usla og tjóni, bæði fjárhagslegu og ekki síst hvað varðar siðfræði þeirra vinnubragða sem beitt hefur verið. Það verður að teljast mjög ámælisvert hvernig staðið var að upplýsingagjöf um framkvæmdir og áfanga þessa verks, eins og segir enn í skýrslunni:

„Upplýsingagjöf um gang og stöðu verkefnisins til ýmissa opinberra aðila var áfátt. Áfangaskýrslur voru ekki gefnar út eftir 17. febr. 1984. Í skýrslum utanríkisráðherra til Alþingis um utanríkismál árið 1984–1987 er í kafla um byggingu flugstöðvar ekki gerð grein fyrir þeim breytingum sem orðið höfðu frá upphaflegri áætlun. En ætla má að alþingismönnum hafi verið þetta ljóst með samþykki fjárlaga og lánsfjárlaga. Ekki er heldur í skýrslunum til Alþingis gerð grein fyrir viðbótarsamningi við Bandaríkjamenn sem gerður var 24. apríl 1986.“

Menn hafa í raun fjallað um þessi mál, þessa meðferð á almannafé eins og sín einkamál. Þeim dettur ekki í hug að láta svo lítið að gefa skýrslu um þau til Alþingis, sem þó er ætlað að taka ákvarðanir um fjármögnun þessa ævintýris, og ekkert er talað um viðbótarsamninginn sem gerður er við Bandaríkjamenn. Það er eins og menn slái eignardómi eða eignarlandi á þetta verkefnasvið sitt, bæði ráðamenn og aðrir sem annast verkið. Og mér datt í hug þegar ég las þetta: Skyldu ráðherrar almennt, t.d. í þessu tilfelli utanrrh., skyldu þeir þegja yfir fleiru sem þeir ættu í raun að segja þingi og þjóð frá ef þeim þykir sjálfsagt að þegja yfir því sem þeir vita í þessu máli?

Þeirri hollustu sem þó er sýnd varðandi kostnaðaryfirlit er fyrst og fremst snúið að Bandaríkjamönnum eins og kom fram í máli hæstv. fjmrh. því að hann sagði að þeim hefðu verið birt tvö kostnaðaryfirlit og það er ekki fyrr en 29. apríl 1987 að sú vitneskja berst til fjmrn. frá byggingarnefnd flug,stöðvarinnar að verulegt fé vanti til byggingarinnar umfram það sem ætlað hafði verið. Ég hirði ekki um að tíunda það frekar því það er búið að vitna svo oft í það í þessum umræðum hvert það fé er sem vantar og eins hvernig hefur verið þagað yfir þeirri fjárvöntun sem var.

Hin hógværa skýrsla Ríkisendurskoðunar lýkur reyndar kafla sínum um niðurstöður á því hvernig draga megi lærdóm af þeim mistökum sem hér hafa verið rakin í umræðunni og í því sem ég hef sagt og þar segir, með leyfi forseta:

„Lærdómur sem draga má af framkvæmdinni: Ríkisendurskoðun telur að af þessu máli megi draga ýmsar ályktanir í sambandi við meiri háttar opinberar framkvæmdir, m.a. eftirfarandi:

1. Vanda til við undirbúning framkvæmda, einkum að fyrir liggi góð skilgreining á verkefninu og væntanlegum gangi þess.

2. Vanda til áætlanagerðar, einkum samræmdrar framkvæmda- og fjárhagsáætlunar, framkvæma stöðuga endurskoðun meðan á verkefni stendur og tryggja upplýsingagjöf til réttra aðila.

3. Vanda til vinnubragða við gerð fjárlagatillagna og fjárlagagerðar.“ Það skyldum við hafa í huga hér, við sem sitjum á þingi og erum að ganga frá fj árlögum.

„4. Varast skal breytingar á verktíma og áður en ákvörðun er tekin um breytingu frá samþykktri áætlun og/eða hönnun skal athuga svo sem unnt er hvaða afleiðingar breytingin hefur.“ Og það gætum við einmitt líka hugleitt hér á þessum síðustu dögum þingsins.

En þetta mál er ekki einstakt og við höfum orðið vitni að mörgum slíkum þar sem stjórnmálamenn í blindum metnaði taka vafasamar ákvarðanir um almannafé. Fyrirtæki eða verkefni sem síðan fara á hausinn en eru æ síðan kennd við ævintýri. Rifjið upp í huga ykkar, hv. þm., hve mörg ævintýrin eru. Það hefur þegar verið minnst á nokkur þeirra í þessum stól. Verkefnið eða framkvæmdin er kennd við nafn sitt, en hlýtur síðan viðskeytið ævintýri. Og við skulum ekki gleyma hlutverki ævintýra í vitundarþroska mannanna barna. Þau eru ekki einungis talin til skemmtunar, ekki síður til þess að menn geti upplifað aðra hluti en þeir reyna sjálfir, fengið útrás og losnað við ýmsar tilfinningar, oft neikvæðar, og síðast en ekki síst eru þau talin mikilvæg til varnaðar og lærdóms. En höfum við dregið lærdóm af öllum þeim fjármála- og fjárglæfraævintýrum sem við höfum orðið vitni að á undanförnum árum? Ég held ekki. Vandi okkar varðandi meðferð stjórnmálamanna og annarra ráðamanna á almannafé er einmitt sá að ævintýramennirnir ganga ævinlega ósárir frá ákvörðunum sínum og verkum og það sem verst er, þeir taka ekki á sig ábyrgð af þeim hversu hrapallegar sem þær kunna að reynast. Svo deila þeir innvirðulega með sér ábyrgðarleysinu þangað til næsta ævintýri hefst. Svona láta þeir, eins og hv. 16. þm. Reykv. sagði svo einlæglega og talaði um kjarna málsins hér áðan.

Það er einkennandi fyrir umræðuna hér hve samtrygging þeirra sem staðið hafa í forsvari fyrir þessum ákvörðunum í gegnum árin er einhuga. Þar víkur hæstv. fjmrh. sér aðeins lítillega undan en hann er svo nýkominn í stólinn og að málinu og kannski kyngir hann því öllu, eins og hv. 16. þm. Reykv. sagði eða giskaði á áðan. Vonandi gerir hann það ekki.

Hæstv. utanrrh. lætur ekki einu sinni svo lítið að svara þeirri spurningu sem til hans er beint frá níu þingkonum á þskj. 16, en þar segir, með leyfi forseta: „Ef um umframkostnað er að ræða er óskað eftir að gerð verði grein fyrir því af hverju hann stafar og hver beri ábyrgð á honum.“ Á það er ekkert minnst í skýrslu utanrrh. til okkar hver ber ábyrgð á kostnaðinum. Það er nefnilega þetta með ábyrgðina eins og hv. 18. þm. og reyndar 16. þm. Reykv. sögðu báðar. Það er ekki sama hver skilgreinir hana og hver á að axla hana. Og það var mikið miður að hæstv. utanrrh. skyldi missa af þessum góðu ræðum sem hér voru haldnar.

Nei, siðfræði hinna sæmilegu vinnubragða, og þá nota ég orðið sæmilegur í merkingunni „sem sómi er að, sæmandi“, er víðs fjarri og engum þykir sjálfsagt eða hefur þor til þess að axla ábyrgð, hvorki í þessu máli né heldur í mörgum öðrum. Eigum við að standa hérna eina ferðina enn og horfa á ábyrgðina gufa upp eins og andstrók af vörum þeirra sem rangnefndir eru ábyrgðarmenn á meðan þjóðin axlar afleiðingarnar eina ferðina enn af þessum mistökum eins og öðrum? Ég segi nei.

Það er kominn tími til þess að ráðamenn beiti því valdi sem þeim hefur verið falið til þess að taka í lurginn á sjálfum sér í stað þess að beita því eða misbeita gegn öðrum. Þessi kinokun ráðamanna við því að taka ábyrgð á gerðum sínum er meinsemd í íslensku þjóðfélagi og veldur vaxandi vantrausti almennings á stjórnvöldum og Alþingi. Samkrull stjórnmálamanna og ýmissa ráðandi stofnana í þjóðfélaginu í gegnum pólitísk ráð og nefndir hefur leitt til þess að þeir hafa oft óeðlilega mikil völd og áhrif, einkum í meðferð almannafjár. Umræða meðal almennings lýsir mikilli óánægju og gremju með þetta athæfi og í mínum huga er það einungis spurning um það hvenær menn byrja að sýna það hugrekki sem þarf til að rjúfa öryggi samtryggingarinnar og vernd kunningjaþjóðfélagsins, sýna þann manndóm að taka ábyrgð á gerðum sínum og ætlast til þess sama af öðrum. Kannski verður þetta fyrst þegar fleiri húsmæður verða fjmrh. eða gegna öðrum opinberum embættum og færa annálaða ábyrgðartilfinningu sína í þær stöður. Þær eru nefnilega mun samviskusamari og betri í öxlunum en ykkur grunar, hv. þingbræður, eins og hv. 18. þm. Reykv. minntist á.

Um skýrslu hæstv. utanrrh., sem er svar hans við beiðni okkar níu þingkvenna eða fsp. um útgjöld og kostnað við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, mun ég ekki fjölyrða. Hún er unnin í flýti af mönnum sem hvergi komu nálægt ákvörðunum um hana eða framkvæmd málsins og þar er sannarlega bæði gengið um hægt og hljótt. Plaggið er rýrt og fullt af prentvillum sem er dæmi um það hve mikið lá á að koma því inn á þingið. Meðferð talna er önnur en í skýrslu ríkisendurskoðenda og miðast við eftirágerða hluti. Það er því fengur í skýrslu ríkisendurskoðenda og má þakka fyrir að skýrsla utanrrh. var ekki eina skýrslan í þessu máli.

Hvað viðvíkur till. til þál. sem alþýðubandalagsþingmenn flytja um að hópur níu þm. muni rannsaka ábyrgð á umframkostnaði við byggingu flugstöðvarinnar veit ég satt að segja ekki hvernig slíkri afgreiðslu málsins mundi reiða af. Til þess er ég allt of hrædd við samtryggingu þeirra manna sem skipt hafa með sér völdum og unnið ýmist sundur eða saman um margra ára skeið. Og þetta er ekki vegna þess að ég beri persónulegt vantraust til þm. sem slíkra, heldur fyrst og fremst ber ég mikið vantraust til eðlis samtryggingarinnar. Við þurfum að koma okkur saman um leiðir til þess að taka á því þegar verkefni fara úr böndum eins og hér hefur orðið. Hér er ekki verið að tala um það fyrst og fremst að hengja bjöllu á ketti eða krossfesta einhvern, að finna sökudólga. Það þarf að leggja grundvöll að nýjum vinnubrögðum sem hafa aðra siðfræði að leiðarljósi en nú er. Um þetta þurfum við að ræða og finna nýjar leiðir. Til þess gefst ekki tóm nú. Þess vegna ítreka ég fyrri beiðni mína um að ljúka ekki þessari umræðu nú en fresta henni þannig að hún megi halda áfram er þing kemur saman á ný. Þess hljótum við öll að krefjast vegna þess hve málið er mikilvægt og alvarlegt og við hljótum að gera þær kröfur til eigin vinnubragða, þau okkar sem finna til ábyrgðar gagnvart eigin vinnubrögðum og afleiðingum þeirra.