17.12.1987
Sameinað þing: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2465 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

Greinargerð utanrrh. um byggingu flugstöðvar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér satt að segja að koma hér upp aftur. Ég flutti almenna ræðu um þann vanda sem lýðræðið og þingræðið eiga við að búa þegar svona mál koma upp og mér fannst satt að segja óþarfi af hæstv. forsrh. að flytja af því tilefni almenna og heldur lítið frumlega skætingsræðu í framhaldi af því sem ég hafði um þessi mál að segja. Ég tel að ég hafi hagað máli mínu eins áreitnislítið og ég gat miðað við þær aðstæður sem hér eru uppi.

Þegar menn eru komnir út á það plan að segja að málflutningur okkar líkist einna helst því að spurt yrði: Gerðuð þið þinginu grein fyrir því þegar þið lögðuð það til að reykskynjarar yrðu skornir niður í hönnunarforsendum flugstöðvarinnar, þá finnst mér satt að segja að menn séu farnir að seilast býsna langt til að reyna að verja stöðu sína. Svona tal ber auðvitað ekki vott um neitt annað en að hæstv. forsrh. er í þröngri stöðu og á dálítið bágt og sellist þess vegna býsna langt eftir orðum til að reyna að vega andstæðinga sína, en orð af þessu tagi hitta hann sjálfan fyrir fremur en okkur hin. Vandinn er ekki sá eins og hann setti þetta upp. Spurningin var ekki um það númer eitt, tvö og þrjú: Voru þetta óhjákvæmileg verkefni sem þarna þurfti að vinna? Spurningin var um að þarna var eytt og sóað án heimilda.

Í þessum efnum ber hæstv. forsrh. og fyrrv. fjmrh. fyrir sig almenn lög. Það er alveg kostuleg afstaða. Með þessari lögskýringu sinni er hæstv. forsrh. að segja að heilbrmrh. geti tekið ákvörðun um útgjöld í hvað sem er í heilbrigðissektornum ef hann telur það óhjákvæmilegt. Með þessu er hann t.d. að segja að bréf fyrrv. hæstv. ráðherra Ragnhildar Helgadóttur um D-álmuna í Keflavík eða sneiðmyndatæki Borgarspítalans, sem voru send út án samráðs við fjmrn. í upphafi, hafi fullt gildi og fjmrn. beri að hlýða þeim og leggja út peninga samkvæmt þessum bréfum. Hæstv. ráðherra veit eins vel og ég að þetta er ekki svona. Og þó að flugstöðin sé lögð til utanrrh. með lögum er ekki þar með sagt að hann gangi með opið tékkhefti og borgi hvað sem er í sambandi við flugstöð. Það gengur ekki þannig fyrir sig. Hann verður að hafa heimild Alþingis í þessu efni. Er þessi heimild í lánsfjárlögum ársins 1984? Er þessi heimild í lánsfjárlögum 1985, 1986, 1987 og í frv. 1988? Jú, það er tæpt á þessum heimildum og þar eru tilteknar upphæðir. En það er ljóst að það er farið fram úr þessum heimildum. Það er það sem við erum að segja og erum að spyrja: Hvernig getur Alþingi sett niður reglur sem eru þannig að ábyrgðin sé skýr þegar svona hlutir koma fyrir? Það er það sem við erum að ræða hér um. Þetta er grundvallaratriði.

Ég var í minni ræðu að tala um almennar reglur um ábyrgð opinberra sýslunarmanna, þar á meðal ráðherra, og það er óþarfi af hæstv. forsrh. að reyna að fara á rúlluskautum í kringum þetta mál eins og við værum á kappræðufundi milli Heimdallar og Æskulýðsfylkingarinnar. Við skulum reyna að horfast í augu við þann vanda að það er ekki, því miður, í þjóðfélaginu samkomulag um hvernig á að taka á uppákomum af þessu tagi þannig að ábyrgðin sé skýr. Ég er ekki að biðja um krossfestingar né að hengja neinn einstakan heldur það að leikreglurnar séu skýrar. Það er það sem skiptir máli fyrir okkur ef við viljum endurreisa virðingu þessarar stofnunar, ef við meinum eitthvað með því sem við segjum, að við viljum reisa og endurreisa virðingu Alþingis.

Ég tel að í ræðu sinni áðan hafi hæstv. forsrh. gengist við málinu fyrir sitt leyti sem fyrrv. fjmrh. Ég tel að hann hafi gert það.

Og svo að lokum þetta, herra forseti: Ég ræddi um þann möguleika sem þingið hefur í svona málum, annars vegar vantrauststillögur og hins vegar landsdómur. Það eru þau fræðilegu úrræði, lagalegu úrræði sem þingið hefur. Það þýðir auðvitað ekkert að koma í þennan stól og segja við mig eða einhvern annan þm. með þjósti: Kærðu mig bara fyrir landsdómi, flyttu bara tillögu um vantraust. Ég hélt að við gætum rætt þetta mál af fullri alvöru og einlægni með rökum og í rólegheitum vegna þess að við verðum að skilja að vandinn hvílir á þinginu öllu og menn leysa ekki vandann með svona æfingum, oratorískum æfingum. Það gerist ekki þannig, herra forseti.

Og varðandi till. um vantraust á hæstv. samgrh. eða forsrh. út af þessu máli. Það er hugsanlegt að stjórnarandstöðuflokkarnir mundu styðja slíka till. Ég veit ekkert um það. Ég hef ekki rætt við Kvennalistann eða Borgarafl. um það mál. Það hefur satt að segja ekki verið sérstaklega á dagskrá vegna þess að ég geri ekki ráð fyrir að stjórnarflokkarnir styðji slíka till. Þó veit ég ekki með Alþfl. Er kannski, svo ég bregði mér í kappræðufundarrökaðferðirnar, hæstv. forsrh. að gefa í skyn að það sé von í Alþfl. í þessu efni? Þá er best að kanna það.