17.12.1987
Sameinað þing: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2458 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

Greinargerð utanrrh. um byggingu flugstöðvar

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég byrja á því að taka það fram að ég tel að það hafi verið þarft verk af núv. hæstv. fjmrh. að óska eftir því við Ríkisendurskoðun að hún gerði þá stjórnsýslulegu athugun á byggingar framkvæmdum við nýju flugstöðina sem fram hefur farið og verið hefur til umræðu hér í dag.

Ég er þeirrar skoðunar að almennt sé ýmsu ábótavant bæði af hálfu framkvæmdarvaldsins og Alþingis varðandi stjórnskipulag við opinberar framkvæmdir, ákvarðanatöku, áætlunargerð og eftirlit. Og af stuttri veru minni í fjmrn. sannfærðist ég um að í þessu efni eru ríkar ástæður til þess að færa mál til betri vegar.

Sú skýrsla sem liggur fyrir um framkvæmdir við flugstöðina staðfestir þetta, dregur einmitt fram þá meginágalla sem almennt eru varðandi það hvernig staðið er að opinberum framkvæmdum í landinu. Nú er ég ekki að draga þetta fram til þess að draga úr gildi þeirrar umræðu sem hér á sér stað um þessa einstöku framkvæmd. En þær niðurstöður sem koma fram í áliti Ríkisendurskoðunar undir fyrirsögninni „Lærdómur sem draga má af framkvæmdinni“ eru um margt athyglisverðar. Niðurstöðurnar eru sem sagt, með leyfi hæstv. forseta, svohljóðandi:

„Ríkisendurskoðun telur að af þessu máli megi draga ýmsar ályktanir í sambandi við meiri háttar opinberar framkvæmdir, m.a. eftirfarandi:" Ég vek hér athygli á því að hér er vísað til almennt meiri háttar opinberra framkvæmda. Síðan segir:

„1. Vanda til við undirbúning framkvæmda, einkum að fyrir liggi góð skilgreining á verkefninu og væntanlegum gangi þess.

2. Vanda til áætlanagerðar, einkum samræmdrar framkvæmda- og fjárhagsáætlunar, framkvæma stöðuga endurskoðun meðan á verkefni stendur og tryggja upplýsingagjöf til réttra aðila.

3. Vanda til vinnubragða við gerð fjárlagatillagna og fjárlagagerðar.

4. Varast skal breytingar á verktíma og áður en ákvörðun er tekin um breytingu frá samþykktri áætlun og/eða hönnun skal athuga svo sem unnt er hvaða afleiðingar breytingin hefur.“

Hér er um að ræða mjög athyglisverðar ábendingar sem að mínu mati eiga víða við. Ég þykist vita að hv. alþm. sé ljóst að við erum hér þessa daga að fjalla um fjárveitingar til margra opinberra framkvæmda, þar sem líkt stendur á og varðandi flugstöðina þar sem áætlanir hafa legið fyrir í upphafi. Þær hafa farið úr böndum, ýmist vegna þess að menn hafa ekki séð fyrir hvað gera þurfti eða að verk hefur dregist og tíminn hefur kallað á breytingar.

Mín skoðun er sú að í þessu efni sé ýmsu ábótavant. Ég get nefnt dæmi af byggingum af þessu tagi eins og hús sem keypt var í Ármúla fyrir nokkrar stofnanir sem heyra undir heilbrrn. og menntmrn., eins og Listasafn ríkisins, þar sem kostnaðaráætlanir hafa farið úr böndum og þessar almennu athugasemdir við opinberar framkvæmdir sem hér koma fram eiga auðvitað við. En með þessum ábendingum er ég ekki að draga úr gildi umræðunnar fyrir þetta ákveðna verk.

Hér hefur komið fram í umræðunni að deilur hafa staðið lengi um flugstöðina og það hefur ekkert farið dult að þær hafa snúist ekki einungis um mat á þörf fyrir slíka flugstöð, heldur hafa þær líka tengst viðhorfum stjórnmálaflokka til annarra þátta í íslenskum stjórnmálum eins og varnar- og öryggismála og er út af fyrir sig ekkert um það að segja. Það er ekkert launungarmál og Alþb. fer auðvitað ekkert í launkofa með það að andstaða þess við flugstöðina byggist á því að hún er sameiginlegt verkefni með Bandaríkjamönnum og á vissan hátt í tengslum við varnarstöðina því að varnarliðinu eru heimil afnot af henni á ófriðartímum og þess vegna hefur Alþb. verið á móti framkvæmdinni. Það lagði mikla áherslu á í þeirri ríkisstjórn sem það átti síðast sæti í að minnka flugstöðina og draga úr þessari framkvæmd.

Hér hafa verið höfð uppi stór orð og þungir áfellisdómar á fjölda manna sem að þessu verki hafa staðið án mikils rökstuðnings. Ef leika ætti sama leikinn gagnvart talsmönnum Alþb. ætti að nefna það hér eins og fram hefur komið bæði af hálfu hæstv. samgrh. og af hálfu hv. 7. þm. Reykv. að eitt af því sem skorið var niður að kröfu Alþb. þegar var verið að minnka flugstöðina á þeirra stjórnartíma voru reykskynjarar, að vísu ekki stórt viðfangsefni eins og hv. 7. þm. Reykv. benti réttilega á og skiptir ekki sköpum í þeim stóru tölum sem hér er verið að tala um. En ef menn ættu að nota sömu útúrsnúningana og þessir hv. þm. nota hér mætti spyrja: Gerðu þessir herrar og núv. formaður Alþb., sem þá var í forustu fyrir þessum niðurskurðarhugmyndum, Alþingi grein fyrir því að Alþb. vildi standa að þessari flugstöð án þess að þar væri jafnsjálfsagt öryggiskerfi eins og reykskynjarar? Auðvitað má snúa dæminu þannig upp ef nota ætti sömu rökhyggju og þeir sjálfir nota gegn öðrum. Ég ætla hins vegar ekki að gera það. Ég ætla ekki að ásaka þessa hv. þm. né þeirra flokksbræður um að hafa verið að dylja eða leyna einhverju fyrir Alþingi af þessum sökum, aðeins að varpa ljósi á það hvernig þeirra eigin málflutningur er byggður upp.

Sannleikurinn er sá að Alþingi samþykkti, eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. benti á, lög um lántöku vegna byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli þar sem heimilt er að taka að láni allt að 616 millj. kr. og enn fremur segir að lánsfjárhæð vegna framkvæmda ár hvert skuli ákveðin í lánsfjárlögum í samræmi við fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Utanrrh. er síðan falið að fara með yfirstjórn byggingarinnar. Hér er um venjuleg ákvæði að ræða. Alþingi framselur framkvæmdarvaldið með þessum hætti. Það liggur fyrir áætlun um hver kostnaður verður. En það er rangt að Alþingi hafi samþykkt lög um hver kostnaðurinn var. Það lá fyrir áætlun. Og auðvitað má gera ráð fyrir því í þessu tilfelli, eins og flestum öðrum þegar ákvarðanir eru teknar um opinberar framkvæmdir, að menn hafi tekið ákvörðun með hliðsjón af þessari áætlun, en auðvitað líka í þeirri vissu að við höfum búið í þjóðfélagi þar sem verðlagsbreytingar eru örar og þar sem það er mjög algengt að skipulag opinberra framkvæmda er með þeim hætti að gerðar eru breytingar á byggingartíma. Ég hygg að þessar tvær almennu staðreyndir hafi ekki verið duldar neinum hv. þm. En eigi að síður liggur þessi áætlun fyrir og er eðlileg forsenda ákvarðanatöku.

Á byggingartímanum eru síðan teknar ákvarðanir um viðauka og viðbótarverkefni. Þessar ákvarðanir eru teknar lögum samkvæmt af þar til bærum stjórnvöldum. Hv. 4. þm. Norðurl. e. segir í ræðu sinni í dag að 1 milljarði kr. hafi verið eytt og sóað án heimilda. Þessi framkvæmd fer að vísu fram úr áætlun, en það kemur hvergi fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þær ákvarðanir sem teknar voru um viðauka við bygginguna af ýmsu tagi hafi verið gerðar án heimilda. Þvert á móti er ljóst að þær eru teknar af því stjórnvaldi sem hafði heimild til að taka slíka ákvörðun. Þessi fullyrðing styðst því ekki við nein rök. Hér er því um dylgjur og róg að ræða.

Hitt er svo annað mál, sem fram kemur í ábendingum Ríkisendurskoðunar, að við þurfum almennt að bæta skipulag við opinberar framkvæmdir þannig að bæði fjárveitingavaldinu og framkvæmdarvaldinu sé fullkomlega ljóst hver heildarmynd framkvæmda er á hverjum tíma þó að ákvarðanir séu teknar um breytingar. Ég fyrir mitt leyti tel að sú gagnrýni sem fram kemur af hálfu Ríkisendurskoðunar að þessu leyti eigi við rök að styðjast. En það segir ekki neitt um það og gefur enga vísbendingu um það að þeir sem fóru með þessi mál hafi á neinn hátt gerst brotlegir eða á þann hátt vanrækt sín störf að það sé ástæða til að kasta á þá þeirri rýrð sem gert hefur verið af ýmsum í þessari umræðu og í opinberri umfjöllun upp á síðkastið. Heimildirnar eru teknar lögum samkvæmt og ekki á neinn hátt verið að blekkja einn eða neinn. Það er farið fram á lánsfjárheimildir svo sem upphaflegu lögin gera ráð fyrir miðað við þær áætlanir sem byggingarnefnd hefur á prjónunum hverju sinni. Þetta er hin venjulega meðferð máls.

Hv. 7. þm. Reykv. spurði að því hvort ég hefði sem fjmrh. fengið öll gögn frá utanrrn. varðandi beiðnir um lánsfjárheimildir á meðan ég var í fjmrn. Hv. þm. veit að fjárlagavinna í fjmrn. fer fram á þann veg að fjmrh. fær að vísu ekki öll undirgögn frá ráðuneytum í sínar hendur, en allar staðreyndir mála koma á hans borð og við ákvarðanir og undirbúning varðandi lánsfjárlög þessa árs minnist ég ekki annars en að tekið hafi verið tillit til óska utanrrn. eins og þær bárust Fjárlaga- og hagsýslustofnun við undirbúning lánsfjárlaga fyrir þetta ár. Þau gögn, sem þannig berast á milli ráðuneyta, eru auðvitað ekkert leyndarmál. En ég efast um að á mitt borð hafi öll bréfaskipti þar að lútandi komið fram frekar en ýmsar aðrar framkvæmdir þó að meginlínur hafi verið kynntar viðkomandi ráðherra.

Sú stjórnsýsluendurskoðun sem Ríkisendurskoðun hefur framkvæmt dregur fram staðreyndir þessara mála. Það er auðvelt fyrir hvern og einn að draga ályktanir þar af. Og það er svolítið furðulegt í öllum þessum málflutningi og öllum þeim ásökunum sem hér koma fram að hv. 7. þm. Reykv. skuli bera á borð fyrir hv. alþm., eftir öll stóru orðin, að það sé ekki hægt að kalla þá menn til ábyrgðar, sem ábyrgðina bera, eftir venjulegum leiðum, ráðherra, með því að kalla saman landsdóm eða bera fram vantraust af því að það liggi ekki fyrir neinar upplýsingar fyrir Alþingi til að taka slíkar ákvarðanir og það þurfi sérstaka nýja rannsóknarnefnd til að draga það fram í dagsljósið. Það er einkennileg þversögn að tefla hér fram þingflokksformanni með ásakanir á einstaka menn um ábyrgð, svik og pretti, engar smáásakanir, að eyða og sóa án heimilda 1 milljarði kr. Það er engin smáásökun á ráðherra. (SvG: Hvar eru heimildirnar?) Síðan kemur hv. 7. þm. Reykv. og segir: Það liggur ekkert fyrir í málinu sem dugar til þess að draga menn til ábyrgðar. Þetta er meiri háttar þversögn. (SvG: Er ég of opinskár?) Ég skora á hv. 7. þm. Reykv., ef hann þorir, að bera fram vantrauststillögu og láta Alþingi skera úr hver nýtur trausts og hver nýtur ekki trausts í þessu máli. Ég skora á hv. þm. að gera það.

Aðalatriði málsins er að skýrslan dregur fram að það er ýmsu ábótavant varðandi skipulag við opinberar framkvæmdir. Það hefur líka komið fram við þessa framkvæmd. Ég hef ekki heyrt almenna ádellu á að þær ákvarðanir sem teknar voru um breytingar og viðauka við flugstöðina hafi ekki verið á rökum reistar. Þvert á móti hygg ég að færa megi að því mjög gild rök vegna aukinnar umferðar um flugstöðina að það hafi verið meira en lítil þörf fyrir þær úrbætur sem þarna áttu sér stað. En allt um það. Auðvitað má um það deila hvort þörf var á slíkum ákvörðunum eða ekki, en þau lög sem samþykkt voru fólu utanrrh. framkvæmd þessa máls og það kemur hvergi fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar annað en að teknar ákvarðanir hafi verið gerðar lögum samkvæmt. Ágallinn er sá að það er ekki unnin upp ný heildaráætlun þannig að málið liggi skýrt fyrir að teknum nýjum ákvörðunum á hverjum tíma. Þetta er kjarni málsins og það er ástæða til að taka undir þá gagnrýni. Þessi mistök hafa verið gerð við þessa framkvæmd eins og flestar aðrar opinberar framkvæmdir hér í landinu. Við skulum taka mark á niðurstöðum Ríkisendurskoðunar að þessu leyti. Við skulum taka mark á þessum athugasemdum því að þær eru gildar. Það er full ástæða til þess að gera það varðandi fjöldann allan af framkvæmdum sem nú eru í gangi. Ég mun fyrir mitt leyti beita mér fyrir því að það verði gert því að þessar ábendingar hafa við rök að styðjast og eru gildar. Ég tek mark á þeim og ég vil að við tökum ákvarðanir um breytt vinnubrögð til að standa betur að slíkum verkum en við höfum gert. Það á bæði við um framkvæmdarvaldið og Alþingi sjálft sem ákvarðanaaðila um lánsfjárheimildir og fjárveitingar og eftirlitsaðila með framkvæmdarvaldinu að réttilega sé að hlutum staðið. Mér finnst að þessi skýrsla hafi verið þörf og gagnleg og að því leyti sem þessar umræður hafa beinst að þessum málefnalegu athugasemdum í dag hafa þær verið gagnlegar. Ég vona og vænti þess að hvort tveggja, skýrslan og umræðurnar að því leyti sem þær hafa snúist að þessum meginatriðum, leiði til þess að betri vinnubrögð verði viðhöfð í þessum efnum í framtíðinni þannig að meira og betra skipulag verði viðhaft.

En fullyrðingar um að eytt hafi verið og sóað án heimilda eru ekki reistar á rökum. (Gripið fram í: Víst.) En fullyrðingar um að betur hefði mátt standa að verki, að gera hefði átt nýjar áætlanir samfara því sem ákvarðanir um breytingar voru teknar eru gildar og við eigum að taka mark á þeim. Við eigum að læra af þeim ábendingum sem hér hafa komið fram og þeim mistökum sem hafa verið gerð og við vitum að við erum að gera í ýmsum opinberum framkvæmdum sem á döfinni eru. Ég vænti þess enn á ný, herra forseti, að þessi umræða megi leiða til jákvæðra breytinga.